Textílsýning nemenda á Menntavísindasviði
Óhætt er að segja að fjölbreytt nám fari fram á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Nemendur í Textíl og hönnun í Deild faggreinakennslu héldu sýningu á dögunum með yfirskriftinni Textíllist, endurnýting og nýsköpun í húsnæði Menntavísindasviðs í Skipholti.
Verkin voru bæði eftir nemendur í grunn- og framhaldsnámi auk þess sem finna má einnig nema sem taka námskeiðin í vali og kennara af vettvangi sem eru í meistaranámi og í endurmenntun. Nemahópurinn er því fjölbreyttur.
Sköpunargleði og hugmyndaauðgi einkenndi lokaverkefni nemenda líkt og myndir sýna. „Í kennaranáminu í Textíl og hönnun er áhersla lögð á nýsköpun, sjálfbærni og sköpun og spila Heimsmarkið Sameinuðuþjóðanna um sjálfbæra þróun þar lykilhlutverk. Einnig er boðið upp á fjölbreytt námsefni í bæði verk- og bóklegum þáttum námsins og skrifaðar áhugaverðar ritgerðir. Sýningarformið er mikilvægt þegar kemur að lokaskilum og kynningum. Margir mikilvægir þættir verða til þegar nemar setja saman upp sýningu og kynningu; samstaða og virðing fyrir vel unnu verki, að læra hver af öðrum og miðla reynslu og þekkingu og síðast en ekki síst er það félagslegi þátturinn, nemar (fjar- og staðnemar) koma saman og spjalla um verkin sín og í lokin er veglegt kaffi með góðum veitingum sem nemar koma með sjálfir,“ segir Ásdís Jóelsdóttir lektor í textíl og hönnun við Menntavísindasvið.
Þess ber að geta að Ásdís Jóelsdóttir gaf út bókina Sjálfbærni í textíl: Neysla, nýting og nýsköpun á síðasta ári. Bókin var m.a. styrkt af auðlinda- og umhverfisráðuneytinu, Hagþenki og Miðstöð íslenskra bókmennta. Einnig kom út í haust Handbók í textíl fyrir grunnskólann sem Ásdís þýddi og staðfærði, en Menntamálastofnun gaf hana út. Auk þess vinnur Ásdís um þessar mundir að orðskýringarsafni í fatagerð og fékk hún m.a. styrk frá Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur og Hagþenki til að vinna verkið.