Verðlaunavísindaþáttaröð um Fjársjóð framtíðar er nú endursýnd á RÚV. Í þáttaröðinni er farið víða um land og haf til að fylgjast með metnaðarfullum vísindamönnum við Háskóla Íslands að störfum. Röðin hlaut Vísindamiðlunarverðlaun RANNÍS árið 2018.
Vísindamenn eru gjarnan knúnir áfram af forvitni sem aldrei verður svalað. Nýjar uppgötvanir kalla á nýjar spurningar í eilífri hringrás þekkingarleitarinnar. Í þáttunum fæst innsýn í þessa leit en varpað verður ljósi á fjölbreyttar og spennandi rannsóknir vísindamanna á ólíku efni sem varðar okkur öll og umhverfið sömuleiðis.
Þættirnir eru nú á ný aðgengilegir í Spilaranum á RÚV en þeir eru fimm talsins.
Handrit raðarinnar var unnið af þeim Birni Gíslasyni, Jóni Erni Guðbjartssyni og Konráð Gylfasyni en þeir sáu einnig um dagskrárgerð.
Hér fyrir neðan er hægt að smella á síðu hvers þáttar til að horfa á hann í heild sinni en þar er líka hægt að lesa ítarefni um það sem fjallað er um í hverjum þætti.
Á síðu hvers þáttar eru einnig myndasyrpur frá tökustöðum og unnt að horfa á stiklu sem gefur mynd af því sem er í háskerpu í hverjum þætti.
Sjón er sögu ríkari - góða skemmtun.