Rektor í hópi fremstu vísindamanna heims í tölvunarfræði
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, er í hópi 500 fremstu vísindamanna heims á sviði tölvunarfræði og raftækni (e. electronics) samkvæmt mati Guide2Research, vefvettvangs um rannsóknir á þessu fræðasviði. Hann er eini íslenski vísindamaðurinn sem kemst á listann.
Guide2Research er helgað framúrskarandi rannsóknum í tölvunarfræði og hefur að geyma upplýsingar yfir mikilvægustu ráðstefnur og vísindatímarit á þessu ört vaxandi fræðasviði. Vettvangurinn vinnur að því að tengja saman vísindamenn á sviði tölvunarfræði og raftækni og jafnframt vekja athygli á þeim vísindamönnum sem standa fremst á fræðasviðinu og hvert þeir stefna í rannsóknum sínum.
Guide2Resarch hefur undanfarin ár tekið saman lista yfir fremstu vísindamenn heims á ofangreindu fræðasviði en við matið er horft til nokkurra þátta, m.a. birtinga vísindagreina, fjölda tilvitnana í þær og þeirra viðurkenninga sem vísindamennirnir hafa fengið fyrir störf sín. Að þessu sinni rýndi vefurinn í frammistöðu 6.000 vísindamanna í tölvunarfræði um allan heim og birti í framhaldinu lista yfir þá 1.000 sem þykja standa fremst. Jón Atli er samkvæmt matinu í sæti 458 og sá eini á Íslandi sem kemst á listann.
Jón Atli hefur um árabil verið í fremstu röð í heiminum í stafrænni myndgreiningu, vélrænu námi (e. machine learning) sem hann hefur beitt í fjarkönnun og greiningu heilbrigðisgagna. Fjarkönnun snýst um að vinna upplýsingar um yfirborð jarðarinnar úr stafrænum myndum sem teknar eru úr flugvélum, drónum og gervitunglum. Fjarkönnunartækni hefur verið notuð hérlendis m.a. við kortlagningu og eftirlit með gróðri og gróðurbreytingum, landnotkun og jöklabreytingum. Fjarkönnunarmyndir hafa einnig verið notaðar til að meta hita- og landhæðarbreytingar jarðhitasvæða og virkra eldfjalla auk eftirlits með hafís og hitastigi sjávar.
Jón Atli er einn áhrifamesti vísindamaður heims samkvæmt lista Publons og greiningarfyrirtækisins Clarivate Analytics. Hann hefur birt yfir 400 vísindagreinar á sínum ferli og fengið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann er Fellow hjá bæði IEEE og SPIE, alþjóðlegum samtökum fagfólks um rafmagns- og tölvuverkfræði og ljósfræði. Þá hefur hann hlotið Stevan J. Kristof Award (1990), Hvatningarverðlaun Rannsóknaráðs Íslands (1997), IEEE Millennium Medal (2000) auk margra viðurkenninga fyrir birtar vísindagreinar. Hann hefur einnig fengið viðurkenningu rafmagns- og tölvuverkfræðideildar Purdue-háskóla í Indiana í Bandaríkjunum sem veitt eru framúrskarandi fyrrverandi nemendum við deildina.
Yfirlit yfir fremstu vísindamenn heims á sviði tölvunarfræði og raftækni má finna á vef Guide2Research.