Skip to main content

Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Susan Rafik Hama

Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Susan Rafik Hama - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. nóvember 2020 9:00 til 12:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Susan Rafik Hama

ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild menntunar og margbreytileika,

Háskóla Íslands:

Velgengni nemenda af erlendum uppruna í framhaldsskólum á Íslandi, reynsla þeirra og væntingar

Vörnin fer fram miðvikudaginn 25. nóvember  kl. 9.00 í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Vegna fjöldatakmarkana verður hægt að fylgjast með vörninni í beinni útsendingu á þessari slóð: https://livestream.com/hi/doktorsvornsusanrafikhama

Andmælendur eru dr. Ghazala Bhatti, prófessor við Bath Spa University,

Englandi, og dr. Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands

Leiðbeinandi var dr. Hanna Ragnarsdóttir, og meðleiðbeinandi dr. Börkur Hansen, prófessorar við Háskóla Íslands. Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Thor-André Skrefsrud, prófessor við Inland Norway University of Applied Sciences, Noregi.

Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, deildarforseti Deildar menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði, stjórnar athöfninni.                                                                                                                                   

Nemendur af erlendum uppruna eru áhugasamir um nám og standa vel bæði námslega og félagslega í sínu nýja námsumhverfi þrátt fyrir ýmsar hindranir eins og ólíka menningu og tungumál, glímu við mismunandi skólakerfi, menntunarstig og lágar tekjur foreldra. Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að skilja reynslu ungra nemenda af erlendum uppruna af velgengni bæði námslega og félagslega í framhaldsskólum á Íslandi. Gögnum var safnað á vormánuðum 2014 frá 27 nemendum sem notið hafa velgengni, bæði námslega og félagslega, í framhaldsskólum. Niðurstöðurnar leiða í ljós að námsleg og félagsleg velgengni nemenda af erlendum uppruna mótast af ýmsum persónulegum, stofnanabundum og félagslegum þáttum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að fjölbreytt umhverfi þar sem allir fá notið sín gegni lykilhlutverki við að tryggja námslegan og félagslegan árangur nemenda af erlendum uppruna.

Susan Rafik Hama er fædd í Sulaimani íNorður-Írak árið 1975. Hún lauk diplómunámi í uppeldis- og kennslufræði frá háskólanum í Sulaimani 1993, BA-prófi í ensku og bókmenntum frá Salahaddin-háskóla árið 1997,  kennsluréttindanámi frá  Háskóla Íslands árið 2008, BA-prófi í íslensku sem öðru máli frá Háskóla Íslands árið 2011 og M.Ed prófi í fullorðinsfræðslu og mannauðsþróun frá sama skóla árið 2012. Rannsóknir hennar snúast um menntun innflytjenda og flóttamanna, fjölmenningarlega menntun, nám og kennslu fullorðinna og símenntun.

Susan hefur starfað sem  verkefnastjóri, túlkur og  kennari við leikskóla, grunn- og framhaldsskóla og háskóla bæði hérlendis og erlendis. Eiginmaður Susan er Salah Karim Mahmood og börn þeirra eru Sana (2003) og Mír (2005). Helstu áhugamál Susan eru allt sem viðkemur menningu, menntun innflytjenda og flóttamanna, ferðalög, matur, náttúruvernd, heilsa og lestur góðra bóka.

 

 

Doktorsvörn frá Deild menntunar og margbreytileyka, Menntavísindasviði - Susan Rafik Hama

Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Susan Rafik Hama