Skip to main content

Alþjóðlegt nám í menntunarfræði

Alþjóðlegt nám í menntunarfræði

Menntavísindasvið

Alþjóðlegt nám í menntunarfræði

MA – 120 einingar

Námið opnar nýjar leiðir fyrir nemendur sem hafa áhuga á alþjóðlegri sýn á viðfangsefni uppeldis- og menntunarfræði eða hafa áhuga á að vinna með vaxandi hópi innflytjendabarna og tvítyngdra barna á Íslandi.

Námið fer fram á ensku og hafa nemendur komið víða að úr heiminum. Með alþjóðlegu námi í menntunarfræði er brugðist við þróun fjölmenningarsamfélags og hnattvæðingu.

Skipulag náms

X

Mannréttindi: Efling félags- og vistfræðilegrar velferðar (UME011M)

Þverfaglegt mannréttindanámskeið þar sem áhersla er lögð á að beita mannréttindasjónarhorni sem tæki til að knýja fram umbætur í félags- og velferðarmálum. Með því að rýna á heildstæðan og gagnrýninn hátt ríkjandi kerfi og ferla sem skapa og viðhalda ójöfnuði, mismunun og útilokun, er ætlunin að styðja við og auka þekkingu og leikni í að stuðla að uppbyggingu friðsamlegra samfélaga, án aðgreiningar.  

 

Í námskeiðinu er lögð áhersla á að nota gagnrýna mannréttindanálgun til að virkja nemendur í umræðum um félags- og velferðarmálefni í nútímasamfélagi. Nemendur greina viðfangsefni í nærsamfélagi sínu og alþjóðasamfélaginu með aðferðum tilviksrannsókna. Viðfangsefnin geta til að mynda tengst hælisleitendum og flóttafólki, fötlun, kynferði, fátækt, kynhneigð eða samþættingu framangreindra þátta.  

 

Nemendur fá æfingu í að rýna viðfangsefni á gagnrýninn hátt og tækifæri til að staðsetja sig og skoðanir sínar með tilliti til áskoranna samtímans. Áhersla verður lögð á samskipti og umræður, sjálfsígrundun, mikilvægi inngildingar og gagnrýna kennslufræði til að tryggja umbreytandi og þvermenningarlega námsaðferð.   

 

Námskeiðið er kennt bæði á íslensku og ensku og áhersla lögð á hugmyndafræði algildrar hönnunar þannig að tekið sé tillit til ólíkra þarfa nemenda hvað varðar tungumál, menningarlegan bakgrunn, fötlun og nauðsynlega aðlögun námsefnis. Námsefni sem byggt verður á í námskeiðinu (ritað efni, mælt mál og sjónrænt efni) verður aðgengilegt bæði á íslensku og ensku, með texta og í auðlesnu formi. Námsefnið mun endurspegla alþjóðlega nálgun á mannréttindum og byggja á hugmyndum fræðimanna, fólks af vettvangi og aðgerðasinna.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá
X

Austur-asísk heimspeki menntunar A: konfúsíanismi og daoismi (INT007M)

Inntak námskeiðsins er kínversk menntaheimspeki fyrri tíma með áherslu á konfúsíanisma og viðbrögð við henni úr röðum daoisma. Gerð verður grein fyrir konfúsíanískum hugmyndum um menntun og sjálfsrækt sem fram koma í Speki Konfúsíusar (Lunyu 论语, Analects). Síðan verður vikið að völdum köflum í öðrum mikilvægum konfúsíanískum ritum á borð við Zhongyong (e. Doctrine of the Mean), Daxue (e. The Great Learning), Xueji (e. Records of Learning), Mengzi, Xunzi, ritum Zhu Xi og kennslurit sem ætluð voru konum. Grundvallarhugtök konfúsíanískrar menntaheimspeki verða kynnt til sögunnar og þau útskýrð, þ.á.m. jiao 教 (kennsla), xue 学 (að læra, að líkja eftir, að taka sér til fyrirmyndar), xiuji 修己 og xiushen 修身 (að rækta sjálfan sig), li 礼 (helgiathafnir, siðir), xing 性 (náttúrulegar tilhneigingar, mannlegt eðli) og junzi 君子 (fyrirmyndarpersóna), auk annarra. Í því samhengi verður hugað vel að vægi fyrirmynda í konfúsíanískri menntun. Hugsuðir sem kenndir eru við daoisma, einkum höfundar Bókarinnar um veginn/Ferlisins og dygðarinnar (Daodejing 道德经) og Zhuangzi 庄子, brugðust með gagnrýnum hætti við ákveðnum þáttum í menntaheimspeki konfúsíanisma og héldu því m.a. fram að hún leiddi til kredduhyggju og hræsni. Þess í stað lögðu þeir til annars konar lærdóm eða sjálfsrækt sem væri sjálfstæðari undan samfélagsleg gildum og byggði fremur á „heimsrásinni“ eða „vegi veraldarinnar“, þ.e. heimsfræðilegum tilhneigingum náttúrunnar, og leituðu leiða til að tileinka sér lífsmáta sem væri í samræmi við þær tilhneigingar. Í því samhengi nefna þeir til sögunnar hugmyndir á borð við það að „aflæra“ og „draga úr sjálfinu“. Í stað þess að læra af fornritum siðmenningarinnar leggja þeir áherslu á að aðlaga sig náttúrunni og athafna sig með háttum sem þeir kenna við ziran 自然 (sjálfkrafa) og wuwei 无为 (ógjörð).

Markmið
Meðal þeirra spurninga sem varpað verður fram (og reynt að svara) í námskeiðinu eru: Hvernig er menntun skilin í kínverskri menningu fyrri tíma? Hver eru helstu markmið hennar? Hvað á sér stað þegar menntun nær ekki markmiðum sínum? Getur menntun verið óæskileg eða hættuleg? Hvaða félagslegu og einstaklingsbundu þættir felast í menntun og sjálfsrækt? Að hvaða leyti getur menntun eins haft áhrif á aðra? Hvaða hlutverki gegnir annað fólk í menntun manns? Eru fyrirmyndir nauðsynlegar? Hvaða hlutverki gegna hefðir og fyrirmyndir sem aðferðir í menntun? Er hægt að gera of mikið úr þeim? Hvaða almenna vægi hefur menntun í heimspeki konfúsíanismans? Getur daoismi verið þarfur gagnrýnandi konfúsíanisma? Leitast verður við að setja efnið í samhengi við samtímahugmyndir um menntun.

Nálgun og námsefni
Við lesum bókina Confucian Philosophy for Contemporary Education eftir Charlene Tan (Routledge 2020). Að öðru leyti er stuðst við heimspekilega frumtexta, þ.e. Speki Konfúsíusar (e.Analects), Zhongyong (e. Doctrine of the Mean), Daxue (e. The Great Learning), Xueji (e. Records of Learning), Mengzi, Xunzi, Daodejing og Zhuangzi. Stúdentar geta nýtt sér hvaða þýðingu á þessum grundvallarritum sem er (á ensku eða öðrum málum). Á vefnum ctext.org má finna alla þessa texta í enskri þýðingu en kennari mun láta stúdentum aðrar útgáfur í té. Engar forkröfur eru gerðar til þekkingar á kínverskri heimspeki.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Karolina Kunceviciute
Karolina Kunceviciute
Alþjóðlegt nám í menntunarfræðum

The International Studies in Education program is a great choice for those who are interested in the field of education and diversity. The teaching community is highly professional, friendly, supportive and gives attention to every student. There are interesting courses, innovative teaching methods and peers from all over the world. Being part of this very diverse student body is a good opportunity to learn about different educational systems, to meet interesting people and to gain an enriching academic experience.  

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs

1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is

Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga

Fylgstu með Menntavísindasviði

 Instagram   Youtube 
 Facebook

Stakkahlíð

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.