Doktorsvörn í stjórnmálafræði - Sjöfn Vilhelmsdóttir
Hátíðasal Háskóla Íslands
Föstudaginn 7. febrúar næstkomandi ver Sjöfn Vilhelmsdóttir doktorsritgerð sína í stjórnmálafræði sem ber heitið Pólitískt traust á Íslandi: Helstu áhrifaþættir og þróun frá 1983 til 2018.
Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin.
Andmælendur eru Jonas Linde, prófessor við University of Bergen, og Kenneth Newton, prófessor emeritus við University of Southampton.
Leiðbeinandi er dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Einnig eru í doktorsnefnd Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, og Peter W. Van Arsdale, Josef Korbel School of International Studies, University of Denver.
Doktorsvörn stýrir dr. Maximillian Conrad, deildarforseti Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands.
Um doktorsefnið
Sjöfn Vilhelmsdóttir er fædd á Ísafirði þann 16. mars 1970. Hún lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og MA prófi í alþjóðafræðum frá Josef Korbel School of International Studies, University of Denver árið 1999. Frá árinu 2015 hefur hún starfað sem forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Sjöfn á eina dóttur, Snæfríði Örnu.
Sjöfn veitir nánari upplýsingar um verkefnið í netfanginu sjofn@hi.is.
Efniságrip
Mikið hefur verið rætt um hvernig Íslendingar misstu traust á stjórnvöldum og opinberum aðilum í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Umræðan hefur oft verið hvöss og hávær og ríkisstjórnin sem nú situr hefur sett sér markmið um að efla traust almennings á stjórnmálum og stjórnsýslu. Hins vegar hefur minna farið fyrir því að greina á markvissan hátt hverjar eru rætur pólitísks trausts í íslensku samfélagi eða að skoða hvað samanburður við önnur ríki segir okkur um stöðuna hér á landi. Markmið þessarar doktorsrannsóknar er að skoða þróun pólitísks trausts á Íslandi til lengri tíma og greina hvaða áhrifaþættir liggja til grundvallar þegar almenningur treystir stjórnvöldum. Í rannsókninni er sjónum sérstaklega beint að trausti almennings til Alþingis en einnig er rýnt í gögn um traust Íslendinga til opinberra stofnana, dómskerfisins og lögreglunnar. Tímabilið 1983 til 2018 er til skoðunar þar sem þróunin á trausti Íslendinga til stjórnvalda er greind yfir tíma og í alþjóðlegum samanburði.
Fræðilegur grunnur rannsóknarinnar byggir á fimm leiðandi kenningarsjónarhornum í stjórnmálafræði um rætur pólitísks trausts. Þau eru: 1) Nútímavæðing og breytt lífsviðhorf (e. modernisation and value change); 2) samborgaraleg siðmenning og félagsauður (e. civic culture and social capital); 3) pólitískur árangur (e. policy performance); 4) vönduð stjórnsýsla og ákvörðunartaka (e. process performance), og; 5) flokkakerfið og samsömun við stjórnmálaflokka (e. partisanship). Leitast er við að meta hvort og þá hversu mikið hver af þessum fimm áhrifaþáttum skýrir þróun pólitísks trausts á Íslandi yfir lengri tíma. Rannsóknin byggir á greiningum gagna úr evrópskum spurningakönnunum: Evrópsku lífsgildakönnuninni (EVS) og Evrópsku samfélagskönnuninni (ESS).
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að í alþjóðlegum samanburði hefur pólitískt traust á Íslandi verið mikið og að traust Íslendinga á lykilstofnunum stjórnkerfisins var lengst af sambærilegt því sem gerðist á hinum Norðurlöndunum. Mikið pólitískt traust á Norðurlöndunum hefur verið útskýrt með vísun í samfélagsgerð þeirra sem leggur áherslu á jöfnuð og samfélagslega þátttöku, sem og árangur stjórnvalda við að skapa góð lífskjör og byggja upp vandaða stjórnsýslu. Í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008 varð þróunin á Íslandi sambærileg þeirri sem gerðist í öðrum Evrópuríkjum sem einnig urðu illa úti í alþjóðlegu efnahagskreppunni sem fylgdi, svo sem á Írlandi, Spáni og í Portúgal. Meðan traustið á pólitískum þáttum stjórnkerfisins hrundi, þá héldu Íslendingar áfram að bera traust til dómskerfisins og traust þeirra til opinberra stofnanna og lögreglunnar jókst.
Nánari greining á einstaklingsþáttum sem liggja til grundvallar þegar almenningur treystir stjórnvöldum sýndi að rætur pólitísks trausts á Íslandi liggja víða. Pólitískur árangur stjórnvalda við að búa þegnum sínum góð lífskjör hefur mesta forspágildið þegar þróunin er skoðuð yfir lengri tíma. Þar er upplifun almennings á stöðu efnahagsmála mikilvægasti þátturinn, en mat fólks á stöðu velferðarþjónustu skiptir einnig máli. Upplifun almennings á stjórnsýslunni og hvernig pólitískri ákvörðunartöku er háttað skiptir líka máli. Íslendingar eru mun líklegri til að bera traust til stjórnvalda þegar þeim finnst að sanngirni og óhlutdrægni séu höfð að leiðarljósi í málsmeðferð opinberra aðila og að valdhafarnir hlusti eftir sjónarmiðum almennings við pólitíska ákvörðunartöku.
Bakgrunnsþættir eins og kyn, aldur, menntun og tekjur hafa allir forspágildi þegar rætur pólitísks trausts í íslensku samfélagi eru skoðaðar yfir tíma. Félagslegt traust er mikilvægt fyrir þróun pólitísks trausts á Íslandi eins og víðar, sem og flokkakerfið og þá sérstaklega samsömun einstaklinga við stjórnmálaflokkanna sem eru í ríkisstjórn hverju sinni. Þegar vægi áhrifaþáttanna var borið saman milli tímapunktanna 2004, 2012 og 2016 var niðurstaðan sú að samsömun við stjórnmálaflokk í ríkisstjórn var eini áhrifaþátturinn sem sýndi marktæka breytingu milli tímapunkta. Samsömun við ríkisstjórnarflokk var eitt mikilvægasta forspágildið fyrir pólitískt traust árið 2004 meðan áhrif þess var hverfandi árið 2012. Greiningin á 2016 gögnum sýnir að áhrif samsömunar við ríkisstjórnarflokk á pólitískt traust er aftur að aukast en það hefur samt engan veginn náð sama vægi og það hafði á árunum fyrir hrun.
Rannsóknin sýnir að heilt yfir er það mat almennings á stöðu efnahagsmála sem er sá þáttur sem hefur hvað mest áhrif á hvort fólk segist bera traust til stjórnvalda eða ekki. Hinn mikli efnahagsuppgangur undanfarinna ára hefur samt sem áður ekki dugað til að fá Íslendinga til að treysta Alþingi í sama mæli og þeir gerðu fyrir hrun. Niðurstöðurnar benda til þess að pólitíska umrótið og uppstokkunin í flokkakerfinu eftir hrun er að hafa langvarandi áhrif á traust almennings til Alþingis og annarra pólitískra stofnanna stjórnkerfisins.
Doktorsvörn í stjórnmálafræði - Sjöfn Vilhelmsdóttir