Hagnýt menningarmiðlun - Örnám


Hagnýt menningarmiðlun
Örnám á framhaldstigi – 30 einingar
Námið er hagnýtt stutt nám sem nýtist öllum þeim sem þurfa eða vilja miðla upplýsingum eða fróðleik í starfi eða leik. Námið er hægt að sníða að áhugasviði þar sem aðeins eitt skyldunámskeið er á námsleiðinni.
Skipulag náms
- Haust
- Miðlunarleiðir I, heimildamyndir, textagerð, myndanotkunB
- Kvennafríið 1975: Mýtur og miðlunV
- Grundvallaratriði vefmiðlunar ‐ Starf vefstjórans og vefritstjórnV
- Nýsköpun - frá hugmynd að afurðV
- Miðlun í hljóðvarpi og hlaðvarpiV
- Vor
- Miðlunarleiðir II: Munnleg framsetning, sýningar, stafræn miðlunB
- Stafræn og samfélagsleg nýsköpunV
- Í þeirra augnhæð: Miðlun til barnaV
- Miðlun og menningV
- Skapandi heimildamyndirV
Miðlunarleiðir I, heimildamyndir, textagerð, myndanotkun (HMM122F)
Í námskeiðunum Miðlunarleiðir I og Miðlunarleiðir II eru kynnt grunnatriði aðferða við miðlun menningarefnis í hug- og félagsvísindum. Miðlunarleiðir I eru á haustönn en Miðlunarleiðir II eru á vorönn.
Í Miðlunarleiðum I verður unnið með:
- Texta og myndir í fyrri hluta annarinnar. Nemendur munu fá þjálfun við greinaskrif og orðræðugreiningu annars vegar og myndanotkun og myndgreiningu hins vegar.
- Stuttmyndagerð í síðari hluta annarinnar. Þar vinna nemendur að gerð stuttmynda. Í því felst grunnþjálfun í handritagerð, tökum og klippi og nemendur vinna í hópum að stuttmynd í samræmi við tiltekið þema. Hvor efnisþáttur um sig vegur 50% í námskeiðinu.
Engin próf eru í námskeiðinu. Þess í stað vinna nemendur verkefni, einstaklings- og hópverkefni. Þau eru eftirfarandi:
- Greiningar á textum og myndum
- Grein með mynd um tiltekið þema til opinberrar birtingar, um 800 orð.
- Hópverkefni þar sem nemendur vinna að stuttmynd sem er sýnd við lok námskeiðsins. Áhersla er lögð á hópavinnu og hagnýt verkefni.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Kvennafríið 1975: Mýtur og miðlun (HMM301M)
„Baráttunni lýkur ekki í dag,“ stóð á kröfuspjaldi konu sem var ein af þeim 25.000 sem söfnuðust saman á útifundi í miðborg Reykjavíkur þann 24. október 1975 til að mótmæla kynbundnum launamun og mismunun undir yfirskriftinni Kvennafrí. Kröfuspjaldið er bara eitt dæmi um þær fjölbreyttu leiðir sem konur notuðu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri þennan dag en tónlist, greinaskrif, ræðuhöld og fjölmiðlaumfjöllun settu svip sinn á hann svo fáein dæmi séu nefnd. Kvennafríið var boðað fyrir atbeina íslenskra kvenna en aðgerðir þeirra spruttu engu að síður úr alþjóðlegum farvegi en íslenskar konur voru hvattar til að fylkja sér bak við kjörorð kvennaárs Sameinuðu þjóðanna: „JAFNRÉTTI – FRAMÞRÓUN – FRIÐUR“. Útgangspunktur námskeiðsins er Kvennafríið 1975 en um leið og kafað verður í sögulega arfleið þessa dags í íslensku og alþjóðlegu samhengi verða nýjar miðlunarleiðir kannaðar í þeim tilgangi að ná til nýrra kynslóða. Námskeiðið er kennt í samvinnu við Rúv og Kvennasögusafn sem fagnar 50 ára afmæli 2025 með sýningu á Landsbókasafni Íslands.
Grundvallaratriði vefmiðlunar ‐ Starf vefstjórans og vefritstjórn (HMM120F)
Starf vefstjórans hefur tekið miklum breytingum með stöðugri tækniþróun og áherslu á stafrænar lausnir. Leitast verður við að veita nemendum góða innsýn í helstu þætti í starfi vefstjórans. Rýnt verður í skrif fræðimanna á sviði vefmiðlunar, nemendur kynnast nauðsynlegum tækjum og tólum og við fáum til okkar góða gesti sem hafa fjölbreytta starfsreynslu sem vefstjórar, vefritstjórar og á sviði stafrænnar miðlunar.
Starf vefritstjóra er iðulega samofið almennri vefstjórn. Nemendur fá góða innsýn í ritstjórn vefja og skrifum fyrir stafræna miðla. Fjallað verður um helstu þætti sem vefstjóri / vefritstjóri þarf að hafa vald á, svo sem upplýsingaarkitektúr, skrifum fyrir vef, framsetningu myndefnis, grundvallaratriði í vefhönnun, aðgengismál, nytsemi, öryggismál, vefmælingar, vefumsjónarkerfi, grunntækni vefviðmótsins, helstu hugtök og skilgreiningar í tækni vefsins og netsins.
Nemendur setja upp eigin vef og nota til þess vefumsjónarkerfi að eigin vali, t.d WordPress eða Wix, sem bæði eru til í ókeypis útgáfum, og er hluta verkefna skilað þar. Þannig öðlast nemendur þjálfun í að setja upp einfaldan vef og byggja upp leiðakerfi. Athygli er sérstaklega vakin á því að í námskeiðinu er ekki kennsla á vefumsjónarkerfi. Þeim sem ekki hafa reynslu af notkun þeirra fyrir er bent á að á YouTube má finna fjölda myndbanda þar sem hægt er að læra á kerfin, allt frá grunnatriðum og upp í mun flóknari þætti en ætlast er til að í þessu námskeiði.
Nýsköpun - frá hugmynd að afurð (HMM121F)
Í námskeiðinu er farið yfir atriði er varða nýsköpunarstarf og frumkvöðlahugsun sem og tækifæri, þróun, mat og úrvinnslu hugmynda auk kenninga og aðferða við að gera viðskiptahugmynd markaðshæfa. Framsetning námsþátta miðast við þau verkefni sem frumkvöðull glímir við þegar gæða á hugmynd lífi. Nýsköpun er kynnt sem ferli sem hefst á hugmyndavinnu og þarfagreiningu á markaði. Næst er verkefnisstjórnun og áætlanagerð kynnt til sögunnar. Að lokum er farið yfir fjármögnun og styrkumsóknir auk þess sem stoðumhverfi nýsköpunar eru gerð skil.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Miðlun í hljóðvarpi og hlaðvarpi (HMM235F)
Námskeiðið er haldið í samstarfi við RÚV - Rás 1. Fjallað er um framsetningu efnis í útvarpi og hlaðvarpi. Könnuð eru ólík dæmi um dagskrárgerð. Hugað er að miðlunarmöguleikum hljóðefnis í fjölmiðlaumhverfi samtímans og gerð grein fyrir eðli ólíkra miðlunarleiða. Fjallað verður um hugmyndavinnu, viðtalstækni, upptökutækni, uppbyggingu og samsetningu hljóðvarps/hlaðvarpsefnis með áherslu á sjálfbærni og sjálfstæð vinnubrögð. Nemendur vinna verkefni tengd útvarpsþáttagerð.
Miðlunarleiðir II: Munnleg framsetning, sýningar, stafræn miðlun (HMM242F)
Í Miðlunarleiðum II á vorönn er unnið með eftirfarandi miðlunarleiðir: a) munnleg framsetning og b) sýningar á menningarsögulegu efni. Stafræn miðlun verður fléttuð inn í báða þætti.
Nemendur fara yfir grunnatriði í munnlegri framsetningu og æfa sig í minni og stærri hópum. Einnig verður farið yfir grunnatriði varðandi skipulagingu á ráðstefnum og málþingum og stjórnun þeirra. Stafræn miðlun verður fléttuð inn í kynningarhluta þessa viðfangsefnis. Við lok þess þáttar er haldin ráðstefna þar sem allir nemendur kynna verkefni sín. Að honum loknum tekur við þáttur um sýningar með tengingu við stafræna miðlun. Fjallað verður um grunnatriði sýninga og ólíkar leiðir við framsetningu mynda og texta og hvaða reglur gilda um framsetningu texta á netinu. Nemendur vinna við hagnýt verkefni í þessu samhengi. Samhliða verður farið yfir grunnatriði í stafrænni miðlun, hverjar eru helstu miðlunarleiðir, kostir og gallar.
Engin próf eru í námskeiðinu. Þess í stað vinna nemendur verkefni, einstaklings- og hópverkefni. Þau eru eftirfarandi:
- fyrirlestur á ráðstefnu og önnur verkefni í því samhengi
- Sýningagreining og hagnýtt verkefni í tengslum við sýningar á vegum Borgarsögusafns
- Stafræn miðlun verður fléttuð inn í báða þætti. Áhersla er lögð á sameiginleg þemu og hópavinnu í námskeiðinu.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Stafræn og samfélagsleg nýsköpun (HMM241F)
Í námskeiðinu er fjallað um fjölbreyttar birtingamyndir nýsköpunar í menningu og miðlun, með áherslu á stafræna tækni. Áhersla verður lögð á starfsemi og stjórnun skipulagsheilda sem starfa í miðlun og skapandi greinum. Fjallað verður um hlutverk nýsköpunar og skapandi hagkerfi, samfélagslega nýsköpun og hvernig viðhalda á frumkvöðlanda í verkefnum. Tækifæri til hagnýtingar verða tekin til skoðunar og kynntar til sögunar aðferðir til að styðja við uppgötvun, greiningu og nýtingu slíkra tækifæra.
Í þeirra augnhæð: Miðlun til barna (HMM410F)
Við beygjum okkur í hnjánum í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Hvernig sjá
börn heiminn? Hvernig getum við miðlað menningarefni í þeirra augnhæð? Hvernig sperrum við eyrun og hlustum á þeirra sjónarmið?
Í námskeiðinu verður fjallað um fjölbreyttar miðlunarleiðir í menningarstarfi til barna; allt frá
sýningarhönnun á söfnum til gagnvirkra innsetninga í menningarhúsum, skapandi smiðjustarfs,
þverfaglegra þátttökuverkefna og dagskrárgerð í útvarpi. Kennsla fer fram með vettvangsferðum,
fyrirlestrum, verklegum smiðjum og hópvinnu.
Námskeiðið leiðir þverfaglega hönnunarteymið ÞYKJÓ sem hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2024 fyrir
verkefnið „Börnin að borðinu” og tillnefningu til alþjóðlegu YAM verðlaunanna fyrir verkefnið „Gullplatan
- Sendum tónlist út í geim“. Á meðal fyrirlesara eru barnamenningarhönnuður, leikjahönnuður, tónskáld
og arkitekt.
Miðlun og menning (HMM240F)
Í námskeiðinu er menningarhugtakið teknar til gagnrýninnar skoðunar. Kenningar og skilgreiningar eru reifaðar samtímis því sem hlutverk, skilyrði og áhrif menningar í samtímanum eru vegin og metin. Markmiðið er að skapa samræðu fræðilegrar umræðu um menningararf, menningarstefnu og menningarlega sjálfbærni við praktísk úrlausnarefni sem tengjast miðlun menningar. Þannig er hugað að samspili menningarlífs við félagslegar, pólitískar og hagrænar aðstæður í sögu og samtíð og kannað hvernig þessir þættir bæði skilyrða og gera mögulega menningarmiðlun í samtímanum. Skoðað er hvernig menningararfur, hefðir, félagslegt minni, hugmyndir um upprunaleika og sjálfsmynd hafa áhrif á mótun og endursköpun menningar og hvernig nota má hugtök eins og „menningarlegt auðmagn“, „menningarlegt forræði“ og „orðræða um menningararf“ til að greina og skilja birtingarmyndir menningar.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Skapandi heimildamyndir (HMM220F)
Fjallað verður um helstu tegundir heimildamynda, aðferðir, þróun þeirra og tilgang.
Nemendur læra að skrifa handrit að stuttri heimildamynd og að hugsa allt ferli heimildamyndagerðar, frá grunnhugmynd að fullbúinni mynd, ástunda fagleg vinnubrögð og læra að skipuleggja tökur.
Nemendur ættu einnig að ná tökum á grunnatriðum í kvikmyndatöku og klippingu. Í því samhengi verður unnið eitt verkefni á síma til að ná tökum á tækniatriðum í klippi. Allir nemendur þurfa að skila að minnsta kosti einni fullbúinni stuttri heimildamynd, handriti og æfingaverkefni í klippi. Nemendur ræða nálgun og efnistök verkefna sinna við samnemendur og kennara.
Í námskeiðinu verða sýndar heimildamyndir, bæði brot úr þeim og í fullri lengd, þar sem rætt verður um hugmyndirnar bak við myndirnar, listrænar ákvarðanir, tilgang og siðfræði heimildamynda. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð.
Tökur fara fram í mars og þurfa að vera búnar fyrir 30. mars, en þá hitta nemendur kennara í klippiherberginu í Odda.
Ekki er ætlast til að nemendur kaupi neinar bækur fyrir þetta námskeið en nauðsynlegt er að þeir hafi sjálfir flakkara til að geyma efnið sitt á og SD kort í myndavélar fyrir eigin upptökur. Einnig er mælt með að nemendur séu með góð heyrnatól.
Námskeiðið er kennt í lotum. Nemendur vinna að heimildamynd alla önnina og í lok annar verður frumsýning í Bíó Paradís.
Námskeiðið er ekki kennt í fjarnámi.
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.