Skip to main content
4. desember 2020

Góður árangur Háskólans byggist á þeim auði sem fólginn er í starfsfólki og nemendum

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (4. desember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Góður árangur Háskóla Íslands byggist á þeim auði sem fólginn er í starfsfólki og nemendum. Fjórir starfsmenn Háskóla Íslands hlutu viðurkenningu í vikunni fyrir lofsvert framlag við skólann á sviði kennslu, rannsókna, jafnréttismála og annarra starfa. Viðurkenningarnar voru afhentar á upplýsingafundi rektors. Ég óska þeim Amalíu Björnsdóttur, Gavin Lucas, Irmu Erlingsdóttur og Helgu Steinunni Hauksdóttur innilega til hamingju með viðurkenningarnar.  

Í dag fagnar Stúdentaráð Háskóla Íslands 100 ára afmæli sínu. Sökum aðstæðna verður afmælið í beinu streymi. Það gerir okkur öllum kleift að vera viðstödd og fagna með háskólastúdentum sem hafa haft mikil áhrif á íslenskt samfélag í heila öld. Afmælishátíðin fer fram í Hátíðasal og hefst hún kl. 18. 

Nú er prófatíð í fullum gangi og allir hafa lagst á eitt við að láta fjarpróf og staðpróf ganga sem best fyrir sig við flóknar aðstæður. Ég vil þakka ykkur kæru nemendur fyrir hversu vel þið hafið gætt að einstaklingsbundnum sóttvörnum í staðprófunum. Afar mikilvægt er að við höldum árvekni okkar út allt prófatímabilið og að við forðumst að mynda hópa í tengslum við staðprófin. Einnig er brýnt að nemendur yfirgefi byggingar strax að loknu prófi. Góður undirbúningur skiptir miklu varðandi frammistöðu í prófum og ég vona innilega að ykkur gangi vel.

Aðventan er hafin og jólin eru í augsýn. Fátt er fallegra en ljós í myrkasta skammdeginu en ég vil minna ykkur öll á að fara varlega með jólaskreytingar og forðast að láta kerti loga í byggingum Háskólans. 

Þau tíðindi bárust okkur í vikunni að nú hilli undir bóluefni gegn kórónaveirunni og bólusetningar geti mögulega hafist hér á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þrátt fyrir þessi góðu fyrirheit megum við ekki slaka á vörnum og munum að þolinmæðin og seiglan skila miklu. Við reiknum með að starf skólans verði að mestu rafrænt á vormisseri en upplýst verður nánar um tilhögun kennslunnar eftir því sem fram vindur. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Margir verða í önnum um helgina vegna lokaprófa. Gleymum samt ekki að líta upp úr amstrinu og njóta aðventunnar sem best við megum. Förum varlega. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Jólatré