Skip to main content
7. október 2020

Aðalbyggingin eitt mikilvægasta verk Guðjóns Samúelssonar

Aðalbygging

Þjóðleikhúsið, Sundhöllin, Landspítalinn, Hallgrímskirkja, Akureyrarkirkja, Héraðsskólinn á Laugarvatni og Aðalbygging Háskóla Íslands. Flest okkar þekkja þessar byggingar enda setja þær sterkan svip á umhverfi sitt, hver með sínum hætti. Þær eiga það jafnframt sameiginlegt að hafa sprottið upp úr huga sama mannsins, arkitektsins og húsameistarans Guðjóns Samúelssonar. Verk Guðjóns eru viðfangsefni nýrrar bókar eftir Pétur H. Ármannsson sem segir Aðalbyggingu eitt mikilvægasta verk arkitektsins afkastamikla.

Í bókinni fjallar Pétur um verk og hugmyndir Guðjóns Samúelssonar út frá sérstöðu hans sem háskólamenntaðs arkitekts en Guðjón var fyrstur Íslendinga á 20. öld til að ljúka háskólaprófi í byggingarlist. Skömmu eftir að hann kom heim úr námi frá Kaupmannahöfn, árið 1920, tók Guðjón við stöðu húsameistara ríkisins og gegndi því embætti í þrjátíu ár, allt til dauðadags árið 1950. Á þessu tímabili hannaði hann ásamt samstarfsmönnum sínum flestar opinberar byggingar hins fullvalda ríkis og gaf helstu stofnunum þess sýnilegt og áþreifanlegt form. Þeirra á meðal er fyrsta háskólabygging landsins, Aðalbygging Háskóla Íslands sem byggð var á árunum 1936-1940 og er því 80 ára í ár.

Pétur segir áhuga sinn á verkum Guðjóns ná allt aftur til 9. áratugar 20. aldar þegar hann vann að tveimur sýningum tengdum húsameistaranum mikla. Hann hafi svo fengið styrk snemma á þessari öld til að vinna drög að verkaskrá Guðjóns á vegum byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur og í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands. „Frekari rannsóknir á einstökum byggingum fylgdu í kjölfarið, m.a. greinar um fjórar kirkjuteikningar Guðjóns í sem birtust í ritsafninu um Kirkjur Íslands. Það var svo árið 2015 að ég hóf skipulega vinnu við undirbúning bókarinnar um Guðjón Samúelsson húsameistara sem var hugsuð sem framlag í ritröð Hins íslenska bókmenntafélags um íslenska arkitekta og hönnuði,“ segir Pétur sem heimsótti Aðalbyggingu á dögunum og færði Jóni Atla Benediktssyni rektor eintak af nýju bókinni. 

Teiknaði fjórar tillögur að háskólabyggingu á Íslandi

Aðspurður segir Pétur að skortur á heimildum um ævi Guðjóns hafi sett sett verkefninu vissar skorður. „Engin einkabréf eða dagbækur hafa varðveist sem veitt gátu innsýn í daglegt líf og viðhorf mannsins að baki verkunum, um þau ævintýri sem hann upplifði á viðburðarríkri ævi, hugarheim hans og viðhorf til manna og málefna. Enginn skortur var hins vegar á heimildum um allt er snerti byggingar hans og embættisstörf auk þess sem hann skrifaði skrifaði í blöð og tímarit um fagleg málefni og einstök hús,“ segir Pétur en við þetta má bæta að til er ítarleg dagbók eftir byggingameistara Aðalbyggingar sem veitir ómetanlega innsýn í byggingu hússins.

Haborg islenskrar menningar

Teikning Guðjóns af Háborg íslenskrar menningar á Skólavörðuholti frá 1924 þar sem gert var ráð fyrir húsnæði fyrir Háskóla Íslands. 

Óhætt er að segja að Guðjón hafi brunnið fyrir byggingu fyrir Háskóla Íslands því hann gerði alls fjórar slíkar tillögur á ferli sínum. „Sú elsta þeirra var skólaverkefni í klassískum stíl, „Et Universitet paa Island“, sem hann lauk við vorið 1915. Árið 1917 vann Guðjón tillögu að stúdentagarði og viðbyggingu sunnan og vestan við Alþingishúsið en á þeim tíma var háskólinn til húsa á neðri hæð þinghússins. Þriðja háskólateikningin var hluti af tillögu að skipulagi á Skólavörðuholti frá 1924, betur þekkt sem „Háborg íslenskrar menningar“. Þar áttu háskólabygging og stúdentagarður að rísa við austanvert torg efst á hæðinni. Að mati borgaryfirvalda var ekki nægilegt landrými fyrir framtíðarvöxt háskólans á Skólavörðuholti og árið 1930 bauð borgin háskólanum stórt svæði á Melunum sunnan Hringbrautar. Guðjón kom ekki að þeirri ákvörðun en honum var falið að móta skipulag lóðarinnar. Hann valdi Aðalbyggingunni stað efst í hallanum og setti fram hugmyndina um skeifuna og tilhögun bygginga umhverfis hana,“ segir Pétur.

„Aðalbyggingin er ásamt Þjóðleikhúsinu eitt mikilvægasta verk Guðjóns Samúelssonar og ótvíræður hápunktur í byggingarlist hans frá 4. áratug 20. aldar. Hún átti sér lengri aðdraganda en flest önnur verkefni hans. Með henni rættist æskudraumur Guðjóns frá námsárunum í Kaupmannahöfn um að teikna byggingu fyrir hinn nýstofnaða Háskóla Íslands,“ segir Pétur H. Ármannsson arktitekt, höfundur bókarinnar um verk Guðjóns Samúelssonar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Hugmyndasmiðurinn á bak við Happdrætti Háskóla Íslands

Það verður að teljast magnað að fátækri þjóð eins og Íslendingum hafi á aðeins fjórum árum, í kjölfar heimskreppu og í skugga heimsstyrjaldar, tekist að reisa byggingu undir starf Háskóla Íslands. Hugmyndaauðgi Guðjóns hafði þar töluvert að segja. „Aðalbyggingin er ásamt Þjóðleikhúsinu eitt mikilvægasta verk Guðjóns Samúelssonar og ótvíræður hápunktur í byggingarlist hans frá 4. áratug 20. aldar. Hún átti sér lengri aðdraganda en flest önnur verkefni hans. Með henni rættist æskudraumur Guðjóns frá námsárunum í Kaupmannahöfn um að teikna byggingu fyrir hinn nýstofnaða Háskóla Íslands. Guðjón teiknaði ekki aðeins sjálfa bygginguna heldur fékk hann tækifæri til að móta skipulag og staðhætti á allri háskólalóðinni með listræna heildarsýn að leiðarljósi. Þá segja heimildir að Guðjón hafi fyrstur komið fram með þá hugmynd að fjármagna byggingar á vegum háskólans með einkaleyfi á rekstri peningahappdrættis,“ segir Pétur og vísar til Happdrættis Háskóla Íslands sem hefur allt frá árinu 1934 stuðlað að uppbyggingu á háskólasvæðinu.

Adalbygging

Afar gott útsýni er yfir Vatsmýri og Öskjhlíð úr Aðalbyggingu.

Pétur bendir enn fremur á að Guðjón hafi ekki aðeins teiknað bygginguna heldur verið vakinn og sofinn yfir hverju smáatriði í tengslum við hana. „Þar ber hæst merkar tilraunir hans með notkun innlendra jarðefna í ýmsum myndum, innan dyra sem utan,“ segir Pétur. Þá hannaði Guðjón einnig stóla og borð inn í kennslustofur og stóla í Hátíðasal.

Var marga klukkutíma á dag við eftirlit með byggingu Aðalbyggingar

Þegar hann er inntur eftir því hvað hafi komið honum mest á óvart við rannsóknir tengdar hönnun og byggingu Aðalbyggingar segir Pétur að það hafi verið sú mikla áhersla sem Guðjón lagði á að sami maður stæði fyrir sköpun verksins og framkvæmd þess. „Hann var að eigin sögn við eftirlit marga klukkutíma á degi hverjum meðan stóð á vandasömustu verkþáttunum við Aðalbygginguna. Sjálfur sagði hann svo frá að erfiði sitt við háskólabygginguna hafi minnst verið fólgið í vinnunni við sjálfa teikninguna heldur í eftirliti með smíði hússins og að fá framkvæmdar fjölmargar þær nýjungar í íslenskri byggingartækni, sem þar voru gerðar,“ segir Pétur.

Ýmsar flökkusögur hafa gengið um hönnun Aðalbyggingar og ein sú lífseigasta að Guðjón hafi ekki gert ráð fyrir snyrtingum í byggingunni. Pétur segir það ekki rétt. „Á uppdráttum Guðjóns af Aðalbyggingunni frá 1937 var gert ráð fyrir snyrtingum á öllum hæðum hússins. Þessi flökkusaga á því ekki við rök að styðjast. Hins vegar voru almennt minni kröfur gerðar um fjölda salerna í opinberum byggingum á þessum árum miðað við það sem krafist er í dag,“ bendir hann á.

haskolasvaedi

Guðjón valdi Aðalbyggingunni stað efst í hallanum á Melunum og setti fram hugmyndina um skeifuna og tilhögun bygginga umhverfis hana.

Aðalbygging helsta táknmynd Háskólans

Hlutverk Aðalbyggingar hefur breyst mikið í tímans rás eftir því sem háskólabyggingum hefur fjölgað og hlutverk hennar sem kennslubyggingar hefur minnkað mikið frá því að hún var fyrst opnuð árið 1940. Aðspurður hvað hann telji að Guðjóni fyndist um það segir Pétur að hann hafi haft líkt og flestir arkitektar skilning á því að nýting húsrýmis í byggingum taki breytingum í tímans rás. „Innra skipulag byggingarinnar var ákveðið með sveigjanleika í nýtingu herbergja í huga og hefur það sannað sig í tímans rás. Aðalbyggingin hefur frá upphafi verið sjónræn þungamiðja háskólasvæðisins og helsta táknmynd skólans og vonandi verður svo um ókomna tíð,“ segir Pétur að endingu.

Jón Atli Benediktsson og Pétur H. Ármannsson