Skip to main content
25. nóvember 2025

Fjórtán tekin inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna

Fjórtán tekin inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gervigreind var í brennidepli á glæsilegri ráðstefnu Kennsluakademíu opinberu háskólanna sem fram fór föstudaginn 22. nóvember í Veröld - húsi Vigdísar en við þetta tilefni voru 14 kennarar úr opinberu háskólunum jafnframt teknir inn í akademíuna. Dagskráin var þéttskipuð fróðlegum erindum í sex málstofum ásamt aðalfyrirlestrum og pallborði. Um 100 manns sóttu ráðstefnuna. 

Ráðstefnan er hluti af árlegri „ferðaráðstefnu“ Kennsluakademíunnar sem fer milli sviða opinberu háskólanna og hefur það markmið að halda kennslu á lofti og skapa rými fyrir fólk til að deila reynslu og hugmyndum um háskólakennslu. 

Í ár var hún skipulögð af meðlimum Kennsluakademíunnar á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Stýrihópinn skipuðu Berglind Eva Benediktsdóttir, Lyfjafræðideild, Heiða María Sigurðardóttir, Sálfræðideild, Helga Helgadóttir, Lyfjafræðideild, Pétur Henry Petersen, Læknadeild og Steinunn Arnars Ólafsdóttir, Læknadeild. 

fulltruar heilbrigdisvisinda

Fulltrúar Heilbrigðisvísindasviðs skipulögðu ráðstefnuna að þessu sinni. MYND/Kristinn Ingvarsson

Helga Helgadóttir, varaformaður Kennsluakademíunnar og lektor við Lyfjafræðideild, opnaði ráðstefnuna og Unnur Anna Valdimarsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, bauð svo gesti velkomna. Í opnunarávarpi sínu kynnti Unnur meðal annars glæsilega aðstöðu í færni- og hermisetrinu HermÍs þar sem nemendur æfa klínísk vinnubrögð við aðstæður sem líkja eftir raunverulegum aðstæðum á vettvangi. 

Hvernig breytir gervigreind háskólasamfélaginu?

Aðalfyrirlesarar voru þrír. Hafsteinn Einarsson, dósent við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ, fjallaði um fjöldaframleiðslu prófdæma og persónusniðnar nálganir með gervigreind og hvernig nýta má tæknina til að gera námsmat markvissara. Ragna Kemp Haraldsdóttir, dósent við Félagsvísindasvið HÍ, var með erindi um áhrif gervigreindar á gagnaúrvinnslu í háskólastarfi með áherslu á innbyggðar skekkjur í gervigreindarlíkönum og möguleg áhrif hennar á ákvarðanatöku. Sigurður Fjalar Jónsson og Hjörvar Ingi Haraldsson, framhaldsskólakennarar við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, voru með erindið „Að móta morgundaginn, gervigreind, nemendur og háskólinn“ og tengdu þannig saman reynslu úr framhaldsskólum og áskoranir háskóla. 

adalfyrirlesarar

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni: Hjörvar Ingi Haraldsson, Sigurður Fjalar Jónsson, Ragna Kemp Haraldsdóttir og Hafsteinn Einarsson. MYND/Kristinn Ingvarsson

Í kjölfarið tóku aðalfyrirlesarar sæti í pallborði ásamt Hróbjarti Árnasyni, dósent og formanni Kennsluakademíunnar, Arent Orra Claessen, forseta Stúdentaráðs, og Sigríði Þorgeirsdóttur, prófessor við Hugvísindasvið HÍ. Þar gafst tækifæri til að ræða hvernig gervigreind breytir háskólasamfélaginu – ekki aðeins fyrir kennara heldur líka fyrir nemendur og stjórnendur. Heiða María Sigurðardóttir stjórnaði pallborði. Rætt var um áskoranir og tækifæri við notkun gervigreindar í kennslu og við nám nemenda. 

Fjölbreyttar málstofur voru á dagskrá og bárust yfir 40 erindi á málstofuna þar sem gervigreind og kennsla á háskólastigi var í forgrunni. Málstofurnar endurspegluðu fjölbreytileika innan opinberu háskólanna þar sem áhersla var á gervigreind og fjölbreytta kennsluhætti. 

malstofur

Frá einni af málstofum ráðstefnunnar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Í ár var boðið upp á þrjár vinnustofur sem voru afar fjölbreyttar og áhugaverðar. Bethany Louise Rogers, verkefnisstjóri frá Kennslumiðstöð Háskóla Íslands, fjallaði um hvernig viðhorf nemenda til gervigreindar hefði breyst frá forvitni yfir í meiri varfærni og hvað sú þróun þýddi fyrir kennara. Jette Jörgensen Mebrouk, Hafdís Skúladóttir og Sean Michael Scully frá Háskólanum á Akureyri fjölluðu um nemendamiðaða nálgun þar sem vinnustofan endaði á gagnvirku „Fiskiskálar“-pallborði þar sem áhorfendur deildu sjónarmiðum og starfsháttum til að stuðla að tækifærum til tengslamyndunar. Þriðja vinnustofan snerist um hvernig nýta má gervigreind í endurskoðun námskeiða með ABC-námshönnun, en umsjón með henni var í höndum verkefnisstjóra á Kennslumiðstöð HÍ, Hörpu Daggar Fríðudóttur og Aleksöndru Kojic. 

Stýrihópur, sem skipulagði ráðstefnuna, var sammála um að hún væri mikilvægt innlegg í umræðu um háskólanám og -kennslu. Heiða María nefndi þar sérstaklega að gervigreindartækni væri í svo örri þróun að bæði nemendur og kennarar þyrftu að hafa sig alla við til að fylgja tækninni eftir og þau vinnubrögð og viðmið sem giltu fyrir ári væru ef til vill úrelt í dag. Því væri  mikilvægt að gefa fólki tækifæri til símenntunar til að geta aðlagað háskólann að nýjum tímum. 
Inntaka nýrra meðlima – formleg lok ráðstefnunnar 

Um 100 manns sóttu ráðstefnu Kennsluakademíu opinberu háskólanna sem fram fór föstudaginn 22. nóvember í Veröld - húsi Vigdísar. MYND/Kristinn Ingvarsson

Framúrskarandi kennarar teknir inn í Kennsluakademíuna

Frá því að Kennsluakademía opinberu háskólanna var stofnuð árið 2021 hafa ár hvert einstaklingar, sem skarað hafa fram úr í kennslu og kennsluþróun, verið teknir inn í akademíuna. Sótt er um inngöngu og alþjóðleg nefnd sérfræðinga í háskólakennslu metur umsækjendur á grundvelli umsóknar og viðtals. Að lokinni ráðstefnunni var sérstakur inntökuviðburður Kennsluakademíunnar þar sem fjórtán framúrskarandi háskólakennarar voru teknir inn í Kennsluakademíuna. 

Við inngöngu í Kennsluakademíuna fá háskólakennarar viðurkenningu á framlagi sínu til kennsluþróunar og afburðakennslu. Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður samráðsvettvangs opinberu háskólanna og rektor Háskóla Íslands, afhenti meðlimum viðurkenningarskjal sem staðfestir aðild. 

Nýir meðlimir í Kennsluakademíunni eru:

  • Ásta Kristín Benediktsdóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 
  • Berglind Gísladóttir, dósent við Deild faggreinakennslu við Háskóla Íslands. 
  • Emmanuel Pierre Pagneux, dósent við Deild Lífs og Lands við Landbúnaðarháskóla Íslands. 
  • Freyja Hreinsdóttir, prófessor við Deild faggreinakennslu við Háskóla Íslands. 
  • Hafdís Skúladóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri. 
  • Haukur Freyr Gylfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. 
  • Inga Minelgaité, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. 
  • Jón Gunnar Bernburg, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. 
  • Jón Gunnar Ólafsson, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. 
  • Matthias Book, prófessor við Iðnaðar-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. 
  • Rósa Magnúsdóttir, prófessor við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. 
  • Súsanna Margrét Gestsdóttir, lektor við Deild faggreinakennslu Háskóla Íslands. 
  • Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands. 
  • Védís Ragnheiðardóttir, aðjúnkt við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 

Það var mál manna að ráðstefnan hefði verið afar vel heppnuð og sýndi glöggt að fram undan eru fjölbreytt tækifæri í þróun kennslu á háskólastigi, ekki síst með markvissri nýtingu gervigreindar. Ráðstefnan var áminning um að með framsækna hugsun og nemandann í fyrirrúmi er hægt að nýta tækni og gervigreind til að efla nám og kennslu á sjálfbæran og áhrifaríkan hátt.