Skip to main content
11. mars 2020

Ungir framúrskarandi vísindamenn á leið til fundar við Nóbelsverðlaunahafa

""

Tveir nemendur Háskóla Íslands, þau Þórir Einarsson Long og Guðrún Höskuldsdóttir, hafa verið valin úr stórum hópi ungra vísindamanna víða um heim til þess að sækja vikulanga dagskrá með hátt í 70 Nóbelsverðlaunahöfum í Þýskalandi í sumar. 

Dagskráin nefnist The Lindau Nobel Laureate Meetings og hefur verið haldin í bænum Lindau í Þýskalandi frá árinu 1951. Viðburðurinn í ár er þverfræðilegur en þar koma saman tugir Nóbelsverðlaunahafa á sviði líf- og læknavísinda, eðlisfræði og efnafræði og eiga samtal við framúrskarandi vísindamenn framtíðarinnar, bæði háskólanema í grunn- og framhaldsnámi og nýdoktora, og veita þeim innblástur til góðra verka. 

Í ár, á 70 ára afmæli viðburðarins, bauð valnefnd 650 ungum vísindamönnum frá 101 landi til þátttöku en viðburðurinn, sem fer fram 28. júní til 3. júlí, samanstendur af fyrirlestrum, umræðufundum, masterklössum og pallborðsumræðum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði sl. haust fyrir hönd skólans samkomulag við Lindau-stofnunina, sem heldur utan um viðburðinn, um að gerast samstarfsaðili (e. academic partner) en það var gert í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið og Rannís. Í framhaldinu gafst skólanum færi á að tilnefna nemendur til þátttöku í viðburðinum en úr hópi allra tilnefndra velur stofnunin þá sem þykja standa fremst, í ítarlegu valferli.

Sem fyrr segir voru tveir nemendur Háskóla Íslands valdir til þátttöku á viðburðinum og styrkir Háskólinn þá til fararinnar. 

Þórir Einarsson Long státar af kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands og lauk í desember síðastliðnum doktorsprófi í læknavísindum frá skólanum. Í doktorsverkefninu rannsakaði hann m.a. nýgengi, fylgikvilla og áhættuþætti tengda bráðum nýrnaskaða í kjölfar skurðaðgerða. Niðurstöður leiddu í ljós að sjúkdómurinn er algengt vandamál, bæði í almennu sjúkrahúsþýði og í kjölfar skurðaðgerða, og hefur tengsl við bæði skammtíma- og langtímalifun. Þórir starfar sem læknir á Landspítala og sinnir þar einnig rannsóknum en hann var m.a. valinn ungur vísindamaður Landspítala árið 2019.

Guðrún Höskuldsdóttir er BS-nemi í verkfræðilegri eðlisfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Hún hlaut styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands þegar hún hóf nám við Háskóla Íslands árið 2017 og síðastliðið sumar hlaut hún enn fremur styrk úr svokölluðum Kiyo og Eiko Tomiyasu sjóði til að vinna að sumarverkefni við einn fremsta rannsóknarháskóla heims, California Institute of Technology – Caltech í Kaliforníu. Á haustmisseri 2019 dvaldi Guðrún sem skiptinemi við Kunglinga Tekniska Högskolan (KTH), einn fremsta tækniháskóla Norðurlanda, en hún brautskráist með BS-próf frá Háskóla Íslands á vori komanda. Auk þessa hefur Guðrún m.a. starfað sem leiðbeinandi við Vísindasmiðju og Háskólalest Háskóla Íslands þar sem hún hefur miðlað undrum vindorkunnar til grunnskólanema.

Nánar um The Lindau Nobel Laureate Meetings. 
 

Þau Guðrún Höskuldsdóttir og Þórir Einarsson Long litu inn á rektorsskrifstofu í gær í tilefni þessara góðu tíðinda. Með þeim á myndinni eru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Inga Þórðardóttir, forseti Heilbrigðissviðs, Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta
Jón Atli Benediktsson og Guðrún Höskuldsdóttir
Jón Atli Benediktsson og Þórir Einarsson Long.