Skip to main content
11. nóvember 2021

Nýjar rannsóknir í Rauðahafinu grundvöllur frekari auðlindakönnunar þar

Nýjar rannsóknir í Rauðahafinu grundvöllur frekari auðlindakönnunar þar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í vísindum er ekki alltaf horft fram á við í tíma í leitinni að nýrri þekkingu. Jarðeðlisfræðingurinn Bryndís Brandsdóttir við Raunvísindastofnun Háskólans er í hópi þeirra jarðvísindamanna sem fletta jarðsögunni milljónir ára aftur í tímann. 

Sumarið 2016 vann Bryndís með Nico Augustin að fjölgeislamælingum á norðanverðum Kolbeinseyjarhrygg um borð í þýska rannsóknarskipinu Poseidon. Nico, sem starfar við GEOMAR-jarðvísindastofnunina í Kíl í Þýskalandi, hefur um árabil stundað rannsóknir á botni Rauðahafsins með vísindamönnum við Geomar og King Abullah háskólann í Sádí Arabíu.  

Nico var að þróa nýtt tektónískt líkan af Rauðahafinu en hafði ekki skoðað jarðskjálftagögn þaðan. Bryndís fékk áhuga á verkefninu og tók að skoða jarðskjálftavirkni í Rauðahafinu með samanburði við virkni á Kolbeinseyjarhrygg og aðlægum þverbrotabeltum. 

„Jarðvísindamenn hefur lengi greint á um þróun Rauðahafsins, þ.e. hversu langt til norðurs sé samfelldur rekhryggur á milli Afríku og Arabíuskaga,“ segir Bryndís Brandsdóttir, sem er einn höfunda greinar sem birtist í vísindatímaritinu Nature Communications og hefur að geyma nýtt líkan af Rauðahafinu, sem skilur að norðausturhluta Afríku og Arabíuskaga.

„Rauðahafið er um 2.250 kílómetrar að lengd en aðeins 355 kílómetrar þar sem það er breiðast og yngist og mjókkar til norðurs. Rekhryggurinn í norðurhluta Rauðahafsins er hulin þykkum salt- og setlögum sem villt hafa vísindamönnum sýn og skapað ágreining um jarðfræði svæðisins.“ 

Bryndís segir að lesa megi úr jarðmyndunum á botni Rauðahafsins merkilega þróunarsögu gliðnunar, sambærilega þeirri sem átti sér stað við opnun Norður-Atlantshafsins fyrir rúmlega  55 milljónum ára þegar svokallaður Ægishryggur varð til en hann myndaðist þegar Grænland og Noregur fóru að reka hvort  frá  öðru.
 
„Líkan okkar af botni Rauðahafsins er byggt á nýjum jarðefnafræðilegum greiningum, nákvæmara jarðfræðikorti af hafsbotninum út frá fjölgeislamælingum, sem og ítarlegri jarðeðlisfræðilegum gögnum, en áður hafa verið til staðar, þ.á m. þyngdarmælingum og jarðskjálftamælingum,“ segir Bryndís. Hún segir að þyngdargögnin hafi einnig verið borin saman við aðra rekhryggi, m.a. Reykjaneshrygg sunnan Íslands og Ægishrygg á milli Íslands og Noregs.Greiningar á bergsýnum staðfesta að hennar sögn tilvist úthafskorpu, eins og á Mið-Atlantshafshryggnum. „Samtúlkun þyngdar- og jarðskjálftagagna endurspeglar landrek í norðanverðu Rauðahafi síðustu 13 milljónir árin.“

Samanburður á landslagi á norðanverðu landgrunni Íslands og í norðanverður Rauðahafi. Bryndís segir að lesa megi úr jarðmyndunum á botni Rauðahafsins merkilega þróunarsögu gliðnunar, sambærilega þeirri sem átti sér stað við opnun Norður-Atlantshafsins fyrir rúmlega  55 milljónum ára þegar svokallaður Ægishryggur varð til en hann myndaðist þegar Grænland og Noregur fóru að reka hvort  frá  öðru.

Rauðahafið áhugavert fyrir kolvetnisleit

„Tilvist úthafshryggjar í norðanverðu Rauðahafinu, varpar nýju ljósi á reksögu svæðisins og eykur þekkingu okkar á framsæknum gosbeltum, þ.e. hvernig eldvirkni étur sig í gegnum þykka meginlandsskorpu og myndar úthafsjarðskorpu. Aukinn skilningur á myndun jarðskorpunnar í Rauðahafinu er þannig grundvöllur frekari auðlindakönnunar svæðisins.“ 

Bryndís segir að Rauðahafið hafi lengi verið talið eitt af áhugaverðustu svæðum heims fyrir kolvetnisleit. Dýpt Rauðahafsins, þykk saltlög, flókin jarðfræði ásamt viðkvæmu vistkerfi hafi hins vegar haldið aftur af frekari nýtingaráformum. 

Þessa dagana vinnur Bryndís ásamt Anett Bliscke, sérfræðingi hjá Íslenskum orkurannsóknum, við endurskoðun á grein úr doktorsritgerð þeirrar síðarnefndu um framsækin gosbelti við Jan Mayen. 

„Greinin varpar nýju ljósi á samspil eldvirkni og gliðnunar meginlandsskorpu Jan Mayen-hryggjarins. Ég er einnig að skoða endurkastsgögn úr Eyjafjarðarál og Skjálfandaflóa og reyna að meta hreyfingar á misgengjum þar síðustu 10 þúsund árin.“  

Bryndís Brandsdóttir