10/2025
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2025, fimmtudaginn 4. desember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Silja Bára R. Ómarsdóttir, Andri Már Tómasson, Elísabet Siemsen, Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Atladóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson og Ragný Þóra Guðjohnsen. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Arnar Þór Másson og Davíð Þorláksson boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. Viktor Pétur Finnsson var fjarverandi.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun:
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
a. Forsendur og tillögur fjármálanefndar háskólaráðs vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2026.
Rektor og Guðmundur R. gerðu grein fyrir tillögum fjármálanefndar háskólaráðs vegna fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2026. Fram kom að vegna aukins kostnaðar og aðhaldskröfu stjórnvalda stendur Háskóli Íslands frammi fyrir erfiðum niðurskurði. Málið var rætt og að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð svohljóðandi bókun:
„Fjármögnun háskólastigsins á Íslandi hefur árum saman verið af skornum skammti og ekki staðist samanburð við fjármögnun háskóla á hinum Norðurlöndunum. Fjárhagsáætlanagerð Háskóla Íslands fyrir árið 2026 sýnir þetta svo ekki verður um villst. Þrátt fyrir góðan hug stjórnvalda undanfarin ár hefur lítið miðað að bæta úr þessu.
Við gerð fjárhagsáætlana fyrir árið 2026 hefur þurft að grípa til ýmissa ráðstafana sem koma harkalega niður á kjarnastarfsemi skólans, t.d. verður ekki veitt úr nýliðunarsjóði, þróunarverkefni ekki fjármögnuð, almennt ekki ráðið í störf sem losna og dregið úr stuðningi við rannsóknir og nýsköpun. Allt hefur þetta óhjákvæmilega áhrif á gæði kennslu og rannsókna og dregur úr möguleikum skólans til að vaxa og dafna í þágu nýsköpunar í atvinnulífi og hagsældar þjóðarinnar til framtíðar. Þá er ljóst að mikilvægur og vaxandi stuðningur við nemendur, ekki síst þá sem þurfa stuðning vegna fötlunar eða veikinda, er eftir sem áður ófjármagnaður í reiknilíkani fyrir háskóla og alfarið kostaður af Háskóla Íslands á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar hans. Loks er upphæð skrásetningargjalds fjarri því að nægja fyrir þeim kostnaði sem því er ætlað að standa undir og því þarf að tryggja það fjármagn á annan hátt.
Ljóst er að ef ekki rætist úr fjármögnun Háskóla Íslands þegar í stað þarf að ráðast í enn frekari niðurskurð sem mun óhjákvæmilega draga úr fjölbreytni í námi. Háskóli Íslands er þjóðskóli og kerfislega mikilvægur í íslensku samfélagi, en um 75% námsgreina sem í boði eru við Háskóla Íslands eru ekki kenndar við aðra háskóla hérlendis. Þá er hann rekinn sem staðnámsskóli sem kallar á umtalsverðan kostnað við rekstur húsnæðis.
Í ljósi alls þessa er skorað á stjórnvöld að bæta fjármögnun háskólastigsins áður en grípa þarf til aðgerða sem mun taka langan tíma að vinda ofan af.“
b. Rekstraráætlanir einstakra starfseininga fyrir árið 2026.
Jenný Bára fór yfir stöðu mála varðandi gerð rekstraráætlana einstakra starfseininga fyrir árið 2026. Stefnt er að því að málið verði afgreitt á fundi ráðsins 15. janúar nk. Málið var rætt.
Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.
c. Tillaga að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2026 ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir framlagðri tillögu að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2025, ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár. Málið var rætt og verður lagt fram til afgreiðslu á ráðsfundi í janúar nk.
Kristinn vék af fundi.
d. Stefna HÍ [ríkisaðila] til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015.
Inn á fundinn kom Ástríður Elín Jónsdóttir, verkefnastjóri, og kynnti drög að stefnu Háskóla Íslands sem ríkisaðila til þriggja ára og starfsáætlun, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015. Málið var rætt.
Ástríður vék af fundi.
Samþykkt var að senda skjalið eins og það var lagt fram til menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins í kjölfar fundarins.
e. Frágangur samnings Fasteigna Háskóla Íslands ehf. og Háskóla Íslands vegna Sögu, sbr. síðasta fund.
Katrín Jakobsdóttir, formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., gerði grein fyrir framlagðri tillögu um frágang samnings félagsins og Háskóla Íslands vegna Sögu, sbr. síðasta fund. Málið var rætt.
– Samþykkt.
3. Niðurstöður háskólaþings 19. nóvember 2025.
Rektor reifaði niðurstöðu 35. háskólaþings sem var haldið 19. nóvember 2025.
4. Stefna um notkun og hagnýtingu gervigreindar í starfi Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarrektor menntunar og starfsumhverfis, og Hafsteinn Einarsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Gerðu þau grein fyrir skýrslu starfshóps um notkun gervigreindar innan Háskóla Íslands og tillögu starfshópsins um gervigreindarstefnu Háskóla Íslands og aðgerðartillögur. Málið var rætt og svöruðu Ragna og Hafsteinn og spurningum.
Ragna og Hafsteinn viku af fundi.
– Samþykkt einróma.
Kaffihlé
5. Alþjóðamál, þ. á m. Aurora-samstarfið og alþjóðleg röðun háskóla. Staða mála.
Inn á fundinn komu Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Fanney Karlsdóttir, verkefnisstjóri Aurora-samstarfsins á alþjóðasviði. Fór Halldór yfir stöðu rannsókna- og nýsköpunarstarfs við Háskóla Íslands frá alþjóðlegu sjónarhorni og Fanney greindi frá Aurora-samstarfinu, stöðu þess og verkefnum fram undan. Málið var rætt og svöruðu Halldór og Fanney spurningum fulltrúa í háskólaráði.
Halldór, Fanney og Andri Már viku af fundi.
6. Umsóknir um nám frá löndum utan EES.
Ragna Benedikta Garðarsdóttir, aðstoðarrektor, og Kristinn Andersen, sviðsstjóri kennslusviðs, komu inn á fundinn og gerðu grein fyrir skýrslu starfshóps um umsóknir um nám frá löndum utan EES og tillögum um aðgerðir. Málið var rætt.
Ragna og Kristinn viku af fundi.
– Samþykkt einróma.
7. Málefni byggingarinnar Norðurslóð.
Inn á fundinn kom Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði og stjórnarmaður í Hringborði Norðurslóða og Stofnun Ólafs Ragnars Grímssonar. Gerði Brynhildur grein fyrir stöðu mála og næstu skrefum varðandi fyrirhugaða byggingu hússins Norðurslóðar. Málið var rætt.
Brynhildur vék af fundi.
– Samþykkt að fela Brynhildi Davíðsdóttur að leiða áfram fyrir hönd Háskóla Íslands greiningu á aðild Háskólans að verkefninu Norðurslóð. Áformað er að vinnunni ljúki í febrúar 2026 og verða niðurstöður kynntar fyrir háskólaráði þegar þær liggja fyrir.
8. Tillögur um kjör tveggja heiðursdoktora:
a. Tillaga Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors.
Rektor gerði grein fyrir tillögu Íslensku- og menningardeildar um kjör heiðursdoktors, en tillagan hefur verið samþykkt af heiðurdoktorsnefnd, deildarfundi Íslensku- og menningardeildar og stjórn Hugvísindasviðs. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
b. Tillaga Viðskiptafræðideildar um kjör heiðursdoktors.
Rektor gerði grein fyrir tillögu Viðskiptafræðideildar um kjör heiðursdoktors, en tillagan hefur verið samþykkt af heiðurdoktorsnefnd, deildarfundi Viðskiptafræðideildar og stjórn Félagsvísindasviðs. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.
9. Bókfærð mál.
a. Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
– Samþykkt.
b. Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
– Samþykkt.
c. Frá Félagsvísindasviði: Rekstraráætlun MBA-náms 2026.
– Samþykkt.
d. Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands 2026.
– Samþykkt. Stjórnina skipa Ari Karlsson, lögmaður, formaður, Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs Háskóla Íslands, og Arnaldur Sölvi Kristjánsson, lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands sem kemur nýr inn.
e. Frá kennslusviði og rektorsskrifstofu: Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir 2026-2027 ásamt tillögum að breytingum á reglum nr. 153/2010 um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar og viðeigandi breytingum á öðrum reglum.
Eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2026-2027 samþykktar (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2025-2026. Ef bandstrik er á milli talna táknar fyrri talan hámarksfjölda og sú síðari lágmarksfjölda) sem og viðeigandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010 og á öðrum reglum.
I. Félagsvísindasvið
a. Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild
− Hnattræn fræði, MA, 120e 20 utan EES
− Mannfræði, MA, 120e 10 utan EES
− Aðferðafræði, MA, 120e 5 utan EES
− Afbrotafræði, MA, 120e 20 utan EES
− Félagsfræði, MA, 120e 20 utan EES
− Náms- og starfsráðgjöf, MA, 120e 40 (40)
b. Félagsráðgjafardeild
− Félagsráðgjöf til starfsréttinda, MA, 120e 40 (60)
c. Stjórnmálafræðideild
− Alþjóðasamskipti, MA, 120e 20 utan EES
– Alþjóðasamskipti, viðbótarpróf 30 utan EES
– Blaðamennska, BA, 120e 25 (25)
d. Viðskiptafræðideild
− Alþjóðaviðskipti og verkefnastjórnun, MA, 90e 30 utan EES
II. Heilbrigðisvísindasvið
a. Læknadeild
− Læknisfræði, BS, 180e 75 (75)
− Sjúkraþjálfunarfræði, BS, 180e 40 (40)
− Sjúkraþjálfun, MS, 120e 35 (35)
b. Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild
− Hjúkrunarfræði, BS, 240e 125 (120)
– Hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað
háskólapróf, BS, 240e 25 (20)
− Ljósmóðurfræði til starfsréttinda, MS, 120e 14 (14)
− Geðhjúkrunarfræði, MS, 120e 15 (15)
− Sérsvið hjúkrunar, viðbótarpróf, kjörsvið
skurðhjúkrun (tekið inn annað hvert ár) 10-15 (10-17)
− Sérsvið hjúkrunar, viðbótarpróf, kjörsvið
svæfingarhjúkrun (tekið inn annað hvert ár) 10-15 (10-15)
− Hjúkrunarfræði, MS, 120e, kjörsvið skurðhjúkrun 10-15
− Hjúkrunarfræði, MS, 120e, kjörsvið svæfingahjúkrun 10-15
d. Sálfræðideild
− Hagnýt sálfræði, MS, 120e, kjörsvið klínísk sálfræði 20 (20)
− Hagnýt sálfræði, MS, 120e, kjörsvið megindleg
sálfræði og félagsleg sálfræði (samanlagt) 15 (15)
e. Tannlæknadeild
− Tannlæknisfræði, BS, 180e 40 (40)
− Tannsmíði, BS, 180e 5 (5)
f. Matvæla- og næringarfræðideild
− Næringarfræði, MS, 120e, kjörsvið klínísk
næringarfræði 4 (4)
g. Lyfjafræðideild
− Klínísk lyfjafræði, MS, 90e 4 (4)
III. Hugvísindasvið
a. Íslensku- og menningardeild
− Íslenska sem annað mál – hagnýtt nám, 60e 50 utan EES
– Ritlist, MA, 120e 18 (18)
b. Mála- og menningardeild
− Akademísk enska, grunndiplóma, 60e 50 utan EES
IV. Menntavísindasvið
a. Deild menntunar og margbreytileika
− Alþjóðlegt nám í menntunarfræði, BA, 120/180e 60 (0), þar af 30 á erlenda umsóknartímabilinu
− Alþjóðlegt nám í menntunarfræði, MA, 120e 30 (0), þar af 15 á erlenda umsóknartímabilinu
V. Þverfræðilegt nám
− Talmeinafræði, MS, 120e 16 (18)
− Hagnýt atferlisgreining, MS, 120e 20 (20)
− Iðnaðarlíftækni, MS, 120e 25 (0)
g. Frá kennslumálanefnd og kennslusviði: Tillögur fræðasviða að nýjum námsleiðum á háskólaárinu 2026-2027.
– Samþykkt.
h. Tillaga að breytingu á reglum um gjaldskrá fyrir þjónustu við nemendur í Háskóla Íslands nr. 244/2014 (varðar háskólabrú Keilis).
– Samþykkt.
10. Mál til fróðleiks.
a. Viðurkenningar til starfsfólks Háskóla Íslands fyrir lofsverðan árangur í starfi 2025.
b. Umsögn Háskóla Íslands um háskólasamstæðu.
c. Nýir meðlimir í Kennsluakademíu opinberu háskólanna.
d. Hátíð brautskráðra doktora 1. desember 2025.
e. Úrskurður áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema nr. 2/2024.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.