Skip to main content
17. desember 2021

Gleðilega hátíð

Gleðilega hátíð - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (17. desember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú hefur skammdegið tekið völdin á norðurhveli jarðar en þegar þannig háttar verða ljósin skærust og þau hafa lifnað hratt á aðventunni. Eitt af þeim ljósum sem vekur hvað mesta athygli þegar skuggarnir eru einna lengstir er Friðarsúlan í Viðey. Ljósið er sköpunarverk fjöllistakonunnar Yoko Ono og er ekki einungis ætlað að lyfta nafni eiginmanns hennar og tónlistarmannsins Johns Lennon heldur á þessi blái geisli líka að vera leiðarljós okkar að heimsfriði.

Háskóli Íslands starfar í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þar sem stefnan er m.a. sett á frið og réttlæti. Margir gefa sér sjálfsagt að það sé ekki okkur ætlað, þessari smáu þjóð við ysta haf, að breyta miklu í þeim efnum. Engu að síður valdi Yoko Ono Ísland sem stað fyrir Friðarsúluna sem á að varða okkur leiðina á táknrænan hátt í átt að friði. Verum minnug þess, sagði Yoko, að við höfum hvert og eitt kraft til að breyta heiminum.

Á dögunum brautskráði Alþjóðlegur jafnréttisskóli við Hugvísindasvið HÍ tuttugu nemendur hvaðanæva úr heiminum með prófgráðu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Jafnréttisskólinn veitir sérfræðingum frá þróunarlöndum og átakasvæðum aðgengi að námi sem gerir þeim léttara að vinna að jafnrétti og félagslegu réttlæti í sínu heimalandi. Hér stuðlar Háskóli Íslands í krafti sérfræðiþekkingar og mannréttindahugsjónar að því að styrkja stöðu kvenna og stúlkna á svæðum þar sem óstöðugleiki ríkir og átök geisa.

Nú er hefðbundnum haustmisserisprófum lokið. Þrátt fyrir að þau hafi farið fram við krefjandi aðstæður má fullyrða að prófahaldið hafi gengið vel. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur, kæru nemendur og kennarar, fyrir ykkar mikilvæga framlag við að tryggja að vel tókst til.

Í gær var undirrituð viljayfirlýsing milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um úthlutun lóðar á háskólasvæðinu til Norðurslóða, norðurslóðaseturs sem kennt verður við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands. Í byggingu Norðurslóða, sem áformað er að rísi hér í Vatnsmýrinni, verður vettvangur fyrir alþjóðlega og innlenda samræðu og samvinnu um málefni norðurslóða og þýðingu þeirra fyrir framtíð jarðarinnar. Í húsinu verður einnig öflugur vettvangur fyrir alþjóðlegt og innlent vísinda- og nýsköpunarsamstarf í þágu norðurslóða, loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Þetta ár er brátt á enda og það hefur verið okkur þungt um margt. En seigla ykkar hefur skilað því að starfið hefur þrátt fyrir allt að mestu farið fram með eðlilegum hætti í haust og vetur. Fyrir það er ég þakklátari en orð fá lýst. Því miður berast ekki tíðindin sem við óskuðum eftir frá sóttvarnalækni því smittölur vegna COVID-19 fara hækkandi. Áframhaldandi samstaða okkar allra og fylgni við sóttvarnareglur með einstaklingsbundnum sóttvörnum skiptir gríðarlega miklu við að verja starfið og samfélagið allt á nýju ári.

Í upphafi vék ég að ljósinu en nú eru dagarnir allra stystir á þessu ári og verða vetrarsólstöður á þriðjudaginn kemur, þann 21. desember. Hefð er fyrir því að kveikja á Friðarsúlunni í kringum nýárið. Horfum á ljóskeiluna við næsta tækifæri og leiðum hugann að því sem hún stendur fyrir.

Hlustaðu á ljósið, sem logar kyrrlátt í brjóstinu, hvernig sem viðrar, orti skáldið Njörður P. Njarðvík og prófessor emeritus við Háskóla Íslands.

Förum að ráði Njarðar. Fylgjum ljósinu, höldum bjartsýn inn í nýtt ár.

Gleðilega hátíð.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Aðalbygging