Ólöf Guðný Geirsdóttir, doktor frá Matvæla- og næringarfræðideild
„Markmið rannsóknarinnar var að auka þekkingu á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn vöðvarýrnun aldraðra. Ég vildi komast að því hvort styrktaræfingar ásamt viðbót af hágæðaprótínum gætu aukið vöðvastyrk og hreyfigetu,“ segir Ólöf Guðný Geirsdóttir, doktor í næringarfræði, sem rannsakað hefur áhrif nýrra næringardrykkja á næringarástand aldraðra.
Ólöf Guðný Geirsdóttir
„Markmið rannsóknarinnar var að auka þekkingu á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn vöðvarýrnun aldraðra. Ég vildi komast að því hvort styrktaræfingar ásamt viðbót af hágæðaprótínum gætu aukið vöðvastyrk og hreyfigetu.“
Vöðvarýrnun er algeng meðal aldraðra. Hún getur dregið úr styrk og hreyfifærni og dregur verulega úr lífsgæðum þeirra. Hægt er að vinna gegn henni með næringarríku fæði og hreyfingu. Þar að auki hefur verið sýnt fram á að mysuprótín innihalda allar þær lífsnauðsynlegu amínósýrur, en það eru byggingareiningar próteina, sem líkaminn þarf til vöðvauppbyggingar og viðhalds vefja líkamans. Mysuprótín eru sérstaklega auðmeltanleg og það gerir þau að vænlegum kosti til að bæta næringarástand hjá öldruðum. „Því var ákveðið að fara út í vöruþróun á næringardrykk sem inniheldur mysuprótín og um leið nýta íslenskt hráefni sem hefur hingað til verið hent. Og til varð prótein- og íþróttadrykkurinn Hleðsla,“ segir Ólöf.
Fyrstu niðurstöður rannsóknanna sýna að styrktaræfingar ásamt næringarviðbót auka vöðvamassa og vöðvastyrk og það eykur hreyfifærni þátttakenda. „Því má draga þá ályktun að styrktaræfingar, ásamt næringarviðbót, hafi áhrif gegn vöðvarýrnun og auki hreyfifærni hjá eldra fólki,“ segir Ólöf.
Hún bendir á að hærri lífaldur og betri heilbrigðisþjónusta hafi gert það að verkum að fólki eldra en 65 ára hafi fjölgað. Mikilvægt sé að auka lífsgæði aldraðra samhliða hærri lífaldri. Ólöf segir að niðurstöður rannsóknarinnar verði notaðar til að móta ráðleggingar til forvarna gegn tiltölulega algengu heilbrigðisvandamáli aldraðra. Þær ráðleggingar muni varða fæðu og hreyfingu aldraðra til að auka heilbrigði og lífsgæði þeirra.
Leiðbeinendur: Inga Þórsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild og forstöðumaður Næringarstofu og Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands, og Alfons Ramel, fræðimaður við Rannsóknastofu í næringarfræði við Landspítala og Háskóla Íslands.