Skip to main content

Franska - Grunndiplóma

Franska - Grunndiplóma

Hugvísindasvið

Franska

Grunndiplóma – 60 einingar

Grunndiplóma í frönsku veitir nemendum góða þekkingu á franskri tungu, bókmenntum, menningu, sögu og þjóðlífi hins frönskumælandi heims.

Skipulag náms

X

Frönsk málfræði I (FRA101G)

Námskeiðið Frönsk málfræði I er skyldunámskeið.

Í þessu námskeiði er farið dýpra í málfræði atriði sem nemendur unnu með í framhaldskóla. Áhersla er lögð á notkun málfræðihugtaka í námi og kennslu þar sem nemendur þurfa að útskýra í orði og dæmum tiltekin málfræðiatriði.

Mikilvægt er að nemendur temji sér sjálfstæð vinnubrögð og komi undirbúnir í tíma.

Kennslan skiptist í fyrirlestra og æfingatíma.

X

Framburður (FRA104G)

Nemendur eru þjálfaðir í framburði og læra hljóðritun. Gert er ráð fyrir einum fyrirlestratíma (1x 40 mín.) per viku þar sem farið er yfir grunnhugtök og aðferðir í almennri hljóðfræði og einum og hálfum æfingatíma per viku í málveri

X

Franskt samfélag I – Dægurmenning (FRA106G)

Í þessu námskeiði þjálfast nemendur bæði í að skrifa og tala frönsku. Fjallað verður um ýmis málefni, s.s. tónlist, kvikmyndir og fleira úr dægurmenningu og deiglunni í Frakklandi og frönskumælandi löndum. Notast verður við fjölmiðla og samfélagsmiðla, kvikmyndir og fleira.

Rætt verður um efnið og nemendur fá tækifæri til að þjálfa framsetningu.

Nemendur fá þjálfun í að skrifa stutta og hnitmiðaða texta um ólík efni á frönsku. Þeir fá æfingu í að draga saman efni, endursegja, umorða, færa skrifleg rök fyrir máli sínu og byggja upp texta á skýran hátt. Einnig venjast þeir notkun orðabóka og annarra hjálpargagna.

X

Þýðingar I (FRA113G)

Í þessu námskeiði eru nemendur þjálfaðir í að lesa, skilja og þýða létta og miðlungs þunga texta af frönsku yfir á íslensku. Unnið verður með texta af ýmsum gerðum: blaðagreinar, blogg, hagnýta texta og bókmenntatexta. Einkenni textanna verða rædd og fjallað verður um ólík málsnið og málfræðileg atriði sem geta vafist fyrir þýðendum. Nemendur kynnast notkun orðabóka og annarra hjálpargagna.

X

Sérverkefni í þýðingum (FRA022G)

Í þessu verkefni fær nemandi tækifæri til að auka færni sína í þýðingum af frönsku á íslensku. Verkefni eru valin í samráði við kennara.

X

Sérverkefni í lestri (FRA110G)

Lestrarverkefni í frönskum bókmenntum. Nemendur hafi samband við umsjónarkennara.

X

Sérverkefni í framburði (FRA111G)

Þjálfun í framburði.

X

Franskt samfélag III – Franska, fjöltyngi og fjölmenning í Frakklandi (FRA319G)

Í námskeiðinu verður sjónum beint að stöðu frönskunnar – bæði í Frakklandi og sem og á alþjóðavettvangi. Einnig verður fjallað um áhrif og stöðu frönsku í fyrrum nýlendum Frakklands.

Áhersla verður lögð á að nemendur æfist í að færa rök fyrir máli sínu í skriflegum verkefnum sem og draga saman og gera grein fyrir efni námskeiðs í ræðu og riti.

X

Frönsk ævintýri, frá miðöldum til upplýsingar (FRA434G)

Ævintýri settu svip sinn á elstu verk franskra bókmennta eins og sjá má, t.d. í Strengleikum. Ævintýraritun hófst svo af kappi í lok 17. aldar þegar Mme d‘Aulnoy, Charles Perrault, Mlle L‘Héritier de Villandon og fleiri gáfu út verk sín (Öskubuska, Bláskeggur, Sælueyjan, Blái fuglinn, Ricdin Ricdon …). Stuttu síðar kom út þýðing Antoines Gallands á Þúsund og einni nótt og ýtti hún enn frekar undir áhuga á bókmenntagreininni. Sagan um Fríðu og Dýrið var gefin út árið 1740 og var, ásamt fleiri ævintýrum, tekin inn í safnrit ætlað börnum, í styttri útgáfu og endurskoðaðri. Í námskeiðinu verða lesin ævintýri eftir ýmsa höfunda og einkenni þeirra skoðuð með hliðsjón af tísku og tíðaranda. Sjónum verður beint að hlut þeirra kvenna sem stigu fram á ritvöllinn á þessum tíma, myndun ævintýrasafna og rammafrásagna, og ævintýrum í barnabókmenntum á síðari hluta 18. aldar. Einnig verður litið til íslenskra þýðinga á frönskum ævintýrum á tímabilinu.

Námskeiðið verður kennt á íslensku. Fyrir nemendur í frönsku verður boðið upp á vikulegan aukatíma (40 mín.) á frönsku.

Samhliða þessu námskeiði geta nemendur skráð sig í FRA505G Sérverkefni: Frönsk ævintýri, frá miðöldum til upplýsingar 4e. Þar fá þeir tækifæri til að vinna nánar með efni námskeiðsins.

X

Franskt samfélag II – Frönsk tunga í takt við tímann (FRA201G)

Í þessu námskeiði verður fjallað um franskt tungumál í dag og sjónum beint að ólíkum málsniðum. Jafnframt verður fjallað um helstu breytingar sem hafa orðið á frönsku á undanförnum áratugum, einkum hvað varðar kvenkynsmyndir nafnorða sem og kynhlutlaust mál. Í þessu skyni verða blaðagreinar um dægurmenningu og franskt þjóðlíf lesnar sem og vísindagreinar um þróun og stöðu franskrar tungu. Einnig verður stuðst við dægurlagatexta sem og útvarpsþætti/hlaðvarpsþætti og sjónvarpsefni. 

Æfingar beinast að margvíslegum atriðum sem tengjast málsniði og stíl, orðavali, málfræði, setningagerð og textabyggingu.

 Áhersla verður lögð á að nemendur æfist í að færa rök fyrir máli sínu í skriflegum verkefnum sem og draga saman og gera grein fyrir efni námskeiðs í ræðu og riti.

X

Saga Frakklands (FRA203G)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á sögu Frakklands frá forsögulegum tíma til tuttugustu aldar.

X

Frönsk málfræði II (FRA205G)

Farið er í neitun, spurningu, einkunnarorð, tilvísunarfornöfn, og viðtengingarhátt.

Nemendur skulu hafa lokið Frönsk málfræði og ritun  á haustmisseri.

Áhersla er lögð á notkun málfræðihugtaka í námi og kennslu þar sem nemendur þurfa að útskýra í orði og dæmum tiltekin málfræðiatriði.

Mikilvægt er að nemendur temji sér sjálfstæð vinnubrögð og komi undirbúnir í tíma.

Kennslan skiptist í fyrirlestra og æfingatíma.

X

Franskar bókmenntir og menning (FRA214G)

Námskeiðið er skyldunámskeið í BA-námi í frönskum fræðum og kemur í stað námskeiðsins DET205G Inngangur að bókmenntum. Námskeiðið er nauðsynlegur undanfari annarra bókmenntanámskeiða í greininni við Háskóla Íslands og í skiptinámi við erlenda háskóla.

Nemendur kynnast ólíkum tegundum franskra bókmennta og lesa smásögur, ljóð og brot úr leikritum og skáldsögum frá ýmsum tímabilum. Þeir fá yfirlit yfir strauma og stefnur í bókmenntafræði og franskri bókmenntasögu.

X

Sérverkefni í þýðingum (FRA022G)

Í þessu verkefni fær nemandi tækifæri til að auka færni sína í þýðingum af frönsku á íslensku. Verkefni eru valin í samráði við kennara.

X

Saga og menning fyrri alda í frönskum kvikmyndum (FRA412G)

Frönsk saga og menning á 16., 17. og 18. öld einkenndist af uppgangi og hnignun einveldis í landinu sem náði hápunkti á dögum Loðvíks 14. og endaði í frönsku byltingunni. Í þessu námskeiði verður litið til birtingarmynda sögunnar í nokkrum frönskum kvikmyndum, nýjum eða nýlegum, og þær greindar með hliðsjón af sagnfræðilegu gildi og/eða sem aðlögun á bókmenntatexta. Áhersla verður lögð á þær pólitísku hræringar sem skóku franskt samfélag frá endurreisn til upplýsingar: trúarbragðastríðin á 16. öld, uppreisnir aðalsins á 17. öld, frönsku byltinguna á 18. öld.

Námskeiðið verður kennt á íslensku og kvikmyndirnar sýndar textaðar. Fyrir nemendur í frönsku verður boðið upp á vikulegan aukatíma (40 mín.) á frönsku.

Samhliða þessu námskeiði geta nemendur skráð sig í FRA604G Sérverkefni: Franskar kvikmyndir, frá endurreisn til upplýsingar 4e. Þar fá þeir tækifæri til að vinna nánar með efni námskeiðsins.

X

Sérverkefni: Sjálfsögur (FRA605G)

Nemendur geta tekið þetta 4e sérverkefni samhliða námskeiðinu FRA440G Sjálfsögur til að fá tækifæri til að vinna nánar með efni námskeiðsins.

Nemendur skulu hafa samband við umsjónarmann verkefnisins til þess að óska eftir skráningu eigi seinna en 1. október 2024.

X

Sjálfsögur (FRA440G)

Námskeiðið fjallar um  sjálfsævisögur, sjálfssögur og minnistexta frá seinni hluta 20. aldar og upphafi 21. aldar í Frakklandi og öðrum frönskum málsvæðum, svo sem Senegal, Alsír og Marokkó. Skoðað verður hvernig þrír þættir sjálfsævisögunnar – sjálfið, ævin og sagan  –  sameinast eða takast á í verkum ólíkra höfunda. Áherslan verður á sjálfs(ævi)söguleg skrif sem lýsa samfélagslegum, mennningarlegum og pólitískum aðstæðum og byggja á minni. Spurt verður hvernig endurminningar og upprifjun birtast í bókmenntum og kannað með hvaða hætti gleymskan gegnir lykilhlutverk í slíkum frásögnum. Verk þar sem höfundar gera glímu sína við minnið og gleymskuna og mörkin milli skáldskapar og veruleika að viðfangsefni verða í fyrirrúmi. 

Námskeiðið verður kennt á íslensku með einum aukatíma á frönsku á viku fyrir nemendur í Frönskum fræðum.

Nemendur í námskeiðinu geta tekið 4 eininga sérverkefni samhliða því, FRA605G, og verða að tala við kennara fyrir 1. október til að skrá sig í verkefnið. 

X

Sérverkefni í lestri (FRA110G)

Lestrarverkefni í frönskum bókmenntum. Nemendur hafi samband við umsjónarkennara.

X

Sérverkefni í framburði (FRA111G)

Þjálfun í framburði.

X

Notkun tungumálsins (FRA431G)

Í þessu námskeiði er lögð áhersla á skapandi skrif. Nemendur fá þjálfun í að skrifa örstutta texta og ljóð af ólíkum toga, á frönsku, og vinna saman að ritun smásögu í anda road movie. Nemendur kynnast ólíkum tegundum af stuttum textum, allt frá skrifum La Bruyère á 17. öld til Nýju skáldsögunnar (Marguerite Duras, Alain Robbe-Grillet), OuLiPo, Raymond Queneau og Georges Perec, ásamt ýmsum fleiri tegundum af stuttum textum. Námskeiðinu lýkur með viðburði í Alliance française. Nemendur vinna undri leiðsögn franska rithöfundarins, Alexandre Labruffe, sem hefur sent frá sér fjórar skáldsögur og hefur sérstakan áhuga á hinu stutta formi innan bókmenntanna.

X

Talfærninámskeið í Frakklandi (FRA438G)

Nemendur dvelja í tvær vikur við Université de Rennes í Frakklandi og taka þátt í námskeiði í talfærni, þjóðlífi og menningu Frakklands sem er sérsniðið að nemendum frönskudeildar H.Í. Nemendur taka þátt í umræðum um ýmis málefni úr samtímanum og kynnast sögu og menningu landsins. Námskeiðið er alla jafna haldið í 7. og 8. viku vormisseris. Hámarksfjöldi miðast við 18 nemendur og hafa þeir nemendur forgang sem eru skráðir í grunndiplóma og frönsku sem aðalgrein til 120 eða 180 eininga.

Námsmat:
Þátttaka: 50%
Fyrirlestur: 25%
Skriflegt verkefni: 25%

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Anna Kristín Ásbjörnsdóttir
Sumarliði V Snæland Ingimarsson
Dorota Julia Kotniewicz
Anna Kristín Ásbjörnsdóttir
Frönsk fræði - BA nám

Að skrá mig í Frönsk fræði í Háskóla Íslands er ein af mínum bestu ákvörðunum í lífinu. Kennarar og starfsfólk HÍ leggja sig fram við að gera námið eins skipulagt og kostur er, sem auðveldar aðgengi og eykur afköst. Ég fór í námið til að öðlast meiri þekkingu á frönsku, en við það bætist svo miklu meira. Auk þess sem að námið kennir manni að takast á við verkefni með skipulögðum, vísindalegum vinnubrögðum, þá stækkar það líka tengslanetið og opnar dyr að nýjum tækifærum.

Sumarliði V Snæland Ingimarsson
Frönsk fræði - BA nám

Frönsk fræði urðu fyrir valinu vegna þess að mig hefur langað til að læra frönsku alveg síðan í framhaldsskóla. Sem ástæðu má nefna að tungumálið getur opnað margar dyr í frekara nám og á atvinnumarkaði. Svo langar mig auðvitað að geta slegið um mig á franskri tungu úti á götu eins og ekkert væri eðlilegra. Námið er mjög fjölbreytt og gefur manni ekki aðeins aukna færni í þessu fallega og útbreidda tungumáli, heldur fær maður einnig góða innsýn inn í sögu, menningu, og samfélag Frakklands. Verkefnin eru af ýmsum toga og hef ég á mínu fyrsta námsári lesið smásögur, unnið að þýðingum, lesið og greint frönsk leikrit, horft á kvikmyndir og heimildarmyndir, þjálfað framburð, og öðlast þjálfun í skapandi skrifum. Námið kallast líka á við samtímann þar sem við mætum á franska kvikmyndahátíð og veljum okkur bíómynd til að gagnrýna, eða þegar við vinnum þýðingar úr nýlegum blaðagreinum sem fjalla um málefni líðandi stundar. Þá er mikil áhersla lögð á samræður í tímum til að bæta tjáningarfærni, bæði í hversdeginum og innan akademíunnar. Hóparnir eru nógu litlir til að allir fái sitt pláss og geti tekið virkan þátt. Það sem stendur upp úr eru svo kennararnir sem leggja sig alla fram við að veita nemendum faglega og persónulega ráðgjöf og hjálpa þeim að þróa sína leið í náminu. Þá má ekki gleyma að hægt er að fara í skiptinám á 2. námsári til fjölda borga og bæja í Frakklandi, Belgíu, og víðar!

Dorota Julia Kotniewicz
Frönsk fræði - BA nám

Frönskunámið er svo sérstakt í mínum huga því að annars vegar bjóðast leiðir sem falla vel að áhuga hvers og eins, hvort sem það eru þýðingar, málfræði eða saga, og hins vegar færðu líka hvatningu til að kynna þér viðfangsefni sem þú hafðir ekki pælt í áður. Þó að það sé vissulega áskorun að allt námið fer fram á frönsku tekur ekki langan tíma að venjast því og þú ert farin að hugsa á frönsku í bílnum á leiðinni heim án þess að fatta það. Ég valdi frönsku til BA-prófs vegna þess að ég hef ástriðu fyrir tungumálum og bókmenntum og nú þegar ég er að ljúka öðru árinu sé ég að allir þættir námsins eru samtvinnaðar og styðja við það sem ég hef mestan áhuga á og veita mér dýpri skilning á viðfangsefninu.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.