Skip to main content

Fundargerð 11. háskólaþings 14. nóvember 2013

11. háskólaþing Háskóla Íslands haldið 14. nóvember 2013 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-16.00

Dagskrá

  • Kl. 13.00 – 13.05 Rektor setur háskólaþing, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir fundargögnum.
  • Kl. 13.05 – 13.20 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
  • Kl. 13.20 – 14.20 Dagskrárliður 2. Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands.
  • Kl. 14.20 – 14.40 Fundarhlé.
  • Kl. 14.40 – 15.40 Dagskrárliður 3. Gæði náms og kennslu: Sjónarmið nemenda og nýmæli á döfinni.
  • Kl. 15.40 – 16.00 Dagskrárliður 4. Endurmenntun Háskóla Íslands 30 ára.
  • Kl. 16.00 Rektor slítur háskólaþingi.

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti háskólaþing Háskóla Íslands og bauð þingfulltrúa velkomna til starfa. Háskólaþing er haldið í samræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 sem tóku gildi 1. júlí 2008 og var þetta 11. háskólaþing Háskóla Íslands. Sérstaklega bauð rektor velkomna þá fulltrúa sem mættir voru í fyrsta sinn á þingið. Jafnframt gesti frá öðrum stofnunum, þau Pál Matthíasson, forstjóra Landspítala, Bryndísi Brandsdóttur, formann stjórnar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, Bryndísi Hrafnkelsdóttur, forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, Guðrúnu Nordal, forstöðumann Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Ingibjörgu Steinunni Sverrisdóttur, landsbókavörð, Kristínu Jónsdóttur Njarðvík, forstöðumann Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, Maríu Rut Kristinsdóttur, formann Stúdentaráðs og Sigurð Ingvarsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Fundargerð síðasta háskólaþings var send fulltrúum fyrir þingið og bárust engar athugasemdir við hana. Þá gerði rektor grein fyrir tímaáætlun og gögnum fundarins og fól Magnúsi Diðriki Baldurssyni, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og gæðastjóra háskólans, að vera fundarritari.

Kl. 13.05-13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor fór yfir helstu verkefni frá síðasta háskólaþingi og stærstu mál framundan í starfi Háskóla Íslands.

Eftirfylgni mála sem voru á dagskrá á síðasta háskólaþingi

Stefna um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum og lokaverkefnum: Í kjölfar síðasta háskólaþings hefur áfram verið unnið að málinu og verður það væntanlega lagt fyrir háskólaráð til afgreiðslu í janúar 2014.

Vefstudd kennsla og nám: Háskólaráð hefur skipað verkefnisstjórn til að fylgja eftir tillögum skýrslu starfshóps um vefstudda kennslu og nám. Auglýst verður eftir kennurum sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefni á vormisseri 2014. Mikil umræða er víða um heim um netnámskeið (e. MOOC) og er m.a. væntanleg skýrsla frá Samtökum evrópskra háskóla (EUA) um málið.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Hinn 13. nóvember nk. verður haldið upp á 350 ára afmæli Árna Magnússonar handritasafnara og mun Margrét Þórhildur Danadrottning verða meðal gesta á afmælishátíðinni.

Röðun háskóla skv. matslista Times Higher Education World University Rankings

Í byrjun október sl. var tilkynnt að Háskóli Íslands væri í sæti 251-275 á nýjum matslista Times Higher Education World University Rankings fyrir 2013-2014. Fyrir skömmu var svo birt nákvæmari röðun og er Háskóli Íslands í 269. sæti og hefur því hækkað um tvö sæti frá síðasta ári

Staða Háskóla Íslands í norrænum samanburði

Tölurnar sýna stöðu viðkomandi háskóla meðal 400 hæst metnu háskóla í heimi, en tölurnar í sviga sýna innbyrðis stöðu norrænu háskólanna.

Matsþættir og vægi þeirra

Matsþættir Vægi  Matsaðferð
Kennsla 30% Könnun/doktorsnám/hlutfall nemenda og kennara
Rannsóknir 30% Könnun/fjöldi greina
Áhrif rannsókna (impact) 30% Tilvitnanir
Alþjóðlegur prófíll 7,5% Erlendir stúdentar og starfsmenn/

erlendir meðhöfundar
Tekjur frá atvinnulífi 2,5%

Normalisering / stöðlun gagna um rannsóknir

  • Öll fræðasvið leggja fram mikilvægan skerf til árangurs Háskóla Íslands
  • Félagsvísindi við Háskóla Íslands eru borin saman við félagsvísindi á heimsvísu, heilbrigðisvísindi við Háskóla Íslands eru borin saman við heilbrigðisvísindi á heimsvísu o.s.frv.
  • Fræðasviðum er raðað á þennan skala út frá framlagi þeirra í rannsóknum á heimsvísu mælt í fjölda ISI-greina og fjölda tilvitnana
  • Normalisering/stöðlun: Tekið er mið af ólíkum birtingarhefðum/ólíkri birtingartíðni fræðasviða
  • Fræðasviðum er gefin einkunn á bilinu 0-100 út frá framlagi þeirra á heimsvísu

Alþjóðleg staða Háskóla Íslands

  • Skipulegt samstarf við gagnagrunn Thomson Reuters (ISI) um áreiðanleika gagna um Háskóla Íslands
  • Háskóli Íslands hefur nýverið fengið greiðari aðgang að gögnum sem liggja til grundvallar röðuninni í gegnum InCites-hugbúnaðinn
  • Röðun Háskóla Íslands hefur haft umtalsverð áhrif á stöðu og orðspor skólans á alþjóðlegum vettvangi og skapað margvísleg tækifæri

Fjármál

  • 2013 hækkuðu fjárveitingar í fyrsta sinn að raungildi eftir efnahagshrun (hækkanir fengust í 2. og 3. umræðu um fjárlagafrumvarpið á Alþingi)
  • Heildartekjur Háskóla Íslands 2013 eru 16.900 m.kr.:
    • Ríkisframlag: 10.400 m.kr. (61,5%  af heildartekjum)
    • Sértekjur: 6.500 m.kr. (38,5% af heildartekjum)

Úr frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014

Sérstakar breytingar Upphæð [m.kr.] Athugasemd
Hækkun framlags til Aldarafmælissjóðs 300,0 Hækkar úr 400 í 700 m.kr.
Lækkun vegna ofurtölvuvers -4,0 Var tímabundið framlag
Sparnaður -85,7 Bein hagræðingarkrafa
Lækkun framlags fyrir brautskráningar -6,3 Skv. útreikningi mrn.
______________________________________________________________
Breyting frá fyrra ári 204,0

Fjármál

  • Í undirbúningi er stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands til framtíðar skv. ákvæðum Aldarafmælissjóðs
  • Áherslur Háskóla Íslands fyrir 2. umræðu um fjárlög 2014:
  1. Greitt verði kennsluframlag fyrir þá 350 nemendur sem stefnir í að verði í námi 2014 án þess að framlag fylgi
  2. Áformuð hækkun skrásetningargjalds úr 60.000 kr. í 75.000 kr. renni óskipt til skólans
  3. Horfið verði frá fyrirhuguðum niðurskurði framlaga til samkeppnissjóða rannsókna
  4. Horfið verði frá áformum um að stöðva framkvæmdir við Hús íslenskra fræða
  5. Sértækur vandi fræðasviða, deilda, námsbrauta, stofnana. Niðurfelling vsk. á rannsóknartæki, fjármagnstekjuskatts á styrktarsjóði o.fl.

Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf.

  • Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf. voru stofnaðir 2004 til að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla um nýsköpun og til að skapa aðstöðu fyrir frumkvöðla
  • Fyrirmyndin er sótt til Evrópu og Bandaríkjanna þar sem uppbygging slíkra garða (e. Science Parks) hefur verið hröð
  • Rannsóknir sýna að samstarf atvinnulífs og háskóla með nýsköpun að markmiði skilar góðum árangri ef slíkri miðstöð nýsköpunar er fundinn staður nálægt öflugum háskóla
  • Skapar margvísleg tækifæri fyrir Háskóla Íslands

Hátæknisetur Alvogen

  • Lyfjaþróunarfyrirtækið Alvogen mun á næstunni hefja framkvæmdir við byggingu hátækniseturs í Vatnsmýrinni og verður það um 11.000m2 að stærð
  • Háskóli Íslands mun nýta um 2.000m2  í húsinu
  • Um er að ræða eina stærstu framkvæmd sem ráðist hefur verið í hér á landi eftir hrun
  • Gagnkvæmur ávinningur – Alvogen, Háskóli Íslands, íslenskt samfélag (áætlaðar útflutningstekjur 65 ma. kr. á ári)
  • Skapar um 200 ný sérfræðistörf til framtíðar
  • Tækifæri fyrir vísindamenn og stúdenta í mörgum greinum

Úrslit samkeppni Hugvísindasviðs og RÚV um fegursta orðið á íslensku

  • Fegursta orðið var valið „ljósmóðir“
  • „Hátíð orðanna“ verðu haldin 14. desember nk.

Á næstunni

  • Opinn fundur rektors fyrir starfsfólk 19. nóvember kl. 12.10-12.50
    • Þremur starfsmönnum Háskóla Íslands verður veitt viðurkenning fyrir lofsvert framlag til skólans
    • Farið verður yfir mál sem eru efst á baugi í starfi háskólans og helstu viðburði framundan
  • Fyrirtæki verður til 20. nóvember: Einar Stefánsson, prófessor, greinir frá nýsköpunarfyrirtækjum sem hann hefur komið að.
  • Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands verða afhent 21. nóvember nk.
  • Hátíð brautskráðra doktora verður haldin í Hátíðasal 1. desember nk.

Kl. 13.20-14.20 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu og formaður gæðanefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir málinu.

Drög að Viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands

Bakgrunnur

  • Gríðarlegur vöxtur hefur verið í meistaranámi við Háskóla Íslands á síðustu árum
  • Brautskráðum meisturum hefur einnig fjölgað hratt á sama tíma
  • Á alþjóðlegum vettvangi er lögð sívaxandi áhersla á gæði í háskólastarfi
  • Þetta endurspeglast hér á landi m.a. í lögum um háskóla nr. 63/2006 sem fjalla að miklu leyti um gæðamál
  • Nýtt alþjóðlegt Gæðaráð háskóla var skipað 2010
    • Ráðið sendi frá sér rammaáætlun um eflingu gæða á sviði æðri menntunar (e. Quality Enhancement Framework for the higher education sector in Iceland)
    • Rammaáætlunin er sett fram í Handbók Gæðaráðsins (e. Quality Enhancement Handbook for Icelandic Higher Education)
  • Í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 er lögð rík áherslu á eflingu framhaldsnáms við Háskóla Íslands
    • Skipuleg og metnaðarfull uppbygging meistara- og doktorsnáms
    • Gæðanefnd háskólaráðs sett á laggirnar
    • Miðstöð framhaldsnáms
  • Samningur Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir (2007) gerði einnig ráð fyrir að slík miðstöð yrði sett á laggirnar
  • Miðstöð framhaldsnáms við HÍ hóf starfsemi 2009
    • Landbúnaðarháskóli Íslands gerðist aðili 2012
  • Stefna Háskóla Íslands 2011-2016 heldur áfram á sömu braut og fyrri stefna:
    • „Háskóli Íslands er ört vaxandi rannsóknaháskóli sem hefur sett sér það langtímamarkmið að vera í hópi fremstu háskóla í heimi. Í því skyni leggur skólinn áherslu á frjótt rannsóknaumhverfi, árangur í rannsóknum, öflugt meistara- og doktorsnám, nýsköpun og hagnýtingu þekkingar.“
    • „Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands verði efld og fest í sessi...“
    • „Meistaranám verði eflt, m.a. með fullnægjandi framboði námskeiða og skipulegu samstarfi við erlenda háskóla.“
    • „Gildandi Viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands verði endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af hlutverki Miðstöðvar framhaldsnáms.“ – lokið 2012
    • „Skilgreind verði hliðstæð viðmið og kröfur um rannsóknatengt meistaranám“
    • Gæðanefnd falið að undirbúa málið

Gæðanefnd

Gæðanefnd háskólaráðs skipuð fyrst 2006 í samræmi við Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011

  • Skipan nefndarinnar 2011-2014:
    • Jón Atli Benediktsson, prófessor og aðstoðarrektor vísinda og kennslu, formaður
    • Amalía Björnsdóttir, dósent (Menntavísindasvið)
    • Bryndís Brandsdóttir, vísindamaður (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
    • Eiríkur Smári Sigurðsson, rannsóknastjóri (Hugvísindasvið)
    • Helga Ögmundsdóttir, prófessor (Heilbrigðisvísindasvið)
    • Jakob Guðmundur Rúnarsson, doktorsnemi (fulltrúi nemenda)
    • Valdimar Tr. Hafstein, dósent (Félagsvísindasvið)
    • Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri

Drög að Viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands

Vinna gæðanefndar

  • Gæðanefnd tók mið af ýmsum forsendum og erlendum fyrirmyndum, s.s.
    • stefnumörkun European University Association (EUA)
    • leiðbeiningarritum Center of Graduate Studies (CGS)
    • gögnum frá The Quality Assurance Agency for Higher Education (QAA)
  • Umsagnir um fyrstu drög bárust frá öllum fræðasviðum, Stúdentaráði og kennslumálanefnd háskólaráðs

Tengsl viðmiða og krafna við reglur

  • Lögin og reglurnar mynda formlega umgjörð um meistaranáms
  • Viðmið og kröfur
    • snúast um gæði námsins, s.s. hvaða kröfur eru gerðar til leiðbeinenda, fræðasviða, deilda og námsleiða
    • eru samþykkt stefna háskólans um hvað teljast æskileg markmið út frá faglegum- og gæðaforsendum 
    • kröfur verða að eiga sér stoð í reglum sem settar eru af háskólaráði
  • Viðmiðin eru sambærileg við það sem tíðkast í samanburðarháskólum
  • Þau skiptast í:
    • Almenn viðmið sem eru rammi er vísar til alþjóðlega viðurkenndra forsenda um gæði meistaranáms
    • Fagleg viðmið sem tilgreina lágmarkskröfur um hæfni og reynslu kennara, leiðbeinenda, þeirra sem leggja mat á námið og lokaverkefni, prófdómara og meistaraprófsnefnda
    • Efnisleg viðmið sem fela í sér lágmarkskröfur um námsaðstöðu meistaranema

Almenn viðmið – nokkur atriði

  • Markmið og hæfniviðmið meistaranáms
  • Stofnun námsleiða á meistarastigi
    • Vanda skal til undirbúnings og skipulagningar nýrra námsleiða á meistarastigi og þess gætt að þær uppfylli Viðmið um æðri menntun og prófgráður og verklagsreglur um undirbúning og skipulagningu nýrra námsleiða
  • Móttaka nemenda og upplýsingagjöf
    • Fræðasvið og deildir skulu hafa skráð ferli fyrir móttöku nýnema og miðlun upplýsinga
  • Einingafjöldi og tímalengd náms
    • Meistaranám að loknu grunnnámi er 90-120 einingar (ECTS). Miðað við full námsafköst er námstími að jafnaði 1½-2 ár
    • Hámarkstími til að ljúka meistaragráðu skal að jafnaði vera 2 ár þegar um er að ræða 90 eininga nám og 3 ár þegar í hlut á 120 eininga nám
  • Námsskipulag
    • Námsleiðir í meistaranámi skulu vera vel skipulagðar og í samræmi við skilgreind hæfniviðmið
    • Vinnuálag nemenda skal vera hæfilegt og dreifast jafnt yfir námstímann
    • Fyrir hverja námsleið í meistaranámi verður að vera fyrir hendi nægilegur fjöldi námskeiða og aðstaða til þjálfunar á hverjum tíma til að nemendur geti stundað fullt nám
  • Leiðbeinandi
    • Til að tryggja gæði leiðbeiningar skal hver leiðbeinandi að jafnaði ekki leiðbeina fleirum en 10 meistaranemum á hverjum tíma
  • Kynning lokaverkefna
    • Æskilegt er að meistaranemar kynni lokaverkefni sín opinberlega
    • Í samræmi við eðli háskólastarfs og stefnu Háskóla Íslands um opinn aðgang að rannsóknaniðurstöðum skulu lokaverkefni að jafnaði birt í Skemm

Fagleg viðmið – nokkur atriði

  • Kröfur til leiðbeinenda
    • Kennarar í meistaranámi skulu að lágmarki hafa lokið meistaraprófi eða öðru jafngildu prófi og vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði
    • Deildir skulu stuðla að því að kennarar í meistaranámi fái viðeigandi þjálfun og símenntun á sviði kennslu meistaranema
    • Stundakennarar sem kenna í meistaranámi skulu uppfylla sömu faglegu kröfur og gerðar eru til fastra kennara
  • Kröfur til umsjónarkennara, leiðbeinenda og meistaraprófsnefnda
    • Sérhver meistaranemi skal hafa umsjónarkennara og/eða leiðbeinanda
    • Í þeim tilvikum þar sem skipaðar eru meistaraprófsnefndir skulu reglur deilda kveða á um skipan og verksvið þeirra
    • Umsjónarkennarar, leiðbeinendur og þeir sem sitja í meistaraprófsnefndum skulu uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til fastra kennara í meistaranámi
  • Prófdómarar
    • Deild eða fastanefnd á hennar vegum tilnefnir prófdómara hvers meistaranema
    • Prófdómari skal ávallt leggja mat á lokaverkefni meistaranema ásamt leiðbeinanda og/eða meistaraprófsnefnd þar sem við á
    • Prófdómarar skulu að jafnaði ekki koma úr hópi akademískra starfsmanna deildar
    • Forseti fræðasviðs skipar prófdómara

Efnisleg viðmið

  • Meistaranemum skal boðið upp á rannsóknar- og vinnuaðstöðu sem er fullnægjandi fyrir nám og lokaverkefni þeirra
  • Tryggt skal að meistaranemar hafi reglulegan aðgang að leiðbeinendum og/eða umsjónarkennurum sínum
  • Meistaranemum skal standa til boða málstofur eða annar viðeigandi vettvangur fyrir umræðu og kynningu á verkefnum sínum

Ábyrgð og eftirlit

  • Stefna fræðasviða og deilda um málefni meistaranáms
  • Öflun, greining og miðlun gagna
  • Eftirlit með námsframvindu og brottfalli
  • Eftirlit með gæðum meistaranáms
  • Ytra gæðamat og vottun

Kvörtunarferli og endurskoðun

  • Kvörtunarferli fyrir meistaranema
    • Meistaranemi getur beint erindi til Miðstöðvar framhaldsnáms telji hann að viðkomandi fræðasvið, deild eða námsleið fullnægi ekki þessum viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands
  • Endurskoðun
    • Gæðanefnd háskólaráðs og stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms fjalla reglulega um þessi Viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við HÍ. Endurskoða skal viðmiðin og kröfurnar eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þeirra

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir kynninguna og gæðanefnd fyrir vandaða vinnu við undirbúning málsins og gaf orðið laust.

Forseti Félagsvísindasviðs þakkaði fyrir kynninguna og lýsti ánægju sinni með að tekið hefði verið tillit til athugasemda í umsögn fræðasviðsins. Gerði forsetinn að umtalsefni rammann sem fræðasviðum er settur til að standast framlögð viðmið og kröfur um gæði meistaranáms. Sagði hann að þótt óumdeilt væri innan háskólasamfélagsins að vanda skyldi til verka við doktorsnámið væri ekki unnt að líta framhjá því að sumum fræðasviðum og deildum væri mjög þröngur fjárhagslegur stakkur skorinn. Því vaknaði sú spurning hvort koma mætti sérstaklega til móts við þær einingar sem standa höllustum fæti til að þær geti staðið undir settum gæðakröfum.

Fulltrúi atvinnu- og þjóðlífs í háskólaráði sagðist hafa starfað sem stundakennari í verkfræði og að í mörgum greinum færi námið fram í nánum tengslum við fyrirtæki og aðra aðila utan háskólans. Varpaði hann fram þeirri spurningu hvort í framlögðum viðmiðum og kröfum væri tekið nægilegt tillit til slíks samstarfs.

Deildarforseti Læknadeildar spurði hvort hámarksnámstíminn sem kveðið væri á um í viðmiðunum og kröfunum væri ófrávíkjanlegur eða hvort hann gæti verið sveigjanlegri þegar hagnýtt nám og þjálfun væri umtalsverður hluti af doktorsnáminu.

Fulltrúi Heilbrigðisvísindasviðs í gæðanefnd svaraði því til að í Læknadeild, sem hér væri vísað til, hefði verið gefinn kostur á hægari námsframvindu.

Formaður gæðanefndar brást við framkomnum spurningum og sagði að í fyrirliggjandi viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands væri reynt að taka á flestu af því sem fram hefði komið í umræðunni. Varðandi spurningu fulltrúans úr háskólaráði sagði hann að ábyrgð leiðbeinanda doktorsnema takmarkaðist ekki við námið innan Háskóla Íslands heldur tæki einnig til samstarfsaðila utan háskólans. Um athugasemd forseta Félagsvísindasviðs sagði hann að framlögð viðmið og kröfur væru stefna Háskóla Íslands varðandi gæði meistaranáms við skólann og það væri ekki hlutverk þeirra að fjalla um fjármál. Mikilvægt væri að gera metnaðarfullar kröfur til gæða námsins og gæti slík stefnumótun orðið grundvöllur fyrir kröfum um viðeigandi fjármögnun.

Formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs sagði að það væri markmið Háskóla Íslands að laða til skólans fjölbreyttan hóp nemenda og kennara og að allir hefðu sömu tækifæri til að njóta sín í námi og starfi. Spurði formaðurinn hvort gæðanefnd hefði sérstaklega hugað að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við samningu viðmiðanna?

Landsbókavörður vék sérstaklega að því ákvæði viðmiðanna um æskilegt væri að lokaverkefni meistaranema skyldu kynnt opinberlega og að jafnaði birt í Skemmu. Spurði landsbókavörður hvort í þessu fælist að falla ætti frá því að prenta lokaritgerðir?

Formaður gæðanefndar brást við spurningu formanns jafnréttisnefndar og sagði að nefndin hefði staðið með sama hætti að samningu meistaranámsviðmiðanna og samningu gæðaviðmiða fyrir doktorsnám fyrir nokkrum misserum. Við þessa vinnu hafi verið tekið fullt tillit til ákvæða laga og reglna um jafnrétti, en nefndin hefði ekki farið sérstaklega yfir það hvort viðmiðin væru í samræmi við sjónarmið um samþættingu. Varðandi spurningu landsbókavarðar sagði hann að í gæðaviðmiðunum fyrir meistaranám væri getið um birtingu í Skemmu en ekki fjallað sérstaklega um prentun meistararitgerða.

Sviðsstjóri kennslusviðs bætti því við að almennt væri litið svo á að niðurstöður rannsókna og lokaverkefni nemenda skyldu vera aðgengileg. Hins vegar gæti komið upp tilvik þar sem aðgangur þyrfti að vera takmarkaður tímabundið, t.d. vegna persónuverndarsjónarmiða. Þetta tengdist umræðu síðasta háskólaþings um opinn aðgang og yrði áfram unnið að því máli í vetur og stefnt að því að ljúka því eftir áramót.

Varadeildarforseti Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar spurði hvort framlögð viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands fælu í sér að ekki væri heimilt að bjóða meistaranám án lokaverkefnis, s.s. gert væri í fimm ára kennaranámi.

Formaður gæðanefndar svaraði deildarforseta Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar og sagði að í reglum háskólans væri kveðið á um að í öllu rannsóknatengdu meistaranámi skyldi vera lokaverkefni, þótt það gæti verið mis umfangsmikið. Sagði formaðurinn að e.t.v. þyrfti að ræða þetta atriði betur því t.d. gæti komið upp það tilvik að nemandi sem hefði lokið meistaraprófi án lokaverkefnis erlendis sækti um aðgang að doktorsnámi við Háskóla Íslands. Ef háskólinn myndi heimila slíkt þyrfti að breyta reglum skólans.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs benti á að meistaranám væri í mörgum tilvikum forsenda lög- eða faggildingar og að baki því byggju reglur sem ekki væri gert ráð fyrir í þeim almennu gæðaviðmiðum sem hér væru lögð fram.  Því bæri að líta á viðmiðin sem lágmarkskröfur.

Deildarforseti Viðskiptafræðideildar sagði að deildin byði upp á tvær námslínur í meistaranámi án sérstaks lokaverkefnis, MBA-nám og M.Acc.-nám í reikningsskilum og endurskoðun. Spurði hann hvort framlögð viðmið og kröfur skertu heimild deildarinnar til að bjóða upp á slíkt nám?

Forseti Félagsvísindasviðs spurði hvort komið hefði til tals að meistaranámsviðmiðin tækju einnig til viðbótar- eða diplómanáms á meistarastigi?

Formaður gæðanefndar brást við spurningu forseta Viðskiptafræðideildar og Félagsvísindasviðs og sagði að nefndin hefði unnið gæðaviðmiðin skv. ákvæðum stefnu Háskóla Íslands, en þar væri tiltekið að skilgreina ætti viðmið og kröfur um gæði rannsóknatengds meistaranáms. Varðandi spurningu forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sagði formaðurinn það vera réttan skilning að viðmiðin kveði á um lágmarkskröfur og gert væri ráð fyrir því að fræðasvið og deildir geti skilgreint strangari kröfur eftir því sem ástæða væri til.

Gæðastjóri háskólans þakkaði fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar ábendingar og málefnalega umfjöllun. Tók hann undir það sjónarmið að framlögð viðmið og kröfur um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands fælu í sér lágmarkskröfur. Í framhaldi af innleggi forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs benti hann á að í viðmiðunum væri sérstaklega hvatt til þess að faglegar einingar öfluðu sér til viðbótar vottunar eða faggildingar þar sem við á.

Deildarforseti Hagfræðideildar brást við spurningu forseta Félagsvísindasviðs og sagðist líta svo á að gæðaviðmiðin taki einnig til diplómanáms á meistarastigi.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor gæðanefnd fyrir góða vinnu og formanni nefndarinnar fyrir kynninguna. Sagði rektor að við vinnslu málsins hefði verið aflað umsagna fræðasviða, deilda og samtaka stúdenta og eins og fram hefði komið hefði verið tekið tillit til þeirra.

Bar rektor upp svohljóðandi tillögu að ályktun:

„Háskólaþing ályktar að fela rektor að ganga frá framlögðum Viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og ábendingum á háskólaþingi og málið verði síðan lagt fyrir háskólaráð til afgreiðslu.“

Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, Daði Már Kristófersson, Kristinn Andersen, Karl G. Kristinsson, Helga Ögmundsdóttir, Hrefna Friðriksdóttir, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, Þórður Kristinsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Hilmar B. Janusson, Magnús Diðrik Baldursson og Tór Einarsson.

Kl. 14.20-14.40: Kaffihlé

Kl. 14.40-15.40 - Dagskrárliður 3: Gæði náms og kennslu: Sjónarmið nemenda og nýmæli á döfinni.

María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs, og Róbert H. Haraldsson, prófessor og formaður kennslumálanefndar háskólaráðs, gerðu grein fyrir málinu. Reið María Rut á vaðið.

Gæði nám og kennslu – sjónarmið nemenda

Um Stúdentaráð Háskóla Íslands

  • Tilgangur Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) er að standa vörð um menningarlega og félagslega hagsmuni stúdenta við Háskóla Íslands og vera æðsti fulltrúi þeirra innan Háskólans og utan
  • Ráðið samanstendur í dag af 29 fulltrúum
  • Á skrifstofu SHÍ starfa fimm manns (formaður, varaformaður, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi og ritstjóri Stúdentablaðsins)
  • Fyrirkomulagi við kjör fulltrúa í Stúdentaráð var breytt í ár og var nú í fyrsta sinn kosið í sviðsráð Stúdentaráðs á hverju fræðasviði fyrir sig

Núverandi fyrirkomulag

  • Stjórn
  • Skrifstofa
  • Sviðsráð Hugvísindasviðs
  • Sviðsráð Félagsvísindasviðs
  • Sviðsráð Heilbrigðisvísindasviðs
  • Sviðsráð Menntavísindasviðs
  • Sviðsráð Verkfræði- og náttúruvísindasviðs

Aðkoma stúdenta

  • Nýtt fyrirkomulag – dýrmætt tækifæri til að efla aðkomu stúdenta innan stjórnsýslunnar
  • Rödd stúdenta er mikilvæg
  • Óánægjuraddir fái réttan farveg

Gæðamál

  • Aðkoma stúdenta að gæðamálum í dag felst í:
    • Stofnun Landssamtaka íslenskra Stúdentafélaga
    • Þátttöku í sjálfsmati deilda og þverfræðilegra námsleiða
    • Virkri þátttöku í skipulagningu árlegs málþings um fjölbreytta kennsluhætti
    • Formaður Stúdentaráðs situr í úttektarnefnd Háskóla Íslands
    • En af hverju er erfitt að fá stúdenta til að taka þátt?
    • „Ég hef ekki nennt að fylgjast með þessu því ég er alveg viss um að þetta sé eins og með kennslukannanirnar – ekkert breytist með því að taka þátt.

Kennslumál

  • Nám vs. kennsla
  • Erum við að tala of mikið og gera of lítið? Hvert er vandamálið?
  • Við þurfum að minnka gjána á milli stúdenta og stjórnsýslunnar
  • Stúdentar vilja hafa áhrif – flestir líta á nafn sitt sem fjárfestingu til framtíðar

Að lokum

  • Stúdentaráð Háskóla Íslands hvetur alla forseta fræðasviða og deildarforseta til að hafa í huga að mikilvægt er að nemendafulltrúar í nefndum séu þar af fullum þrótti og með það að markmiði að miðla til stjórnsýslunnar því sem betur má fara

Að lokinni framsögu Maríu Rutar tók Róbert H. Haraldsson orðið.

Gæði náms og kennslu – nýmæli á döfinni

Kennslumálanefnd háskólaráðs

  • Björn Guðbjörnsson
  • Ingvar Sigurgeirsson
  • Hjálmtýr Hafsteinsson
  • Sif Einarsdóttir
  • Stefán Þór Helgason
  • Sveinn Yngvi Egilsson
  • Með nefndinni starfa:
    • Guðrún Geirsdóttir
    • Hreinn Pálsson
    • Þórður Kristinsson

Staða mála

  • Kennslukönnun
  • Aðgangsviðmið
  • Aðgangspróf (APH)
  • Málþing um gæði náms og kennslu
  • Kennslumálasjóður
  • Vefstudd kennsla
  • Sjálfsmat deilda
  • Kennslustefna deilda

Kennslukönnun

Kennslukönnun í grunnnámi

  • Framsetningu breytt og könnun einfölduð haustið 2012
  • Spurningum fækkað
  • Þátttaka hefur aukist
    • 53% þátttaka haustið 2012 (var 43% haustið 2011)
    • 46% þátttaka vorið 2013 (var 28% vorið 2012)
  • Eftirfylgni

Miðmisseriskönnun

  • Lögð fyrir í fyrsta sinn 2.-7. okt. sl.
  • Einföld könnun
    • Aðeins tvær spurningar
    • Opinn textareitur: Ábendingar um námskeiðið og kennsluna
    • Einkunn frá 1-10
  • Kennarar gátu afþakkað könnunina
  • 7.821 svör/ábendingar bárust frá nemendum
  • Stjórnendur hafa aðgang að einkunnagjöf
  • Aðeins kennari/umsjónarmaður námskeiðs hefur aðgang að ábendingum úr textareit

Miðmisseriskönnun vorið 2014

  • Meira verður lagt í kynningu á miðmisseriskönnuninni bæði hjá nemendum og kennurum
  • Tveir gluggareitir
    • Hvað heppnaðist vel? Hvað má bæta?
  • Stjórnendur hafi líka aðgang að ábendingum úr textareitum?
  • Nota miðmisseriskönnun líka í framhaldsnámi?

Könnun fyrir framhaldsnámið

  • Kennslukönnun fyrir framhaldsnám
    • Kynnt vorið 2014
    • Ákveðinn grunnur af spurningum
    • Ólíkar valspurningar eftir tegundum námskeiða:
      • Málstofur
      • Dæmatímar
      • Fyrirlestrar

Aðgangsviðmið

  • Samningur Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir 2012-2016 (viðauki m.a. um aðgangsviðmið)
  • Verkfræði- og náttúruvísindasvið vann slík aðgangsviðmið skólaárið 2012-2013
  • Vinna á hinum sviðunum fjórum stendur yfir
  • Áætlað að aðgangsviðmið á öllum sviðum liggi fyrir í desember 2013

Aðgangspróf fyrir háskólastigið (APH)

Staða mála

  • Próf hannað í samstarfi við Námsmatsstofnun
  • Erlendar fyrirmyndir eru til dæmis SAT, ACT og  SweSAT
  • Mæla þætti sem tengjast námsgetu og færni sem leiðir af þjálfun í námi (aptitude, developed abilities)
  • Hagfræðideild notaði inntökupróf 2012 og 2013 (m.a. APH)
  • Læknadeild nýtti prófhluta úr APH 2013
  • Lagadeild hefur ákveðið að nota prófið við inntöku nýnema 2014
  • Reglur Lagadeildar samþykktar af háskólaráði 3. okt. 2013

Kynningarefni um aðgangsprófið

  • Á vef Háskóla Íslands
  • Nám >> Umsókn um nám >> Aðgangspróf
  • http://www.hi.is/adalvefur/adgangsprof_fyrir_haskolastig

Málþing í samvinnu við Stúdentaráð, kennslusvið, Kennslumiðstöð og gæðastjóra

Hvernig eflum við saman gæði náms og kennslu?

  • Árlegt málþing um kennslumál
  • 13. janúar 2011:
    • Úr Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016 (Kennsla)
  • 1. mars 2012:
    • Fjölbreyttir kennsluhættir

Málþing 2014

  • Janúar eða mars 2014?
  • Samræða milli nemenda og kennara
  • Enn er tækifæri á að koma með uppástungur um efni í fyrirlestra og málstofur
    • Ábyrgð nemenda á eigin námi
    • Námsmat og þróun þess

Kennslumálasjóður

  • Endurreistur 2012
    • Metfjöldi umsókna (35)
    • 19 styrkjum úthlutað (54%)
    • 400 þús. kr. til 900 þús. kr.
    • Sótt var um 44 m.kr.
    • Úthlutað 10 m.kr.  (23%)

Umsóknir 2013

  • Umsóknir fleiri en 2012 (36)
    • 32 m.kr. (12 m.kr. til úthlutunar; 33%)
  • Mjög fjölbreytilegar
    • Margar tengjast nýjum kennsluháttum:
      • MOOC, vendikennsla o.s.frv.
      • Dæmisögur
      • Örfyrirlestrar
  • Heiti verkefna sem fengu styrk vorið 2013:
    • Efling vendikennslu og „MOOC“ á Heilbrigðisvísindasviði
    • Gerð kennslumyndbanda og æfinga í tölfræði
    • Heilsutorg háskólastúdenta
    • Hugmyndasaga og málvísindi
    • Hönnunarsmiðja um upplýsingatækni og framtíð menntunar
    • Icelandic Online námskeið 5-6
    • Innleiðing aðferða sem leiða til stöðugrar kennsluþróunar
    • Jafningjaráðgjöf við verkefnasmíð
    • Kenningar í mynd: Bættir kennsluhættir og fjölbreytni í miðlun námsefnis á framhaldsstigi
    • Kennsla í öruggri lyfjavinnu
    • Leiðbeinandi stöðupróf í erlendum tungumálum
    • Notkun rafrænna miðla við kennslu
    • Notkun örfyrirlestra í kennslu eigindlegra rannsókna
    • Nýjar aðferðir til að kenna þeim stærðfræði sem ekki vilja læra hana
    • Raunhæf verkefni í fjármunarétti og fjármálarétti
    • Sameiginlegur starfsdagur kennara í kennaramenntun
    • Samskipti læknis og sjúklings: samþætting þjálfunar í samskiptafræði og kliniskri færni
    • Sérstök sameign með sérstakri áherslu á lög um fjöleignarhús – námsefnisgerð
    • Sjálfbær þróun fyrir alla
    • Vefkerfi fyrir forritunaræfingar í tölvunarfræði
    • Þverfagleg lífaflfræði
  • Umsóknarfrestur fyrir næstu úthlutun er 1. mars 2014

Vefstudd kennsla (MOOCs)

Vefstudd kennsla (opin netnámskeið)

  • Starfshópur háskólaráðs skilaði tillögum 13. júní 2013
  • Megintillögurnar eru:
    • (i) að valin verði í tilraunaskyni 2-3 námskeið sem fyrir hendi eru á ólíkum fræðasviðum Háskóla Íslands og valin erlend opin netnámskeið felld inn í þau, að hluta eða í heild.
    • (ii) að Háskóli Íslands gangist fyrir því að framleidd verði í tilraunaskyni 2-3 opin netnámskeið á völdum sviðum.
      http://www.hi.is/sites/default/files/mooc_skyrsla_endanleg_mai2013_4.pdf
  • Verkefnisstjórn skipuð haustið 2013 til að fylgja eftir megintillögunni

Auglýsing

„Verkefnisstjórnin leitar nú að áhugasömum aðilum (kennurum, námsbrautum eða deildum) sem hafa hug á að flétta utanaðkomandi opin netnámskeið inní námskeið sín á vormisseri 2014. Verkefnisstjórnin mun standa fyrir sameiginlegum fundum þeirra sem taka þátt í þessu verkefni, fylgjast með framgangi þess, meta árangur og draga saman niðurstöður í skýrslu í lok misserisins. Gert er ráð fyrir að þátttakendur í verkefninu skrifi stutta skýrslu um hvernig til tókst. Fjárveiting hefur fengist til að greiða þátttakendum fyrir undirbúning, fundarsetu og gerð matsskýrslu.  Kennslumiðstöð HÍ mun veita tæknilegan stuðning eftir því sem mögulegt er.“

Sjálfsmat deilda, gæðanefnd, gæðastjóri

Staða mála

  • Hafa skilað endanlegri sjálfsmatsskýrslu
    • 8 deildir og 2 þverfræðilegar námsleiðir
  • Vinna nú að sjálfsmatsskýrslu
    • 9 deildir
  • Munu vinna að sjálfsmatsskýrslu 2014-2015
    • 8 deildir
  • Heildarúttekt á Háskóla Íslands
    • Fer fram 2014-2015
    • Undirbúningur hófst haustið 2013, m.a. með tilmælum um endurskoðun hæfniviðmiða allra námsleiða

Eftirfylgni

  • Samkvæmt samþykktu verklagi skulu forsetar fræðasviða gera grein fyrir eftirfylgni með niðurstöðum sjálfsmatsskýrslu deilda og hvernig til hefur tekist að framkvæma aðgerðaráætlun deilda
  • Tímabært að ræða hvernig sjálfsmatsskýrslunum verður frekar fylgt eftir til að nýta mikla og góða vinnu
  • Ýmsir möguleikar

Kennslustefna deilda

Úr Stefnu Háskóla Íslands 2011 – 2016

  • „Fræðasvið og deildir Háskóla Íslands marki sér skýra kennslustefnu sem kveði m.a. á um samþættingu rannsókna og kennslu á öllum námsstigum.”
  • Leiðbeiningar um mótun kennslustefnu, haust 2012
  • Heimtur betri nú en 2006-2011
  • Um 75% deilda höfðu samið kennslustefnu vorið 2013

Samþætting rannsókna og kennslu

  • Málstofur Micks Healey um samþættingu rannsókna og kennslu handa kennurum og stjórnendum
  • https://kennslumidstod.hi.is/samthaetting-rannsokna-og-kennslu/
  • Hugmynd um að halda námskeið á vormisseri 2014 með erlendum sérfræðingi
  • Hugmyndir, uppástungur vel þegnar!

Rektor þakkaði þeim Maríu Rut og Róbert fyrir góðar framsögur og gaf orðið laust.

Kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs lýsti ánægju sinni með að kennslumál væru tekin yil umræðu á háskólaþingi. Mikið hefði verið fjallað um háskólakennslu í fjölmiðlum að undanförnu og m.a. verið fullyrt að kennsluhættir í háskólum landsins væru einhæfir. Sagði fulltrúinn þetta ekki koma heim og saman við reynslu sína, þótt vissulega væri það áskorun að halda uppi fjölbreyttum kennsluháttum þar sem nemendahópar væru stórir og erfitt að efna til umræðu. Lagði fulltrúinn til að gerð yrði úttekt á kennsluháttum við Háskóla Íslands til að afla áreiðanlegra upplýsinga um stöðu mála.

Kjörinn fulltrúi nemenda gerði að umtalsefni nýskipan stúdentaráðs og svonefnd sviðsráð stúdenta. Hvatti fulltrúinn til samvinnu milli stjórnenda fræðasviða og deilda við sviðsráðin, ekki síst á meðan þau væru að festa sig í sessi innan fræðasviðana.

Deildarforseti Raunvísindadeildar tók undir með fulltrúa stúdenta. Sagðist hann hafa veitt því eftirtekt að sviðsráðin ættu við smávægilega byrjunarörðugleika að stríða, en það væri eðlilegt þar sem þau hefðu tekið við ýmsum hlutverkum sem nemendafélög hefðu áður haft með höndum.

Sviðsstjóri kennslusviðs fagnaði nýskipan Stúdentaráðs og sagði hana færa starfsemina nær vettvangi. Benti hann á að heitið „sviðsráð“ gæti verið villandi og betra að nota heitið „sviðsráð stúdenta við x-svið“.

Fulltrúi í gæðanefnd fagnaði umræðunni um kennslumál. Sagði fulltrúinn að innan Háskóla Íslands væri til mikil þekking á þessu sviði, ekki síst á Menntavísindasviði, og mikilvægt væri að nýta hana innan háskólans alls.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs tók undir með fulltrúa Hugvísindasviðs og sagði það reynslu sína að kennarar Háskóla Íslands legðu sig almennt mjög fram um að veita góða kennslu.

Formaður kennslumálanefndar tók undir með fulltrúa Hugvísindasviðs um að gagnlegt gæti verið að gera úttekt á kennsluháttum við Háskóla Íslands. Þannig mætti afla upplýsinga um hvaða kennsluhættir tíðkuðust helst og í hvaða mæli. Sagði hann að í starfi sínu sem formaður nefndarinnar hefði hann orðið var við mikla gerjun á sviði kennsluhátta innan háskólans á síðustu árum, m.a. með tilkomu yngri kennara. Þá minnti formaðurinn á að í tengslum við kennslustefnu deilda og fræðasviða væri gert ráð fyrir því að deildirnar skiluðu árlega skýrslu um framkvæmd stefnunnar og þyrfti að taka það verkefni á dagskrá á næstunni. Loks vék formaðurinn að fjarnámi og sagði kennslumálanefnd hafa fjallað nokkuð um það, en þó þyrfti að hafa í huga að áhuginn og þörfin á fjarkennslu væri mismikil eftir fræðasviðum og deildum. Mestur væri áhuginn á Menntavísindasviði og Félagsvísindasviði, en minni hjá öðrum fræðasviðum. Sagði formaðurinn það vera skoðun sína að háskólinn ætti að móta sér stefnu um fjarkennslu.

Rektor sagði yfirlitið í kynningu formanns kennslumálanefndar á umsóknum um styrki úr kennslumálasjóði vera til marks um aukinn áhuga á kennslumálum og grósku á sviði kennslumála innan háskólans. Þá vék rektor að hugmyndinni um úttekt á kennsluháttum innan háskólans og sagði í því sambandi að víða um skólann væri verið að gera tilraunir með netnámskeið sem einnig væri áhugavert að fá meiri upplýsingar um. Loks beindi rektor þeirri spurningu til formanns kennslumálanefndar hver reynslan væri af miðmisseriskönnunum í námskeiðum?

Formaður kennslumálanefndar brást við spurningu rektors og sagði að miðmisseriskönnunin væri enn á tilraunarstigi og að ákveðið hefði verið að kynningin á henni yrði ekki eins ágeng eins og þegar hefðbundna kennslukönnunin ætti í hlut. Hugmyndin að baki miðmisseriskönnun væri að gefa nemendum tækifæri til að koma því á framfæri sem gagnlegt væri að breyta tafarlaust og þá væri kannski ekki eins mikilvægt að allir tækju þátt. Tilraunin lofaði góðu um framhaldið og t.d. væri vitað um dæmi þar sem kennarar hefðu rætt niðurstöður opinskátt við nemendur í námskeiðum sem þeir kenndu.

Fulltrúi stúdenta sagði að í gegnum tíðina hefði mikið verið rætt um þátttöku stúdenta í kennslukönnunum og oft verið fundið að því að hún væri ekki nægileg. Sagði fulltrúinn þetta einkum mega rekja til þess að það vantaði upplýsingar um úrvinnslu og eftirfylgni með kennslukönnunum. Miðmisseriskönnunin væri þó mikilvægt skref í rétta átt, því hefðbundnu kennslukannanirnar væru gerðar eftirá og þá væri einfaldlega of seint að breyta hlutunum ef eitthvað væri í ólagi. Stúdentar krefðust þess ekki að fá að sjá niðurstöður kennslukönnunar fyrir einstaka kennara, en vildu þó fá skýrari upplýsingar um hvað kæmi út úr þeim, t.d. um niðurstöður fyrir einstakar deildir í samanburði við aðrar deildir. Sagði fulltrúi stúdenta slíka kynningu á niðurstöðum kennslukannana geta stuðlað að heilbrigðri samkeppni á milli deilda. Þá vék stúdentafulltrúinn að tengslum vinnuframlags og námeininga í námskeiðum. Sagði hann það vera reynslu margra stúdenta að ekki væri alltaf nægilegur samhljómur í þessu og mikilvægt að samræma það betur, a.m.k. innan hvers fræðasviðs og deildar. Loks vék fulltrúi stúdenta máli sínu að kennsluskrá háskólans og sagði votta fyrir ákveðnu stefnuleysi varðandi námsskrársmálefni. Spurði stúdentafulltrúinn hvort kennararnir sem væru fyrir hendi ættu að móta kennsluskrána eða hvort velja ætti kennara út frá kennsluskrá/námsskrá?

Formaður kennslumálanefndar þakkaði fyrir framkomnar ábendingar varðandi miðlum upplýsinga og eftirfylgni með kennslukönnun. Sagði formaðurinn að töluvert hefði verið gert á síðustu árum til að auka upplýsingamiðlun varðandi kennslukannanir og hefðu niðurstöður t.d. verið kynntar sl. 5 ár þannig að kennarar (þó ekki nemendur) gætu farið í Uglu og séð niðurstöður kennslukönnunar fyrir námsleiðir og deildir og borið saman við aðrar skipulagseiningar. Um ábendingu fulltrúa stúdenta varðandi tengsl vinnuframlags og námseiningamats sagði formaður kennslumálanefndar það vera skoðun sína að samræming á þessu sviði ætti fremur heima á vettvangi fræðasviða en miðlægt. Margt hefði þó verið gert í þessum efnum, t.d. á vettvangi Hugvísindasviðs. Að endingu sagði formaðurinn að í umræðunni um kennslumál hefðu stúdentar oft sett fram ósk um að komið verði á sameiginlegum vettvangi til að fjalla um nýsköpun og nýjar hugmyndir á sviði náms og kennslu. Sagði hann ýmislegt nú þegar hafa verið gert í þessu sambandi og nefndi t.d. nýsköpunarnámskeið sem Verkfræði- og náttúruvísindasvið stæði fyrir og væri opið valnámskeið fyrir alla nemendur í öllum deildum.

Forseti Jarðvísindadeildar sagði umræðuna um kennslumál stundum vilja einangrast við sértæka hluti á borð við kennslukönnun. Sama gilti t.d. um umræðu kennara um vinnumatskerfi háskólans. Kennslukönnun væri vissulega mikilvæg, en þó þyrfti að hafa hugfast að hún væri ekki hlutlægur mælikvarði á gæði námskeiða heldur gæti hún einnig verið vinsældakönnun. Í sjálfu sér væri tiltölulega einfalt að búa til skemmtilegt námskeið, en það væri þó ekki sjálfgefið að slíkt námskeið gagnaðist nemendum og náminu til lengri tíma. Nefndi deildarforsetinn sem dæmi um önnur málefni sem þyrfti að ræða í tengslum við gæði náms og kennslu væri hversu margir nemendur sem hæfu nám myndu ljúka því, þ.e. brautskráningarhlutfall, hve langan tíma nemendur væru í námi, þ.e. tíma til brautskráningar, afdrif nemenda að námi loknu o.fl.

Aðstoðarrektor vísinda og kennslu benti á að um mörg þeirra mála sem vikið hefði verið að í umræðunni væri kveðið á um í stefnu háskólans, s.s. um endurskoðun kennslukönnunar, innleiðingu miðmisseriskönnunar, aukna skilvirkni í námi o.fl. Sagði hann að í umræðunni um kynningu á kennslukönnunum þyrfti einnig að hafa í huga persónuverndarsjónarmið því í könnununum kæmu stundum fram viðkvæmar persónulegar upplýsingar sem ekki væri heimilt að gera opinberar. Um miðmisseriskannanir sagði hann að þær gætu geymt dýrmætar upplýsingar sem nýta mætti sem grundvöll fyrir samráð á milli nemenda og kennara og væri mikilvægt að nýta þau þannig. Umræðan um tengsl vinnuálags og námseininga væri hins vegar flóknara mál sem ræða þyrfti sérstaklega.

Forseti Félagsvísindasviðs þakkaði fyrir góðar umræður og kynningar. Sagði forsetinn að niðurstöður kennslukannana væru nýttar með ýmsu móti, t.d. yrðu stundakennarar ekki endurráðnir ef þeir kæmu endurtekið illa út úr könnununum. Þá benti forseti Félagsvísindasviðs á að um þessar mundir væri verið að innleiða aðgangspróf í nokkrum deildum háskólans og væri mikilvægt að fylgjast vandlega með áhrifum þeirra, t.d. um þróun nemendahópsins.

Skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri háskólans þakkaði framsögumönnum og fundarmönnum fyrir góðar og gagnlegar umræður um málefni gæða náms og kennslu. Benti hann á að í tengslum við þau málefni sem borið hefðu á góma á háskólaþinginu væri mikilvægt að hafa í huga að allar deildir og þverfræðilegar námsleiðir Háskóla Íslands væru þessi misserin að fara í gegnum ítarlegt sjálfsmat sem beindist sérstaklega að því hvernig deildir tryggðu og efldu gæði náms og kennslu. Mikilvægt væri að fylgja eftir niðurstöðum sjálfsmatsskýrslna deildanna því í þeim væri að finna fjársjóð upplýsinga og hugmynda sem vinna þyrfti úr skipulega í þágu framfara á sviði kennslumála. Einnig hefði fyrir tveimur árum verið byrjað að afla með skipulegum hætti margvíslegra upplýsinga um viðhorf og reynslu nemenda af náminu og í því sambandi væru nú gerðar árlega umfangsmiklar viðhorfskannanir meðal núverandi nemenda og brautskráðra kandídata.

Fulltrúi stúdenta kvaddi sér aftur hljóðs og tók undir orð formanns kennslumálanefndar um mikilvægi samráðs á milli kennara og nemenda. Sagði stúdentafulltrúinn brýnt að vinna við skipulag náms og kennslu færi í ríkara mæli fram í samráði við nemendur og að nemendur og kennarar töluðu meira saman um skipulag kennslu og námskeiða. Varðandi nýsköpun á sviði náms benti fulltrúinn á að á vettvangi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs hefði hópur nemenda um nokkurt skeið unnið að smíði rafknúins kappakstursbíls. Leggja mætti meiri áherslu á slík hagnýt verkefni á öllum fræðasviðum og deildum háskólans því þau væru til þess fallin að taka saman þekkingu nemenda úr mörgum námskeiðum og að þjálfa nemendur í að beita henni með hagnýtum hætti.

Kjörinn fulltrúi Félagsvísindasviðs sagði að við Stjórnmálafræðideild hefði um nokkurt skeið verið unnið að átaksverkefni til að bæta gæði náms og kennslu og hefði m.a. fengist styrkur úr kennslumálasjóði til verkefnisins. Ein þeirra aðgerða sem gripið hefði verið til væri að bjóða öllum nemendum á fyrstu misserum námsins upp á sérstaka leiðsagnartíma. Hefði þetta fyrirkomulag nú þegar skilað góðum árangri og væri mikilvæg viðbót við kennslukannanir. Tölur bentu til þess að átak Stjórnmálafræðideildar hefði orðið til þess að draga úr brottfalli og auka námsánægju nemenda.

Deildarforseti Íslensku- og menningardeildar lagði orð í belg við umræðuna um kennslukannanir og sagði það vera skoðun sína að menningin í kringum hana mætti vera jákvæðari. Þótt ábendingar nemenda um það sem betur mætti fara væru gagnlegar þyrftu þeir einnig að gæta að því hvernig þeir höguðu orðum sínum. Þannig gæti ómálefnaleg gagnrýni haft áhrif á sjálfsmynd kennara og slíkt væri góðum kennsluháttum ekki til framdráttar. Sagðist deildarforsetinn hafa það fyrir reglu að ræða við nemendur snemma á hverju misseri og benda þeim á mikilvægi þess að vanda orð sín og stuðla að uppbyggilegri gagnrýni, þ.e. að koma fram við kennara sína eins og þeir vildu að kennararnir kæmu fram við þá.

Að umræðu lokinni þakkaði rektor þeim Maríu Rut og Róbert fyrir góðar framsögur og fundarmönnum fyrir málefnalega umræðu. Bar rektor upp svohljóðandi tillögu til ályktunar:

„Háskólaþing fagnar þeirri góðu vinnu til eflingar gæða náms og kennslu sem unnin er á vettvangi Stúdentaráðs og kennslumálanefndar háskólaráðs. Við áframhaldandi starf á þessu sviði verði m.a. tekið mið af þeim hugmyndum og ábendingum sem fram komu í kynningum og umræðum á háskólaþingi.“

– Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Maríu Rutar Kristinsdóttur og Róberts H. Haraldssonar, þau Jón Karl Helgason, Ásdís Arna Björnsdóttir, Hafliði Pétur Gíslason, Þórður Kristinsson, Amalía Björnsdóttir, Snjólfur Ólafsson, Ragnheiður Björk Halldórsdóttir, Magnús Tumi Guðmundsson, Jón Atli Benediktsson, Daði Már Kristófersson, Magnús Diðrik Baldursson, Guðbjörg Pálsdóttir, Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Guðni Elísson.

Kl. 15.40-16.00 - Dagskrárliður 4: Endurmenntun Háskóla Íslands 30 ára

Rektor bauð Kristínu Jónsdóttur Njarðvík, forstöðumann Endurmenntunar Háskóla Íslands, velkomna og óskaði stofnuninni til hamingju með 30 ára afmælið.

Endurmenntun 30 ára

  • Jákvætt viðhorf og yfirburðarstaða á markaði
  • Engin opinber framlög
  • Samstarf við fagfélög og fyrirtæki
  • Greining fræðsluþarfa
  • Mikilvæg tengsl við deildir Háskóla Íslands

Samstarfsmöguleikar

  • Námskeið á meistarastigi
  • Stutt námskeið án eininga
  • Erlendir fræðimenn
  • Námsbrautir á grunn- og meistarastigi
  • Undirbúningsnámskeið fyrir nýnema
  • Framkvæmd og þjónusta við ráðstefnuhald

Námskeið á meistarastigi

  • 86 námskeið árið 2013 í samvinnu við deildir
  • Nemendur safna einingum til meistaragráðu
  • Fagleg ábyrgð hjá deild – sömu inntökuskilyrði
  • Fjárhagslegur ávinningur deildar – 70% tekna að frádregnum umsýslukostnaði
  • Markaðssetning, skráning, innheimta og önnur umsýsla á vegum Endurmenntunar
  • Annar umsóknarfrestur

Stutt námskeið án eininga

  • Nýjungar og málefni í brennidepli
  • Sígild viðfangsefni
  • Farvegur fyrir miðlun þekkingar Háskóla Íslands til samfélagsins

Erlendir fræðimenn

  • Tækifæri til að:
    • gera það fjárhagslega mögulegt að fá erlenda fræðimenn til landsins
    • auka fjölbreytni í framboði Háskóla Íslands
    • Tengja saman fagfélög og háskóladeildir
  • Dæmi: Samstarf um meistaranámskeið í geislafræði

Námsbrautir á grunn- og meistarastigi

  • Mismunandi samstarfsmódel
  • Á grunn- og framhaldsstigi
  • Fagleg ábyrgð deildar
  • Fagráð fyrir hverja námsbraut
  • Tvö til fjögur misseri
  • Dæmi: Fjölskyldumeðferð – nám á meistarastigi
  • Samstarfsmódel um námsbraut á vegum deildar
  • Hlutfallsleg tekjuskipting
  • Fjárhagslegur ávinningur deildar
  • Dæmi: Þjónustustjórnun – nám á grunnstigi

Rektor þakkaði Kristínu fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Fulltrúi atvinnu- og þjóðlífs í háskólaráði þakkaði Kristínu fyrir kynninguna og óskaði stofnuninni til hamingju með 30 ára afmælið. Sagðist fulltrúinn vera formaður Verkfræðingafélags Íslands sem á sínum tíma hefði verið einn helsti hvataaðilinn að stofnun Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Sagði háskólaráðsfulltrúinn sérstöðu og styrk Endurmenntunar ekki síst felast í tengslunum við Háskóla Íslands og að mikilvægt væri að nýta þau sem best, t.d. með því að gefa starfsmönnum tiltekinna starfsgreina, s.s. verkfræðingum, kost á að taka einstök námskeið í háskólanum og að bjóða þeim upp á endurmenntun, t.d. í formi netnámskeiða.

Kjörinn fulltrúi Hugvísindasviðs sagði að Endurmenntun hefði á umliðnum árum í reynd gegnt ómetanlegu hlutverki á sviði almannatengsla fyrir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og verið gluggi deildarinnar að samfélaginu.

Forseti Viðskiptafræðideildar tók undir hamingjuóskir vegna 30 ára afmælis Endurmenntunar. Sagði deildarforsetinn að Viðskiptafræðideild og forveri hennar, Viðskipta- og hagfræðideild, hefði átt farsælt samstarf við Endurmenntun næstum öll þessi 30 ár, fyrst í formi einstakra námskeiða og síðar með skipulegu námi í mannauðsstjórnun og fjölmörgum öðrum námsleiðum.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs óskaði Endurmenntun til hamingju með afmælið og sagði að stofnunin gegndi þýðingarmiklu hlutverki varðandi skimun fyrir þörf á menntun í íslensku samfélagi. Einnig sagði forsetinn að stofnunarinnar biðu fjölmörg tækifæri, m.a. á sviði fag- og löggildingar starfsgreina.

Forstöðumaður Endurmenntunar þakkaði fyrir hamingjuóskirnar og bauð fulltrúum á háskólaþingi að koma áfram á framfæri góðum hugmyndum um frekari þróun Endurmenntunar. Tók forstöðumaðurinn undir það sjónarmið að miklir þróunarmöguleikar væru í samstarfi við Háskólann, m.a. á sviði netkennslu og í tengslum við faggildingu starfsgreina. Nú þegar væri unnt að sækja nokkrar námsbrautir á vefnum og fyrirhugað væri að þróa það starf áfram.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Kristínar Jónsdóttur Njarðvík, þau Kristinn Andersen, Pétur Pétursson, Ingjaldur Hannibalsson og Hilmar B. Janusson.

Að endingu þakkaði rektor fulltrúum á háskólaþingi fyrir góðar og málefnalegar umræður. Sleit rektor háskólaþingi og bauð fundarmönnum að þiggja hressingu í Bókastofu Aðalbyggingar.

Útsend gögn og gögn sem lögð voru fram á 11. háskólaþingi 14. nóvember 2013:

  1. Dagskrá og tímaáætlun 11. háskólaþings 14. nóvember 2013.
  2. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
  3. Fundargerð 10. háskólaþings 19. apríl 2013.
  4. Drög að Viðmiðum og kröfum um gæði meistaranáms við Háskóla Íslands, dags. 30. október 2013.