Skip to main content
15. júlí 2020

Fjársjóður framtíðar aftur á RÚV

Gerð þáttanna Fjársjóður framtíðar

Nú gefst frábært tækifæri til að fylgjast með vísindamönnum Háskóla Íslands að störfum við mjög fjölbreyttar aðstæður en verðlaunaþáttaröðin Fjársjóður framtíðar er endursýnd þessa dagana á RÚV. Röðin þótti skara fram úr öllu öðru í vísindamiðlun að mati RANNÍS árið 2018. Vísindamenn eru gjarnan knúnir áfram af forvitni sem aldrei verður svalað. Nýjar uppgötvanir kalla á nýjar spurningar í eilífri hringrás þekkingarleitarinnar. Í vísindaþáttaröðinni um Fjársjóð framtíðar er þessi leit einmitt í háskerpu. Ljósi er varpað á fjölbreyttar og spennandi rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands á ólíkum þáttum sem varða okkur öll, lífríkið og ekki síður umhverfið miklu. Þættirnir verða endursýndir síðdegis á RÚV núna í júlí og byrjun ágúst, en það sem meira er, þeir eru aðgengilegir í Spilaranum á RÚV og að auki hægt að horfa á eftir þörfum í myndlyklum sjónvarpsstöðvanna.

Jón Örn Guðbjartsson stýrði upptökum á þáttunum ásamt Birni Gíslasyni en þeir starfa báðir við Háskóla Íslands. Konráð Gylfason sá um handritsgerðina með þeim tveimur og dagskrárgerð auk þess sem hann átti drjúgan hlut í öllu myndefni og setti það saman. Jón Örn er þulur í þáttunum. 

Í verðlaunaþáttaröðinni er farið víða um land og haf til að fylgjast með metnaðarfullum vísindamönnum að störfum. Í þetta skiptið er t.a.m. kafað með Ragnari Edvardssyni, fornleifafræðingi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, niður að skipsflaki við Dvergasteinsá í Álftafirði. Þar var áður mikil hvalstöð í eigu Norðmanna. Mjög fjölbreyttar rannsóknir eru einmitt í gangi innan háskólans sem tengjast hvölum frá ólíkum sjónarhornum og verður þeim gerð glögg skil í verðlaunaþáttunum. Einnig er fylgst með flugi fugla og í röðinni sé farið í arnarhreiður með Gunnari Hallgrímssyni, prófessor í dýralíffræði. Það er líka fylgst með lífsháttum jaðrakana, sem koma æ fyrr til landsins á vorin, flogið með margæs alla leið í nyrstu héruð Kanada auk þess sem farið er upp á hopandi Sólheimajökul með Guðfinnu Aðalgeirsdóttur, prófessor í jöklafræði.

Eldgos og áhrif þeirra á samfélag og umhverfi

Í fyrsta þættinum sem sýndur var í gærkvöldi má fylgjast með rannsóknum vísindamanna við Háskólann á eldgosum og áhrifum þeirra á landið, umhverfið og samfélagið. Þetta eru atriði sem skipta okkur Íslendinga miklu máli enda er mikill fjöldi virkra eldstöðva á Íslandi og áhrifa þeirra getur gætt langt út fyrir landsteina.

Loftslagsbreytingar, hvalir, norðurljós, fuglar og krabbamein

Í öðrum þætti Fjársjóðs framtíðar er fylgst með rannsóknum vísindamanna á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jöklana okkar. Einnig er þar fjallað um breytingar á vistkerfum landsins samfara hækkandi hitastigi og hvernig sjálfbærnimenntun getur komið að notum til að auka meðvitund um nauðsyn þess að vernda náttúruna.

Í þriðja þætti fylgjumst við svo með rannsóknum vísindamanna okkar á hvölum við Ísland og veiðum á hvölum allt frá landnámstíð fram á vora daga. Einnig er fjallað um Baskavígin, áhrif hvalveiða á ferðamennsku og rannsóknir tengdar norðurljósum kannaðar sem er nýleg auðlind í ferðamennsku.

Fjórði þátturinn er allur á lofti enda fjalli hann um fugla. Við fylgjumst með fuglarannsóknum og heyrum og sjáum hvernig breytingar í veðurfari flýta fyrir komu sumra farfugla. Jaðrakan, margæs, himbrimi og haförn eru meðal þeirra tegunda sem sjónum verður beint að í þættinum.
Í lokaþættinum er svo fylgst með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á ýmsum tegundum krabbameins og skoðað t.d. hvaða áhrif umhverfi og mataræði hafi á myndun krabbameina og hvernig leitað sé að lækningu á krabbameini.

Neðansjávarmyndir og magnaðar skeiðmyndir

Handrit verðlaunaraðarinnar var eins og áður sagði unnið af þeim Birni Gíslasyni, Jóni Erni Guðbjartssyni og Konráð Gylfasyni en þeir sáu einnig um dagskrárgerð. Konráð var kvikmyndatökumaður í vísindaröðinni en einnig fá áhorfendur að njóta einstakra neðansjávarmynda sem Erlendur Bogason tók af vísindamönnum Háskóla Íslands við rannsóknir í Ísafjarðardjúpi. Þá eru magnaðar skeiðmyndir (time laps) í röðinni sem teknar voru af Þorvarði Árnasyni sem kemur reyndar sjálfur við sögu í þáttaröðinni en hann er forstöðumaður rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði. Stefán Drengsson á einnig fjölmörg skot í þáttunum og Óli Haukur Mýrdal tók öll drónaskot. Hljóð var í höndum Birgis Tryggvasonar. 

Vísindamiðlunarverðlaun Rannís

Eins og áður sagði hlaut röðin Vísindamiðlunarverðlaun Rannís árið 2018. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á mjög fjölsóttri Vísindavöku það ár og í máli hennar kom fram að vísindaröðin um Fjársjóð framtíðar væri eitt viðamesta verkefni sem Háskóli Íslands hefði tekist á hendur til að miðla vísindum til almennings. Í ávarpi mennta- og menningarmálaráðherra kom einnig fram að markmiðið með þáttaröðinni væri að auka áhuga og þekkingu almennings á öllum aldri á vísindum og nýsköpun og að þjóðin skynjaði og skildi mikilvægi þessara þátta fyrir velferð samfélagsins.

Í umsögn Rannís um verðlaunin kom fram að í takt við áherslu Rannís, þá væri vísindafólkið sjálft í forgrunni í þáttaröðinni Fjársjóði framtíðar, þar sem það miðlaði rannsóknum sínum til almennings.

„Óhætt er að segja að þættirnir hafi frá upphafi vakið gríðarlega athygli og að sú athygli hafi náð langt út fyrir landsteina.  Þættirnir hafa verið kynntir sem einstakt verkefni í vísindamiðlun á Evrópuráðstefnu bandalags háskóla og æðri menntastofnanna, á árvissri ráðstefnu EUPRIO, sem er félag samskiptafólks í evrópskum háskólum, á ráðstefnu UNICA, sem er samstarfsnet háskóla í evrópskum höfuðborgum, svo fátt eitt sé talið. Það er álit dómnefndar Rannís að sjónvarpsþáttaröðin Fjársjóður framtíðar sé einstaklega vel að viðurkenningu fyrir vísindamiðlun komið,“ sagði í umsögn Rannís.

Þess má geta að verðlaunaserían er sú þriðja í röðinni en fyrsta röðin var sýnd á RÚV árið 2011, önnur þáttaröðin um Fjársjóð framtíðar var sýnd á RÚV árið 2013 og á Norðurlöndum sama ár. Sú röð keppti um gullverðlaun á einni virtustu vísindakvikmyndahátíð Evrópu, AFO í Tékklandi.

Verðlaunaþáttaröðin var öll tekin upp í ofurskerpu (4K) og var meðal því allra fyrsta sem þannig hagaði til um í íslensku sjónvarpsefni. Röðin verður sýnd eins og áður sagði á þriðjudagseftirmiðdögum núna í sumar klukkan 16:30 á RÚV. 

Frá tökum á þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar.