Háskóli Íslands aðili að yfirlýsingu um loftslagsmál
Háskóli Íslands er í hópi þeirra 103 stofnana og fyrirtækja á Íslandi sem undirrituðu á mánudag yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum. Yfirlýsingin er gerð í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París 30. nóvember – 11. desember.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ritaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd háskólans en samkvæmt henni skuldbinda aðilar yfirlýsingarinnar sig til að setja sér markmið og fylgja þeim eftir með aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úr úrgangi. Auk þess verður árangur mældur og upplýsingum um stöðu mála miðlað reglulega.
Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, efndu til þessa samstarfs og markar undirskriftin formlegt upphaf verkefnisins. Það er hugsað sem hvatning til rekstraraðila um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sýna þannig frumkvæði og ábyrgð gagnvart umhverfinu og samfélaginu.
Fyrirtækin og stofnanirnar 103 sem skrifuðu undir eru af ýmsum toga, stór og lítil fyrirtæki, framleiðslufyrirtæki, fyrirtæki í iðnaði og þjónustu, háskólar og sum þeirra menga meira en önnur. Samanlagður starfsmannafjöldi fyrirtækjanna er rúmlega 43 þúsund og því til viðbótar mætti telja rúmlega 30 þúsund nemendur í þeim skólum sem tengjast menntastofnunum sem taka þátt í verkefninu. Þjónusta þessara fyrirtækja og stofnana tengist öllum landsmönnum með einum eða öðrum hætti.
Tuttugasta og fyrsta Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verðir haldin í París í byrjun desember og þar verður Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna vegna loftslagsbreytinga (UNFCCC) samþykktur, en markmið hans er að sporna við hnattrænni hlýnun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Háskóli Íslands mun eiga sína fulltrúa á þessari mikilvægu ráðstefnu því hátt í 20 meistaranemar í umhverfis- og auðlindafræði sækja hana og vinna verkefni sem tengjast henni.