Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. nóvember 2023

9/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, fimmtudaginn 2. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Vilborgu Einarsdóttur), Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Atladóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir, og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi).

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt og hún birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Guðvarður Már frá því að hann tæki ekki þátt í afgreiðslu liðar 7b.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands fyrstu níu mánuði ársins.
Jenný Bára fór yfir yfirlit um rekstur Háskóla Íslands á tímabilinu janúar-september 2023. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum.

b.    Árangurstengd fjármögnun háskóla, sbr. síðasta fund. Umsögn Háskóla Íslands.
Rektor fór yfir drög umsagnar Háskóla Íslands um drög að nýjum reglum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um fjárframlög til háskóla sem lýsa forsendum og samsetningu fjárframlaga úr ríkissjóði til háskóla á Íslandi („reiknilíkan“). Málið var rætt og svaraði rektor spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Rektor falið að ganga frá umsögn Háskóla Íslands með hliðsjón af þeim ábendingum er fram komu.

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Áætlun um bílastæðamál, sbr. fund ráðsins 7. september sl.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu, og Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Kristinn fór yfir stöðu mála varðandi fyrirhugaða innleiðingu bílastæðagjalda á lóð Háskóla Íslands um mitt ár 2024, viðræður við Strætó um svokallaðan U-passa og eflingu vistvænna samgangna á háskólasvæðinu. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum. Áfram verður unnið í málinu í samræmi við þær línur sem háskólaráð hefur lagt.

Kristinn vék af fundi.

d.    Skrásetningargjald fyrir nám við Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur rektorsskrifstofu. Fyrir fundinum lá úrskurður áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema varðandi útreikning þeirra kostnaðarliða sem liggja að baki skrásetningargjaldinu og ósk Jessýjar Rúnar Jónsdóttur um að háskólaráð tæki aftur fyrir kröfu hennar um endurgreiðslu skrásetningargjalds þess sem hún hefur greitt til Háskóla Íslands að því marki sem talið verður að gjaldið hafi verið ólögmætt og ekki í samræmi við lagaáskilnaðarreglu um þjónustugjöld. Magnús Jökull gerði grein fyrir málinu og svaraði spurningum.

Guðmundur R. og Magnús Jökull viku af fundi.

Rektor bar upp tillögu að svohljóðandi bókun:

„Háskóli Íslands þarf að bregðast við úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í máli nr. 4/2022. Hafin er vinna innan skólans við að afla útreikninga þeirra kostnaðarliða sem felldir hafa verið undir skrásetningargjald það sem nemendur greiða árlega. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu eins fljótt og hægt er.“

– Samþykkt samhljóða, en Brynhildur og Katrín Björk sátu hjá.

Brynhildur og Katrín Björk lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta ítreka mikilvægi og umfang þessa máls. Skrásetningargjaldið er gífurlegt hagsmunamál og mikilvægt að faglega sé farið að umræðu um það. Það er ekki hagur Háskólans að innheimta skrásetningargjöld sem eru að einhverju leyti ólögmæt, um það er ekki hægt að deila. Það er hlutverk stjórnvalda að fjármagna Háskólann og svara fyrir það áralanga fjársvelti sem Háskóli Íslands hefur búið við. Hér er um grafalvarlega stöðu fjármögnunar opinberrar háskólamenntunar að ræða.

Fulltrúar stúdenta leggja áherslu á að í úrskurðinum er skýrt að „þeir liðir“ sem nefndin geri athugasemdir við „eigi ekki fullnægjandi lagastoð og uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til álagningar þjónustugjalda“. Úrskurðurinn sé fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi og við hann þarf Háskólinn að fella sig, nema hann vilji hnekkja þeirri niðurstöðu fyrir dómstólum.

Skortur á fullnægjandi forsendum að baki þeim kostnaðarliðum skrásetningargjaldsins sem úrskurðaðir voru ólögmætir með úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema vekur áleitnar spurningar um grundvöll annarra kostnaðarliða. Þannig liggur fyrir að Háskólinn gat ekki veitt upplýsingar um sundurliðun og forsendur neinna gjaldliða. Það er alvarlegt. Í því skyni að háskólaráð geti sinnt eftirlitshlutverki sínu með tilhlýðilegum hætti teljum við nauðsynlegt að fyrir ráðið verði lögð þau gögn og forsendur sem að baki skrásetningargjaldinu hafa legið undanfarin 10 ár.

Háskólaráð, sem æðsta ákvörðunarvald Háskóla Íslands, þarf að taka hlutverki sínu alvarlega. Ákvörðun háskólaráðs um að hafna endurgreiðslu hefur nú verið felld úr gildi í annað sinn og hefur Háskólinn verið meðvitaður um það frá 5. október sl. Fulltrúum stúdenta þykir miður að ákvörðun háskólaráðs sé ítrekað á skjön við niðurstöðu áfrýjunarnefndar kærumála háskólanema. Þetta grefur undan trúverðugleika skólans og háskólaráðs sem er grafalvarlegt. Samkvæmt lögum ber háskólaráð ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Er háskólaráð að gera það?
Brynhildur K. Ásgeirsdóttir
Katrín Björk Kristjánsdóttir“

3.    Heildarskipulag og uppbygging háskólasvæðisins. Staða mála.
Inn á fundinn komu Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólasvæðisins, og Kristinn Jóhannesson. Gerði Hrund grein fyrir vinnu við mótun framtíðarsýnar fyrir háskólasvæðið, sem skipulagsnefnd og samstarfshópur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar hefur falið hollenskum arkitektum og skipulagsfræðingum að leggja drög að. Málið hefur verið rætt og kynnt á fyrri stigum í háskólaráði og á háskólaþingi. Áformað er að ljúka þessari vinnu með kynningu og umræðu á háskólaþingi í janúar nk. og afgreiðslu í háskólaráði í kjölfarið. Málið var rætt ítarlega og svaraði Hrund spurningum.

Hrund og Kristinn viku af fundi.

Kaffihlé.

4.    Stefna HÍ 2021-2026, HÍ 26. Miðbiksmat.
Inn á fundinn kom Bjarni Snæbjörn Jónsson, ráðgjafi, og gerði grein fyrir tillögum um breytingar á skipulagi sameiginlegrar stjórnsýslu og stoðþjónustu Háskóla Íslands. Málið var rætt og svöruðu rektor og Bjarni spurningum. Rektor mun vinna úr tillögunum, m.a. í ljósi settra markmiða um notendamiðaða þjónustu.

Bjarni vék af fundi.

5.    Alþjóðleg röðun háskóla.
Inn á fundinn komu Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og Baldvin Zarioh, deildarstjóri, og fóru yfir niðurstöður alþjóðlegra matslista um röðun háskóla og einstakra fagsviða. Málið var rætt.

Halldór og Baldvin viku af fundi.

6.    Frá innri endurskoðanda: Starfsemisskýrsla innri endurskoðanda til háskólaráðs fyrir tímabilið janúar til september 2023.
Inn á fundinn kom Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi Háskóla Íslands. Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar háskólaráðs, gerði grein fyrir starfi nefndarinnar og Sigurjón fór yfir framlagða starfssemisskýrslu innri endurskoðanda fyrir tímabilið janúar til september 2023. Málið var rætt og svöruðu Sigurjón og Ólafur Pétur spurningum.

7.    Bókfærð mál.
a.    Endurskoðuð málstefna Háskóla Íslands, sbr. háskólaþing 26. apríl 2023.

– Samþykkt.

b.    Stjórn sjóðs um árangurstengda tilfærslu starfsþátta.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Guðvarði Má Gunnlaugssyni, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og varafulltrúa í háskólaráði, Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs HÍ, og Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs HÍ. Skipunartími þeirra er til 30. júní 2026.

c.    Tillaga að breytingu á reglum nr. 569/2009, varðar samræmingu kennslualmanaks.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytis vegna Skólabæjar, sbr. síðasta fund.
b.    Ársreikningur Fasteigna Háskóla Íslands ehf. 2022.
c.    Umsóknir Háskóla Íslands í sjóðinn Samstarf háskóla, sbr. síðasta fund.
d.    Skýrsla EUA (Samtaka evrópskra háskóla): University Autonomy in Europe IV.
e.    Háskóli Íslands hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar.
f.    Samningar Háskóla Íslands og Stúdentaráðs, dags. 23. október 2023.
g.    Fréttabréf Háskólavina 2. nóvember 2023.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.