Skip to main content
24. október 2025

Leikstýrði verðlaunaðri heimildamynd

Leikstýrði verðlaunaðri heimildamynd - á vefsíðu Háskóla Íslands

Heimildamynd í leikstjórn Yrsu Roca Fannberg, Jörðin undir fótum okkar, hefur hlotið mjög góðar viðtökur og unnið til viðurkenninga. Yrsa Roca kennir námskeiðin Miðlunarleiðir I og Skapandi heimildamyndir í hagnýtri menningarmiðlun sem kennd er við Háskóla Íslands.

Jörðin undir fótum okkar hlaut sérstaka viðurkenningu á kvikmyndahátíðinni í Zürich í Sviss og áður hafði hún unnið til verðlauna á DMZ International Documentary Film Festival, einni virtustu heimildamyndahátíð Asíu. Yrsa segir ástæðu árangursins vera þá að myndin snerti marga, ekki síst þau sem þekkja það að fylgja fólki nákomnu sér í gegnum þetta tímabil lífsins, það sem kallað er „sólarlag lífsins“ í kynningartexta myndarinnar. „Í myndinni er að finna fegurð, sorg og húmor,“ segir Yrsa, „þannig að hún snertir margar tilfinningar og jafnvel tilfinningar sem er erfitt að setja í orð. En samt bjóst ég ekki við þessum móttökum eða svona hlýjum straumum sem myndin hefur fengið. Heldur ekki að myndin næði til svo breiðs hóps, það hefur komið mér sérstaklega á óvart hvað hún snertir mikið við ungu fólki,“ segir hún.

Yrsa við kennslu í Auðarsal í Veröld. Hún segist vera með tvö markmið við kennsluna, annars vegar að nemendur klári mynd með öllu sem því fylgir en hitt sé að opna augu nemenda fyrir listforminu sem heimildamyndin er.

Yrsa nam heimildamyndagerð í Barcelona og byggði þar ofan á grunn sem hún hafði úr myndlist. Hún segist hafa verið ákveðin í að feta þessa slóð eftir að hafa horft á myndir armenska leikstjórans Harutyn Khachatryan. „Þannig að ég sótti um í Pompeu Fabra í skapandi heimildamyndagerð og þar fékk ég þessa dellu. Það var mjög góður skóli, frábærir kennarar og það sem er fallegt er líka að kynnast öðru fólki sem hefur orðið að nánu samstarfsfólki mínu, eins og til dæmis klipparinn Federico Delpero Bejar sem var í árgangi á eftir mér. Eftir skólann byrjaði ég að taka upp mína fyrstu mynd Salóme (2014) og svo var ekki aftur snúið.“ Í kjölfarið leikstýrði Yrsa myndunum Síðasta haustið (2019) og Jörðin undir fótum okkar (2025).

Eins og áður segir kennir Yrsa námskeiðin Miðlunarleiðir I og Skapandi heimildamyndir í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Í námskeiðunum kennir hún sögu heimildamynda en einnig sjálft handverkið við gerð slíkra mynda: „Á haustin gera nemendur mínir stutta heimildamynd sem hópverkefni og það er nokkurs konar inngangur að námskeiðinu á vorönn þar sem þau gera heimildamynd til sýningar í BíóParadís. Við erum með tvö markmið, annars vegar að klára mynd með öllu sem því fylgir en hitt er að opna augu nemenda fyrir listforminu sem heimildamyndin er.“  

Nú þegar gervigreind tröllríður allri umræðu er ekki úr vegi að bera það undir Yrsu hvort gervigreindin eigi eftir að hafa áhrif á gerð heimildamynda. Hún segir þetta enn of nýja tækni til að hún geti haft upplýsta og mótaða skoðun á henni: „Þó að gervigreindin verði notuð að einhverju marki, vona ég að það sé hin mannlega sköpun og fegurðin við hana sem stendur upp úr.“

Jörðin undir fótum okkar er sýnd í BíóParadís.  

Hagnýtu menningarmiðlun er kennd við Háskóla Íslands sem 90 eininga MA-nám og sem 30 eininga nám á framhaldsstigi.

Yrsa Roca Fannberg, leikstjóri og kennari í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.