Á sjöunda tug rannsóknastyrkja til vísindamanna sem tengjast HÍ
Vísindamenn Háskóla Íslands og tengdra stofnana hlutu sjö af níu öndvegisstyrkjum sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Íslands í ár og samtals 65 styrki alls úr sjóðnum. Niðurstöður úthlutunar voru kynntar í dag.
Rannsóknasjóður Íslands er samkeppnissjóður, hýstur hjá Rannís, sem styrkir árlega rannsóknaverkefni á öllum sviðum vísinda við íslenskar stofnanir, allt frá styrkjum til doktorsnema til öndvegisstyrkja. Styrkir eru að jafnaði veittir til þriggja ára í senn.
Undanfarin ár hafa framlög í sjóðinn verið um 2,5 milljarðar en m.a. til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins og styðja við aukið vísindastarf og nýsköpun þekkingar í landinu ákváðu stjórnvöld að veita 3,7 milljarða króna í sjóðinn í ár. Hefur úthlutuð heildarupphæð hafa aldrei verið hærri.
Að þessu sinni bárust sjóðnum 402 gildar umsóknir og voru 82 þeirra styrktar eða rúmlega 20% umsókna.
Hæstu styrkirnir sem Rannsóknasjóður veitir eru svokallaðir öndvegisstyrkir en þeir renna til stórra verkefna sem þykja skara fram úr á sínu sviði og hafa alþjóðlega tengingu. Alls var níu slíkjum styrkjum úthlutað að þessu sinni og koma sjö þeirra í hlut vísindamanna Háskóla Íslands og tengdra stofnana. Þeir eru m.a. á sviði umhverfis- og byggingarverkfræði, lífvísinda, læknavísinda, þjóðfræði og sagnfræði.
Alls voru 38 verkefnisstyrkir á fjölbreyttum fræðasviðum veittir að þessu sinni og 28 þeirra hljóta vísindamenn HÍ og tengdra stofnana. Styrktar rannsóknir eru m.a. á sviði eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, tölvunarfræði, líffræði, vistfræði, lífvísinda, lýðheilsu, kynjafræði, stjórnmálafræði, menntavísinda, fötlunarfræði og íslenskrar bókmennta og málfræði.
Nærri tvöfalt fleiri nýdoktorarstyrkir voru veittir í ár en í fyrra, eða 17 talsins, og koma þeir allir í hlut ungra vísindamanna við Háskóla Íslands. Rannsóknir þeirra snerta fjölbreytt svið verkfræði, náttúruvísinda, hugvísinda, félagsvísinda og heilbrigðisvísinda.
Þá koma 13 af 18 doktorastyrkjum úr Rannsóknarsjóðnum í hlut doktorsnema við Háskóla Íslands. Þeir fást m.a. við arkitektúr kvikukerfisins í Öræfajökli, reynslu ungmenna af COVID-19-faraldrinum, drifkrafta í samskiptum háhyrninga, rakningu á ferðalagi fósturfruma í þroskun fylgju og meðgöngueitrun, lestur í samtímanum, handrit Egilssögu, samfélagsneðansjávarfornleifafræði og rannsóknir á söfnum.
Yfirlit yfir styrkt verkefni úr Rannsóknasjóði Íslands má nálgast á vef Rannís.
Háskóli Íslands færir styrkþegum innilegstu hamingjuóskir með styrki úr Rannsóknasjóði Íslands.