Hartnær milljón leitaði svara á Vísindavef HÍ

Gestir Vísindavefs Háskóla Íslands voru hartnær ein milljón talsins í fyrra og hafa þeir aldrei verið fleiri. Þetta er samkvæmt samræmdri vefmælingu en gestum hefur fjölgað um rösklega fjórðung frá árinu 2018.
„Vinsældir Vísindavefsins má eflaust þakka því að þar er fjallað um vísindi og fræði á skemmtilegan hátt og á mannamáli,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri vefsins.
Hann segir að á Vísindavefnum geti hver sem er sent inn spurningu um hvaðeina sem viðkomandi langi til að vita um vísindi.
„Allar spurningar eru teknar til meðferðar og þeim síðan svarað af sérfróðum vísindamönnum. Vísindavefurinn býður þannig almenningi að hafa beint samband við vísinda- og fræðafólk og um leið þjálfast vísindamennirnir í því að fjalla um sín vísindi þannig að hver sem er skilji og hafi gagn og gaman af.“
Mikilvægur vettvangur í þekkingarsamfélagi
Vísindavefur Háskóla Íslands er gríðarlega mikilvægt verkfæri í því að miðla fræðslu til almennings en það er veigamikill þáttur í hlutverki opinberra háskóla að gera slíkt samkvæmt lögum. Opinberir háskólar eiga að veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar og tölur um aðsókn að Vísindavefnum sýna ótvírætt að hann er öflugur þekkingarmiðill og veitir skilvirka þjónustu. Heildarfjöldi notenda á Vísindavef Háskóla Íslands í fyrra var 977 þúsund, innlit voru rétt tæplega 2,4 milljónir og flettingar gesta voru um 3,4 milljónir.
Ritstjórinn segir að fyrir þekkingarsamfélag skipti öllu máli að geta miðlað til almennings og sér í lagi vísindum og fræðum til ungmenna og vakið þannig áhuga sem flestra á aðferðum og umfjöllunarefnum vísindanna. Þetta skiptir auðvitað verulegu máli á tími falsfrétta og misvísandi upplýsinga um staðreyndir. Alls hafa verið birt tæplega þrettán þúsund svör á Vísindavefnum.
Lesendur sjálfir sent meira en sjötíu þúsund spurningar
Að meðaltali heimsækja um 36 þúsund gestir Vísindavefinn í hverri viku og fletta þeir um 65 þúsund síðum.
Daglega opna lesendur Vísindavefsins á fjórða þúsund svör og í hverjum mánuði er ekki óalgengt að lesendur fari inn á rösklega ellefu þúsund svör, en sú tala fer nærri heildarfjölda birtra svara.
Lestur á svörum Vísindavefsins takmarkast alls ekki við fáein vinsæl svör heldur sækja notendur vefsins í allan þann fjölbreytta fróðleik sem þar er að finna um vísindi og fræði. Til að vísindavefurinn lifi er nauðsynlegt að honum berist stöðugt nýjar spurningar. Lesendur vefsins eru ólatir við að leita að nýrri þekkingu því um tíu spurningar berast dag hvern frá lesendum vefsins að meðaltali og heildarfjöldi spurninga er orðinn hartnær 73.000.
Vísindavefurinn er tvítugur
Vísindavefurinn fagnar um þessar mundir tuttugu ára afmæli en hann hefur miðlað þekkingu til landsmanna frá aldamótum.
„Í tilefni af tuttugu ára afmæli Vísindavefsins verður tekið splunkunýtt útlit í notkun um næstu mánaðamót sem við vonum að styðji enn frekar við öfluga miðlun vísinda í landinu,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson.
Í tilefni afmælisins verður jafnframt haldið málþing sem helgað verður falsfréttum og vísindum. Hugtakið falsfréttir hefur orðið æ meira áberandi í umræðu um lýðræði og vísindi og traust almennings á grunnþáttum samfélaga. Á málþinginu er ætlunin að fjalla um hugtakið falsfréttir og leita svara við því hvort vísindin eigi svar við þeim.
