Úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla staðfestir styrk HÍ
Sérfræðingahópur Gæðaráðs íslenskra háskóla lýkur lofsorði á fjölmarga þætti í starfi Háskóla Íslands í nýju heildarmati á starfsemi skólans sem birt var í lok vikunnar. Skýrslan felur jafnframt í sér góðar ábendingar um það hvernig skólinn geti bætt starf sitt enn frekar og sótt fram bæði hér heima og erlendis.
Þetta er í annað sinn sem slíkt heildarmat er framkvæmt á Háskóla Íslands en það var síðast gert fyrir rúmum fimm árum. Markmið mats gæðaráðsins er að efla gæði í íslenskum háskólum og var það höndum óháðs hóps alþjóðlegra sérfræðinga ásamt einum fulltrúa stúdenta að taka út starf skólans. Úttektin byggist bæði á sjálfsmatsskýrslum innan skólans og ítarlegum gögnum úr starfi hans en vegna COVID-19-faraldursins gat nefndin ekki heimsótt skólann í persónu heldur átti fundi með ýmsum aðilum innan skólans um fjarfundarbúnað.
Í skýrslu sinni lofar úttektarhópurinn fjölmarga þætti sem lúta að rannsóknum, kennslu og stjórnunarháttum innan skólans og bendir á framfarir sem orðið hafa frá síðustu úttekt. Dregur hópurinn sérstaklega fram hversu mikils trausts Háskóli Íslands nýtur í íslensku samfélagi og hve öflugt rannsóknarstarf skólans er á alþjóðlegan mælikvarða. Þá bendir hópurinn einnig á hve vel heppnuð viðbrögð skólans við COVID-19-faraldrinum voru, sem megi m.a. rekja til öflugrar innleiðingar stafrænna kennsluhátta og þess hve samstaða starfsfólks sé sterk og boðleiðir stuttar.
Alþjóðlegi úttektarhópurinn lýkur úttekt sinni á traustsyfirlýsingu um gæði námsumhverfis og prófgráða frá Háskóla Íslands. Slík yfirlýsing er afar mikil viðurkenning fyrir skólann og staðfestir að prófgráða frá Háskóla Íslands nýtur mikils trausts á alþjóðlegum vettvangi og mun áfram opna stúdentum ný og spennandi tækifæri innanlands sem utan.
Í skýrslunni er einnig að finna ýmis tækifæri til úrbóta, m.a. hvernig efla megi gæðamenningu Háskólans enn frekar. Þar leggur hópurinn ekki síst áherslu á nauðsyn þess að styrkja þverfræðilegt samstarf milli fræðasviða og deilda og tryggja betur samræmt gæðastarf milli ólíkra eininga. „Í því umbótastarfi sem fram undan er mun ný stefna Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ 26, varða leiðina en hún er helsta leiðarljósið í öllu gæðastarfi okkar ásamt ytri úttektum sem m.a. var byggt á við gerð hennar,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um skýrsluna í vikulegri helgarkveðju sinni til stúdenta og starfsfólks.
Skýrsluna í heild sinni og helstu niðurstöður á íslensku má finna á vef Gæðaráðs íslenskra háskóla.