Skip to main content
10. nóvember 2020

Störfum á job.is miðlað á Tengslatorgi Háskóla Íslands 

""

Háskóli Íslands og Job atvinnuvefur hafa gert með sér samkomulag um að miðla völdum starfstækifærum til nemenda á vef Tengslatorgs Háskóla Íslands. Með samstarfinu gefst fyrirtækjum og stofnunum sem auglýsa hjá Job tækifæri til að nálgast þann mikla mannauð sem býr í nemendum Háskóla Íslands og um leið verður aðgengi nemenda að vinnumarkaði greiðara.   

Tengslatorg Háskóla Íslands  var sett á laggirnar sem liður í stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, sem miðar m.a. að því að efla samstarfsvettvang nemenda, rannsakenda, atvinnulífs, stofnana og þjóðlífs. Í því felst meðal annars að fjölga tækifærum stúdenta til að nýta þekkingu sína og færni úr háskólanámi úti í atvinnulífinu og stuðla að enn frekara samstarfi nemenda og rannsakenda við starfsvettvang, stofnanir og atvinnulíf. Fjölmörg fyrirtæki hafa fundið starfskrafta úr röðum stúdenta til lengri eða skemmri tíma með aðstoð torgsins.

„Með þessu samstarfi verða til enn betri tengsl á milli nemenda og atvinnurekenda sem greiða fyrir aðgengi stúdenta að vinnumarkaði og þekkingu og færni sem atvinnulífið kallar eftir,“ segir Jónína Kárdal, verkefnisstjóri Tengslatorgs Háskóla Íslands. 

Sigríður Sigmarsdóttir, eigandi Job, er einnig hæstánægð með samkomulagið. „Viðskiptavinir okkar kunna vel að meta hversu vel Job deilir auglýsingum sínum áfram og Tengslatorg er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju. Við styðjum allt framtak sem tengir atvinnulíf og stúdenta saman svo að allir aðilar finni draumastarfsmanninn og draumastarfið.“

Um Job
Job er elsti atvinnuauglýsingavefurinn þar sem fyrirtæki auglýsa lausar stöður og einstaklingar skrá sig og leita að draumastarfinu. Metnaður Job liggur í einfaldleikanum, ódýrum auglýsingum og góðri dreifingu enda öllum auglýsingum dreift á samfélagsmiðla, LinkedIn og nú viðeigandi störfum á Tengslatorg.  Þess má geta að Job og Fréttablaðið eru í samstarfi þar sem Job er netmiðill þessa stærsta dagblaðs Íslendinga.
 

Sigríður Sigmarsdóttir og Jónína Kárdal