Svala Ísfeld Ólafsdóttir - Doktorsvörn í félagsfræði
Aðalbygging
Hátíðasalur
Svala Ísfeld Ólafsdóttir ver doktorsritgerð sína í félagsfræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Vörnin fer fram fimmtudaginn 12. desember 2024 kl. 13 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Vernd barna gegn kynferðisofbeldi: Réttarþróun, dómar og samfélagsleg viðhorf. Ritgerðin er skrifuð á íslensku. Vörnin fer fram á íslensku og er öllum opin.
Andmælendur eru dr. Guðmundur Æ. Oddsson, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og dr. Sigrún Sigurðarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri. Aðalleiðbeinandi var dr. Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Auk hans voru í doktorsnefndinni dr. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskólans í Reykjavík og Róbert S. Spanó, prófessor í lögfræði við Lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.
Stjórnandi athafnar er dr. Unnur Dís Skaptadóttir forseti Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar Háskóla Íslands.
Um rannsóknina: Kynferðisbrot gegn börnum eru meðal alvarlegustu glæpa í íslensku samfélagi. Meginspurningin lýtur að því hvaða þættir hafa haft mest áhrif á þróun löggjafarinnar og framkvæmd hennar á rannsóknartímabilinu, m.a. eins og hún birtist í dómum Hæstaréttar Íslands frá stofnun réttarins árið 1920 fram til 2015. Rannsóknin leiðir í ljós að rauður þráður í þeim breytingum sem hafa átt sér stað er aukin vernd barna gegn kynferðisofbeldi. Greining á aðdraganda og forsendum breytinganna leiðir í ljós að þær eiga rætur að rekja til breyttra viðhorfa og fráhvarfs frá úreltum viðhorfum, kvenfrelsis- og kvenréttindabaráttu, þarfar á aukinni réttarvernd kvenna og barna, alþjóðlegrar samvinnu og þjóðréttarlegra skuldbindinga íslenska ríkisins, alþjóðlegrar þróunar, réttarþróunar í samanburðarlöndunum Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, aukinnar þekkingar og skilnings á alvarleika og skaðsemi brotanna, aukinnar tæknivæðingar og tilkomu samfélagsmiðla og samskiptaforrita. Í ritgerðinni birtist rannsókn á dómum Hæstaréttar um meðferð og lyktir mála af þessum toga. Dómarnir hafa að geyma gríðarlega miklar upplýsingar sem voru rannsakaðar og greindar með markvissum hætti í þeim tilgangi að auka þekkingu og dýpka skilning á kynferðisbrotum gegn börnum, því umhverfi sem þau spretta úr og þeim aðstæðum sem þau þrífast í.
Um doktorsefnið: Svala Ísfeld Ólafsdóttir er fædd 19. desember 1963 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands vorið 1989, diplómagráðu á meistarastigi í afbrotafræði vorið 2007, BA-gráðu í frönsku í febrúar 2008 og meistaraprófi í félagsfræði í febrúar 2009. Svala hefur starfað víða innan stjórnsýslunnar, m.a. hjá Lögreglustjóranum í Kópavogi, Ríkissaksóknara og Dómsmálaráðuneytinu auk þess sem hún hefur verið formaður Refsiréttarnefndar síðan 2013. Svala var kjörin í sérfræðingahóp GRETA í júní 2021, en GRETA er nefnd á vegum Evrópuráðsins sem hefur eftirlit með framkvæmd og innleiðingu mansalssamningsins innan aðildarríkja hans. Svala hefur starfað við lagadeild Háskólans í Reykjavík síðan 2003 og gegnt þar stöðu dósents frá árinu 2010.
Svala Ísfeld Ólafsdóttir ver doktorsritgerð sína í félagsfræði þann fimmtudaginn 12. desember 2024 kl. 13 í Hátíðasal Háskóla Íslands.