Fjögur verðlaunuð fyrir framúrskarandi starf í þágu HÍ

Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, og Toby Erik Wikström, verkefnisstjóri hjá Miðstöð framhaldsnáms, hlutu í dag viðurkenningu fyrir lofsvert framlag í starfi við Háskóla Íslands. Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, afhenti viðurkenningarnar á upplýsingafundi fyrir starfsfólk sem fram fór í Hátíðasal skólans.
Það hefur verið fastur liður í starfi Háskóla Íslands í yfir aldarfjórðung að heiðra nokkra starfsmenn á þessum tíma árs, einn fyrir kennslu, annan fyrir rannsóknir og þriðja fyrir önnur störf í þágu skólans. Frá árinu 2019 hefur fjórða viðurkenningin verið veitt fyrir framlag til jafnréttismála og alls hafa rúmlega 80 manns hlotið viðurkenninguna frá upphafi.
Við valið er kallað eftir tilnefningum úr háskólasamfélaginu auk þess sem formenn þriggja starfsnefnda háskólaráðs, kennslumálanefndar, vísindanefndar og jafnréttisnefndar, senda inn tilnefningar. Þriggja manna valnefnd er svo falið að velja úr tilnefningum og ákveða hverjir hljóta hina árlegu viðurkenningu.

Berglind Eva ásamt Silju Báru R. Ómarsdóttur rektor. MYND/Kristinn Ingvarsson
Berglind Eva Benediktsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu.
Berglind lauk MS-prófi í lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og doktorsgráðu í sömu grein árið 2012. Hún var ráðin lektor við Lyfjafræðideild 2015 og hlaut framgang í starf dósents árið 2017.
„Berglind hefur kennt við Lyfjafræðideild í áratug við góðan orðstír og er með umsjón með námskeiðum eins og Nanótækni í lyfjafræði og Gæðakröfur og regluverk í lyfjaframleiðslu, auk þess sem hún kom á fót nýju námskeiði um Líftæknilyf sem hún kennir einnig. Árið 2023 lauk hún viðbótardiplómanámi í kennslufræði fyrir háskólakennara þar sem hún rannsakaði umhverfi náms og kennslu deildarinnar.
Berglind var um árabil formaður kennsluráðs Lyfjafræðideildar og gegndi lykilhlutverki í mótun verklags sem deildin byggir á í dag til að lyfta upp kennslu, m.a. innleiðingu kennslukaffis og deildardags. Kennsluráð Lyfjafræðideildar annast heildstæða rýni miðmisseris- og kennslukannana og síðustu tvær annir hafa tvö af námskeiðum Berglindar verið meðal þriggja efstu í þeim könnunum við deildina að mati nemenda. Hún hefur jafnframt tekið þátt í stefnumótunarvinnu á alþjóðavettvangi sem fulltrúi Íslands í vinnuhópi Evrópuráðsins um kortlagningu lyfjafræðináms í Evrópu vegna uppfærslu á kröfum til lyfjafræðimenntunar. Í framhaldinu hefur hún verið í forystu við heildar endurskipulagningu námsins við Lyfjafræðideild,“ segir í greinargerð valnefndar.
Þar er einnig bent á að Berglind sé leiðandi í nýsköpun kennsluhátta og hafi verið meðal fyrstu kennara deildarinnar til að tileinka sér Team-based learning aðferðarfræði sem hefur gefið góða raun í virkri kennslu. „Henni hlotnaðist einnig sá heiður 2023 að vera tekin inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna. Hún vinnur nú að þróun kennslutengds borðspils í samstarfi við Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur, prófessor við Viðskiptafræðideild, til að styðja fyrsta árs háskólanema við að átta sig á kröfum, áskorunum og bjargráðum í háskólanámi á aðgengilegan hátt í gegnum borðspil.“

Guðfinna ásamt Silju Báru R. Ómarsdóttur rektor. MYND/Kristinn Ingvarsson
Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna.
Guðfinna lauk doktorsprófi í jöklafræði frá Swiss Federal Institute of Technology (ETH) í Zürich árið 2003. Að námi loknu starfaði hún sem nýdoktor við Háskóla Íslands og Háskólann í Swansea í Wales áður en hún tók við starfi sem vísindamaður á Veðurstofu Danmerkur (DMI) á Loftslagssetri. Þar starfaði hún frá 2006 til 2012 þegar hún tók við starfi dósents við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Hún fékk framgang í starf prófessors árið 2017.
„Guðfinna hefur átt framúrskarandi feril sem vísindamaður og háskólakennari og er í fremstu röð við rannsóknir á hegðun og rennsli jökla, jöklabúskap og svörun jökla við loftslagsbreytingum. Hún hefur birt um 30 ritrýndar greinar í alþjóðlegum tímaritum á síðastliðnum sex árum, auk þess að hafa tekið þátt í alþjóðlegum ráðstefnum með fyrirlestrum og veggspjöldum. Hún nýtur viðurkenningar vísindasamfélagsins sem framúrskarandi vísindamaður og verk hennar hafa hlotið umtalsverða athygli. Þá hefur hún gegnt mikilvægum trúnaðarstörfum á alþjóðavettvangi, svo sem að vera fulltrúi Íslands í International Arctic Science Committee (IASC). Guðfinna var einn af aðalhöfundum sjöttu loftslagsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem er skrifuð fyrir stjórnvöld allra landa heimsins og kom út árið 2021. Þá sat Guðfinna, sem fulltrúi háskólasamfélagsins, í Loftslagsráði í fjögur ár frá stofnun þess,“ segir m.a. í umsögn valnefndar.
Guðfinna hefur leiðbeint framhaldsnemum bæði á meistara- og doktorsstigi og hefur einnig átt góðan feril sem stjórnandi og þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og sótt styrki til samkeppnissjóða með góðum árangri. „Meðal annars er hún meðstjórnandi í evrópska verkefninu Icelink í samstarfi við Kaupmannahafnarháskóla, Veðurstofu Íslands og níu aðrar stofnanir og nemur styrkhlutinn sem rennur til Íslands rúmlega einni miljón evra.
Þá má geta þess að Guðfinna er sennilega eini íslenski vísindamaðurinn sem hefur fengið tind á Suðurskautslandinu nefndan eftir sér, en Tolly Nunatak var formlega skráð 2019.

Guðbjörg Linda ásamt Silju Báru R. Ómarsdóttur rektor. MYND/Kristinn Ingvarsson
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála við Háskóla Íslands.
Guðbjörg Linda lauk doktorsprófi frá Lundarháskóla í Svíþjóð árið 1995. Hún var ráðin lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands árið 2002 og hefur gegnt starfi prófessors frá árinu 2008. Þá var hún aðstoðarrektor vísindavið HÍ á árunum 2016-2023. Áður en Guðbjörg Linda kom til Háskóla Íslands starfaði hún við rannsóknir á sviði vinnutengdrar heilsu og jöfnuðar í atvinnulífinu hjá Vinnueftirliti ríkisins.
„Guðbjörg Linda er einn áhrifamesti fræðimaður á sviði jafnréttismála hér á landi og jafnframt meðal frumkvöðla í kennslu og rannsóknum á því sviði. Framlag hennar til rannsókna, kennslu, stefnumótunar og framþróunar á sviði jafnréttismála er umfangsmikið og snýr að fjölmörgum hliðum málaflokksins.
Guðbjörg Linda hefur leitt og tekið þátt í fjölda íslenskra og alþjóðlegra rannsóknarverkefna og verið tengd fræðafólki og rannsóknarstofnunum á sviði jafnréttismála víða um heim. Nýjasta alþjóðlega rannsóknaverkefni hennar lýtur að mögulegum ójöfnuði sem getur skapast af völdum notkunar gervigreindar við stjórnun á vinnustöðum og hvernig hægt sé að auka jafnrétti og inngildingu ólíkra hópa með aðkomu gervigreindar.
Ein megináhersla Guðbjargar Lindu í rannsóknum hefur í gegnum tíðina tengst ójöfnuði í atvinnulífinu, og þá einkum ólíkum hliðum kynjakerfisins og birtingarmyndum þess, orsökum og afleiðingum. Það hefur beint sjónum hennar að mjög ólíkum viðfangsefnum svo sem gallhörðum stjórnunarkerfum og ástinni,“ segir valnefnd m.a í umsögn sinni.
Rannsóknir Guðbjargar Lindu á sviði jafnréttismála hafa birst í á annað hundrað rannsóknargreinum, bókum og bókarköflum bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi og hún hefur hlotið fjölda erlendra og innlendra styrkja. „Guðbjörg Linda hefur leiðbeint doktorsnemum á ýmsum sviðum jafnréttismála. Hún hefur gegnt fjölmörgum stjórnunar- og trúnaðarstörfum innan og utan Háskólans, oft vegna sérfræðiþekkingar hennar á sviði jafnréttismála.“

Stella Samúelsdóttir tók við viðurkenningunni fyrir hönd mannsins síns, Tobys Eriks Wikström, úr hendi Silju Báru R. Ómarsdóttur rektors. MYND/Kristinn Ingvarsson
Toby Erik Wikström, verkefnisstjóri hjá Miðstöð framhaldsnáms, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu við Háskóla Íslands.
Toby lauk BA-prófi í frönsku frá Carleton College árið 1996, meistaragráðu í frönsku frá University of Wisconsin-Madison árið 2002 og doktorsprófi í sömu grein frá Columbia University árið 2010. Hann var gestalektor og síðan lektor í frönsku við Tulane University í New Orleans frá 2010 til 2018. Toby var ráðinn verkefnastjóri við Miðstöð framhaldsnáms 2018 og hefur frá fyrstu tíð sýnt mikið frumkvæði og nýsköpun í þjónustu bæði við nemendur og kennara framhaldsnáms við Háskóla Íslands.
„Toby hefur á vettvangi Miðstöðvar framhaldsnáms staðið að þróun og skipulagningu fjölda vinnustofa og námskeiða sem styðja við nám og velferð framhaldsnema. Námskeiðin eru í sífelldri endurskoðun, fengnir eru fjölbreyttir fyrirlesarar og allt gert til að aðstoða nemendur við að skipuleggja nám sitt.
Auk námskeiðahaldsins hefur Toby beitt sér fyrir því að akademískir starfsmenn fái þjálfun í handleiðslu doktorsnema, bæði með styttri og lengri námskeiðum. Þau eru iðulega í samstarfi við erlenda sérfræðinga í handleiðslu og akademíska starfsmenn Háskóla Íslands sem hafa skarað fram úr við handleiðslu doktorsnema. Þessi námskeið hafa reynst afar vel, enda er handleiðsla doktorsnema sjaldnast hluti af hefðbundinni akademískri þjálfun. Toby minnir svo bæði nemendur og kennara á námskeiðin með reglulegum tölvupóstum svo þau fari ekki fram hjá neinum,“ segir valnefnd í umsögn sinni.
Þá er bent á að Toby búi yfir yfirgripsmikilli þekkingu á öllu sem viðkemur doktorsnámi og sé óþreytandi við að svara spurningum jafnt leiðbeinenda sem doktorsnema. Hafi hann ekki svör á reiðum höndum sé hann einkar úrræðagóður við að benda á aðra sem geta hjálpað áfram. „Toby hefur því með störfum sínum leitt til gríðarlega bættrar stöðu framhaldsnáms í Háskóla Íslands, skólanum til heilla.“
Háskóli Íslands óskar þessu framúrskarandi starfsfólki innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.
