Skip to main content

Tómstunda- og félagsmálafræði - Aukagrein

Tómstunda- og félagsmálafræði - Aukagrein

Menntavísindasvið

Tómstunda- og félagsmálafræði

Aukagrein – 60 einingar

Tómstundastarf gegnir mikilvægu menningar- og uppeldishlutverki í nútímasamfélagi. Í tómstunda- og félagsmálafræði er fjallað um gildi, þýðingu og hlutverk tómstunda- og félagsmálastarfs fyrir fólk á öllum aldri. Sérfræðiþekking tómstunda- og félagsmálafræðinga felst meðal annars í að leiða saman hópa, stuðla að félagslegum þroska og hæfni með fjölbreyttum viðfangsefnum. 

Skipulag náms

X

Inngangur að tómstundafræði (TÓS101G)

Markmið: Að nemendur hafi að loknu námskeiði öðlast yfirgripsmikla þekkingu á tómstundafræði, bæði í sögulegu ljósi en ekki síst tómstundafræði samtímans. Áhersla er á að nemendur hafi öðlast skilning á viðfangsefnum og aðferðum tómstundafræðinnar og þeim fræðilegu forsendum sem liggja til grundvallar, áttað sig á mikilvægi tómstundastarfs í nútíma samfélagi og geti tengt niðurstöður rannsókna á tómstundastarfi við starf á vettvangi. Einnig að nemendur hafi kynnst því tómstundastarfi sem í boði er á Íslandi, þekki sögu tómstundastarfs og þróun í takt við breytingar á samfélaginu.

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um skilgreiningar, mikilvægi og kenningar tómstundafræðanna. Einnig verður fjallað um þróun og stöðu tómstundamála á Íslandi. Farið verður sérstaklega í hlutverk leiðbeinenda. Auk þess verður farið ítarlega í gildi tómstunda og verða rannsóknir skoðaðar í þeim tilgangi. Þá verður fjallað um óformlegt nám, tómstundamenntun, lýðræði og jaðarhópa. Nemendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, reynslu og þekkingu við starf á vettvangi.

Innheimt verða gjöld vegna kostnaðar sem til fellur vegna nýnemaferðar, kr. 4000.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, hópavinna og vettvangsheimsóknir.

X

Tómstundir og áskoranir í nútímasamfélagi (TÓS510G)

Inntak: Fjallað verður um kenningar, starfsaðferðir og hugmyndafræði í vinnu með þessum hópum. Námskeiðið er tvíþætt, annarsvegar er fjallað aldurhópsin 25 ára til rúmlega 50 ára og  hins vegar um aldurhópin frá rúmlega 50 ára og upp úr, hið svokallaða þriðja æviskeið. Fjallað er um hagnýtar kenningar, rannsóknir, verklag, reynslu af vettvangi  og ekki síst gildi tómstunda fyrir þessa aldurhópa.

Vinnulag: Námskeiðið er að öllu jöfnu kennt í staðnámi. Kennt er að jafnaði tvo daga í viku.

Kennslan byggir á fyrirlestrum, verkefnavinnu, umræðum og vettvangsheimsóknum. Rík áhersla er lögð á tengsl við vettvang.

 

Markmið námskeiðsins er að nemendur:

  • Kynnist tómstundastarfi með áherslu á aldurhópin 25 ára og upp úr og þekki  uppbyggingu starfsins  og stjórnun,
  • Öðlist færni og þekkingu til þess að skipuleggja og stýra tómstundastarfi fyrir þessa hópa.
  • Þekki helstu kenningar um tómstundir,
  • Þekki til laga og reglugerða,
  • Þekki uppbyggingu þjónustu fyrir þessa aldurshópa,
  • Kynnist aðstæðum viðkomandi hópa á Íslandi í dag.

Námskeiðið stendur yfir í 13 vikur

Vinnulag: Fyrirlestrar, verkefni,  hópavinna, lestur, umræður, vettvangsheimsóknir. Allt utanumhald námskeiðisins er í Canvas námsumsjónarkerfinu.

X

Tómstundir og þriðja æviskeiðið (TÓS308G)

Að nemendur: 

  • kynnist því tómstundastarfi sem sérstaklega er boðið upp á fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu  á Íslandi
  • efli eigin færni og styrk í að vinna með fólki á þriðja æviskeiðinu á vettvangi frítímans
  • geti skipulagt og stjórnað tómstundastarfi fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu
  • kynnist aðstæðum aldraðra á Íslandi í dag
  • kryfji rannsóknir á gildi tómstunda fyrir fólk  á þriðja æviskeiðinu
  • þekki til helstu kenninga um öldrun
  • þekki lög og reglugerðir og uppbyggingu þjónustu fyrir þennan aldurshóp.
  • þrói hugmyndir sínar um tómstundastarf fyrir fólk  á þriðja æviskeiðinu  með því að gera verkefni á vettvangi

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um kenningar, stefnumörkun, hugmyndafræði, lífsskeiðaþróun og breytingarferli fullorðinsára frá mismunandi sjónarhornum. Farið verður í löggjöf og uppbyggingu þjónustu við fólk  á þriðja æviskeiðinu. Gerð verður grein fyrir öldrunarfræðilegum rannsóknum og fjallað um þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa og áhrif þeirra á þjónustu við fólk  á þriðja æviskeiðinu. Áhersla er á tómstundir, virkni, forvarnarstarf og þátttöku fólks  á þriðja æviskeiðinu í stjórnun og skipulagningu þjónustunnar.

Vinnulag: Fyrirlestrar, verkefni, umræður, vettvangsheimsóknir og þátttaka í skipulagningu og stýringu félagsstarfs.

Námskeiðið stendur yfir í 9 vikur vegna vettvangsnáms í lok misseris.

X

Einelti, forvarnir og inngrip (TÓS509M, TÓS301G)

Þetta námskeið er um einelti og markmiðið er að þeir sem ljúka námskeiðinu öðlist þekkingu, leikni og hæfni til að geta tekist á við og komið í veg fyrir einelti meðal barna og unglinga.

Námskeiðið byggir á kenningum og rannsóknum á einelti. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem hafa hug á að vinna með börnum og unglingum og hentar því vel fyrir nemendur á menntavísindasviði HÍ. Nemendur á öðrum sviðum eru einnig velkomnir. Á námskeiðinu verður fjallað um fjölmarga þætti sem snúa að einelti, þar á meðal mismunandi birtingarmyndir, árangursríkar aðferðir við forvarnir og inngrip, samstarf við foreldra og forsjáraðila og árangursríka vinnu með þolendum, gerendum og áhorfendum. Námskeiðið fer fram á íslensku en lesefni er á íslensku og ensku.

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, umræðu- og verkefnatímum, reynslusögum af vettvangi og kynningum nemenda.

Skyldumæting er í námskeiðið (lágmark 80%). Skyldumæting er fyrir fjarnema í staðlotur námskeiðsins. Missi þeir af staðlotu verða þeir að vinna það upp með því að mæta í aðra tíma í staðinn. Fjarnemum er frjálst að mæta í aðrar kennslustundir. Fjarnemar vinna virkniverkefni um kennslustundir sem þeir mæta ekki í. 

X

Útivist og útinám í lífi og starfi (TÓS509M, TÓS301G)

Inntak: Fjallað verður um hugmyndafræði og gildi útináms og ævintýranáms í starfi með fólki með áherslu á hagnýtar kenningar, rannsóknir og reynslu af vettvangi. Áhersla er lögð á að annars vegar að njóta náttúrunnar og hins vegar að greina hvernig náttúran getur verið vettvangur fyrir uppeldi og margskonar nám (t.d. með rýni í plöntur, dýr eða landslag).

Kynntar eru leiðir um hvernig náttúran getur auðgað starf með börnum, unglingum og fullorðnum m.a. til þess að efla sjálfstraust, sjálfsmynd, uppbyggjandi samskipti og auka þekkingu fólks á náttúrunni og efla tengsl okkar við hana. Einkum er litið á vettvang frítímans sem þann starfsvettvang sem unnið er með, en einnig er unnið með útfærslu og framkvæmd útináms í skóla- eða tómstundastarfi. Kennaranemar sem taka námskeiðið vinna sín verkefni með hliðsjón af skólastarfi og tengingar við aðalnámskrá. Fjallað verður um ýmis gagnleg atriði varðandi útivist m.a. um útbúnað, klæðnað, ferðamennsku og öryggismál.

Farið verður í eina tveggja nátta ferð 2. - 4. október 2024 (gæti breyst í dagsetninguna 30. okt - 1. nóv.) og eina einnar nætur ferð (12.- 13. nóvember 2024) þar sem nemendur glíma við raunveruleg verkefni á vettvangi.

Ferðakostnaður: Innheimt verða gjöld vegna kostnaðar sem til fellur vegna ferðar, kr. 17.000.

Vinnulag: Námskeiðið er kennt bæði í stað- og fjarnámi. Í staðnámi er að jafnaði kennt tvo dag í viku.

Kennslan byggir á fyrirlestrum, verklegri kennslu, útivistarferðum, verkefnavinnu og umræðum. Rík áhersla er lögð á fjölbreyttar útivistarferðir þar sem nemendur takast á við raunveruleg verkefni. Umræður eru í tímum og á neti, en einnig er rætt um upplifanir hópsins og einstaklinganna í ferðunum og rýnt í þann lærdóm sem af þeim má draga (ígrundun). Unnin eru verkefni þar sem nemendur þurfa m.a. að fara með hóp í ferð. Þar reynir á ferlið frá hugmynd (sköpun), undirbúning, framkvæmd og mat. 
Nemendur eru hvattir til að nota leiðarbók á námskeiðinu fyrir ígrundanir, minnispunkta og hugleiðingar.

X

Tómstundir og börn (TÓS202G)

Megin viðfangsefni námskeiðsins eru tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára í víðum skilningi. Fjallað er um helstu uppeldisfræðislegu sjónarhornin með þennan aldurshóp í huga. Fjallað verður um margvíslegar áskoranir sem börn á þessum aldri standa frammi fyrir.

Viðfangsefni námskeiðsins snúa meðal annars að lýðræðislegum starfsháttum í starfi með börnum, grunnþáttum menntunar, viðmiðum um gæði í frístundastarfi, öryggis- og velferðarmálum í æskulýðsstarfi, mikilvægi leiksins, fjölmenningu og inngildingu, samskiptum og gagnrýnni hugsun, listum, menningu og skapandi starfi og tómstundastarfi með margbreytilegum barnahópum.

Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur

  • öðlist þekkingu á kenningum um þroska, nám og félagsfærni allra barna á aldrinum 6-12 ára
  • fái innsýn í tómstundir barna á aldrinum 6-12 ára og öðlist skilning á hlutverki grunnskóla, frístundaheimila og æskulýðstarfs
  • efli eigin færni og styrk í að vinna með börnum á vettvangi frítímans og efli þekkingu sína á mikilvægi leiks í starfi með börnum
  • átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með börnum og tileinki sér slík vinnubrögð.
X

Tómstundir og unglingar (TÓS211G)

Markmið: Að nemendur

  • Kynnist því tómstundastarfi sem sérstaklega er boðið upp á fyrir unglinga á Íslandi.
  • Efli eigin færni og styrk í að vinna með unglingum á vettvangi frítímans.
  • Öðlist innsýn í þann heim sem unglingar búa við í dag, má þar nefna hnattvæðingu, fjölmiðla, unglingamenningu og samvistir fjölskyldunnar.
  • Kryfji rannsóknir á gildi tómstunda fyrir unglinga.
  • Öðlist færni í að greina og bregðast við ofbeldi gegn unglingum, ásamt því að þekkja skyldur og ábyrgð leiðbeinenda.
  • Öðlist innsýn í hverskonar frávikshegðun unglinga og hvernig helst megi koma í veg fyrir hana.
  • Þrói hugmyndir sínar um tómstundastarf fyrir unglinga með því að gera verkefni á vettvangi.
  • Átti sig á mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í öllu starfi með unglingum.
  • Geti skipulagt og stjórnað tómstundastarfi fyrir unglinga.

Inntak / viðfangsefni: Fjallað verður um starf félagsmiðstöðva, íþróttafélaga, skáta og um trúarlegt starf fyrir unglinga, ásamt félagsstarfi í grunnskólum. Áhersla verður lögð á starfshlutverk tómstundafræðinga við fræðslu, ráðgjöf og forvarnarstarf. Farið verður í skoðun á samfélaginu út frá unglingunum sjálfum og nemendur kryfja gildi tómstunda fyrir unglinga til mergjar. Fjallað verður um helstu einkenni og vandamál sem börn og unglingar eiga við að etja, meðal annars verður fjallað um kenningar, áhættuþætti, eðli og umfang ofbeldis og vanrækslu og mismunandi birtingarform þess. Jafnframt verður fjallað um ofbeldi í fjölskyldum og áhrif þess á unglinga. Ennfremur verður fjallað um löggjöf, úrræði og forvarnarstarf, vinnuaðferðir, viðhorf og viðbrögð fagfólks í slíkum málum. Að lokum verður fjallað um hlutverk og ábyrgð leiðbeinenda og mikilvægi lýðræðislegra vinnubragða í starfi með unglingum.

Vinnulag: Fyrirlestrar, umræður, einstaklingsvinna, hópavinna og vettvangsheimsóknir. Nemendur fara í vettvangsheimsóknir og kynna sér starf með unglingum. Nemendur hanna starf í frítíma fyrir unglinga.

X

Viðburða- og verkefnastjórnun (TÓS411G)

Námskeiðinu er ætlað að efla færni nemenda í að undirbúa og skipuleggja viðburði á faglegan hátt með aðferðum og leiðum verkefnastjórnunar. Áhersla er á samvinnu og verkefnavinnu með markvissum hætti og nemendur ættu því að búa að aukinni færni fyrir önnur námskeið í háskólanámi, vinnumarkað og hvers konar félagsstörf. Námskeiðið er grunnnámskeið í tómstunda- og félagsmálafræði og er ætlað að mæta síaukinni kröfu um færni í viðburða- og verkefnastjórn á starfsvettvangi þeirra. Það er einnig opið öðrum nemendum við Háskóla Íslands sem valnámskeið.

Nemendur eru hvattir til virkar þátttöku í umræðum sem og verkefnavinnu því þannig skapast gott lærdómssamfélag sem margfaldar árangur allra. Nemendur eru jafnframt hvattir til uppbyggilegra samskipta og ábyrgðar á eigin námi og framgöngu í námskeiðinu.

Inntak
Á námskeiðinu verður farið yfir skipulagningu viðburðaverkefna. Áhersla er lögð á undirbúning, greiningar, áætlanir, framkvæmd og eftirvinnslu viðburða s.s. á sviði tómstunda, frítíma og menningar. Rýnt er í viðburði eins og fundi, ráðstefnur, tónleika, útihátíðir, íþróttamót, merkisdaga mannsævinnar og fasta hátíðisdaga. Fjallað er um lög, reglur og öryggisatriði. Skoðuð eru tengsl frístunda, tómstunda og ferðaþjónustu, sem og uppeldislegt- og samfélagslegt gildi viðburða og efnahagsleg áhrif þeirra.

Vinnulag
Fyrirlestrar, umræður, verkefnavinna og heimsóknir. Í námskeiðinu vinna nemendur að undirbúningi, framkvæmd og mati á eigin viðburði og taka þátt í að rýna viðburði samnemenda auk lesefnisprófs.

Námskeiðið er kennt í stað- og fjarnámi og mætingarskylda er í námskeiðið fyrir staðnema og fyrir fjarnema í staðlotur.

Lágmarkseinkunn í hverjum námsþætti er 5.0.

X

Frístundalæsi: Efling máls og læsis í gegnum leik og hálfformlegt nám (TÓS008G)

Námskeiðið Frístundalæsi er ætlað nemendum í tómstunda- og félagsmálafræði og öðrum þeim sem starfa með börnum og unglingum og vilja efla mál og læsi í gegnum leik og hálfformlegt nám. Námskeiðið eflir hæfni þátttakenda til að tileinka sér og innleiða ólíkar tegundir læsis á vettvangi frítímans og frístundastarfs.

Handbókin og heimasíðan Frístundalæsi er grunnur námskeiðsins og unnið verður með sjö ólíkar læsistegundir: Félagslæsi, lista- og menningarlæsi, miðlalæsi, samfélagslæsi, náttúru- og umhverfislæsi, vísindalæsi og heilsulæsi.

Nemendur verða hvattir til að nýta eigin reynslu úr starfi með börnum og ungmennum sem verkfæri í náminu, þeir halda starfstengda dagbók og verða hvattir til að miðla þekkingu sinni til samstarfsfólks.

Verkefni námskeiðsins verða fjölbreytt og unnin í teymum, pörum sem og einstaklingslega: Starfstengd dagbók þar sem þátttakendur tengja markvisst við eigið starf, paraverkefni með samfélagslega skírskotun hvers miðlunarleiðir verða skapandi og frjálsar og hópverkefni þar sem kafað verður ofan í ákveðna tegund læsis.

X

Nemi styður nema - fjölbreytt háskólasamfélag (vor) (TÓS213G)

Viðfangsefni

Viðfangsefni námskeiðsins eru félagsleg samskipti, samvera og námsaðstoð við nemendur sem geta þurft aðstoð og/eða stuðning í námi sínu á Menntavísindasviði HÍ. 
Í námskeiðinu verður fjallað um nýjar áherslur og nýbreytni í menntamálum, sérstök áhersla lögð á inngildandi nám og tækifærin sem hugmyndafræðin býður upp á. Einnig verður fjallað um, jafnrétti, samfélag án aðgreiningar og mannréttindi í víðu samhengi. Kynntar verða leiðir til að efla náms- og félagslega þátttöku nemenda í háskólanum með fjölbreyttum hætti. Lögð verður áhersla á samráð við nemendur varðandi skipulagningu námskeiðsins. 

Námskeiðið er dýrmæt reynsla sem mun nýtast í leik og starfi.

Námskeiðið er kennt að vori og hausti. Námskeiðið er einstaklingsmiðað og aðlagað að hverjum nemanda. Þess vegna er ekki um endurtekningu á námsefni að ræða ef nemendur taka námskeiðið tvisvar. 

Vinnulag
Samstarf og samvera með samnemum er að jafnaði þrjár kennslustundir á viku. Samstarfið getur falið í sér námsaðstoð, til dæmis við verkefnavinnu, verkefnaskil, yfirferð á námsefni eða samveru á bókasafni eða matsal og þátttaka í félagslífi á vegum nemendafélaga.

Þrír fræðslufundir með kennurum fyrrihluta misseris. Að auki geta nemendur pantað fundi eftir þörfum með kennurum námskeiðsins.

Nemendur vinna dagbókarverkefni jafnt og þétt yfir misserið og skila lokaskýrslu um reynslu sína af námskeiðinu.

X

Kynbundið ofbeldi: forvarnir og fræðsla (TÓS009G)

Efni námskeiðsins er kynbundið ofbeldi, ólíkar birtingarmyndir þess og forvarnir. Áhersla er lögð á að auka skilning nemenda á kynbundu ofbeldi og birtingarmyndum þess í samfélaginu. Markmið námskeiðsins er tvíþætt, annars vegar að efla fræðilegan grunn nemenda og hins vegar að efla færni nemenda í vinna gegn kynbundnu ofbeldi í starfi. Markmiðið er að nemendur þekki birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og efli færni sína í að leiða umræðu, vinna með viðhorf og vinna að málum tengdum kynbundnu ofbeldi sem kunna að koma upp í starfi á vettvangi.

Kynbundið ofbeldi verður skoðað út frá helstu birtingarmyndum þess í samfélagi okkar. Farið verður í helstu fræðilegu hugtök kynjafræðinnar sem nýtast til þess að greina og skilja kynbundið ofbeldi eins og það birtist okkur í daglegu lífi. Farið verður yfir ólíka stöðu og möguleika karla og kvenna í samfélagi okkar og áhrif hugmynda um karlmennsku og kvenleika á viðhorf okkar og væntingar. Þá verða viðteknar hugmyndir samfélagsins um jafnrétti, ofbeldi og klám teknar til gagnrýninnar skoðunar.

Rík áhersla er lögð á að nemendur geti ígrundað eigin viðhorf og vinnu út frá kynjasjónarmiðum en nemendum gefst kostur á að tengja hugmyndir sínar, reynslu og þekkingu við starf á vettvangi.

Námskeiðið er kennt í tveimur staðlotum, auk vikulegra fyrirlestra og kennsluhlés sem nýtist í verkefnavinnu á vettvangi.

X

Leikir í frístunda- og skólastarfi (TÓS409G)

Á námskeiðinu er fjallað um gildi góðra leikja í frístunda- og skólastarfi. Nefna má kynningar – og hópstyrkingarleiki, hlutverkaleiki, einfalda og flókna námsleiki, hópleiki, rökleiki, gátur, þrautir, spurningaleiki, umhverfisleiki, námsspil, söng- og hreyfileiki, orðaleiki og tölvuleiki, leikræna tjáningu o.s.frv. Áhersla verður lögð á að kynna þátttakendum heimildir um leiki og verður sérstök áhersla á að kynna Internetið sem upplýsingabrunn um leiki. Þátttakendur spreyta sig á að prófa margvíslega leiki og leggja mat á þá. Þá verður unnið í hópum við að safna góðum leikjum (námsmappa- portfolio) sem hægt er að nota í frístunda- og skólastarfi. Athugið að þetta námskeið er kennt á laugardögum.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Gréta Sóley Arngrímsdóttir
Ársæll Rafn Erlingsson
Anna Lilja Björnsdóttir
Arnar Snæberg Jónsson
Gréta Sóley Arngrímsdóttir
Tómstunda- og félagsmálafræði nám

Ég valdi námið eftir að hafa kynnst störfum tómstundafræðinga á vettvangi. Tómstundafræðingar eru lausnamiðaðir einstaklingar sem halda vel utan um hópinn sinn. Þeir eru ekki bara faglegir á vettvangi heldur hugsa líka um eigin velferð. Ég gæti ekki ímyndað mér betri stað til að vera á en í tómstundafjölskyldunni í Stakkahlíð.

Ársæll Rafn Erlingsson
Tómstunda- og félagsmálafræði nám

Ég byrjaði að vinna í frístund og félagsmiðstöðinni í mínu bæjarfélagi. Fljótlega fékk ég gríðarlegan áhuga á starfinu og ákvað að mennta mig í þessum tómstundafræðum. Námið hefur dýpkað vinnuna mína til muna og aukið skilning minn á uppeldi og frítíma fólks.

Anna Lilja Björnsdóttir
Tómstunda- og félagsmálafræði

Þetta er í raun mannbætandi nám sem felur í sér að læra að vinna með fólki á öllum aldri og verða besta útgáfan af sjálfum sér í lífi og starfi.

Arnar Snæberg Jónsson
Tómstunda- og félagsmálafræði

Nám í tómstunda- og félagsmálafræði er ekki bara hagnýtt og skemmtilegt. Það er sérhannað fyrir eldhuga sem vilja hafa jákvæð og mótandi áhrif á líf fólks á öllum aldri og gefur fjölbreytt tækifæri á vinnumarkaði.

Hafðu samband

Kennsluskrifstofa 
Stakkahlíð, 1. hæð í Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.