3/2025
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR
Ár 2025, fimmtudaginn 6. mars var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson (á fjarfundi), Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, María Heimisdóttir (varamaður fyrir Elísabet Siemsen), Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir, og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi). Katrín Atladóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig.
1. Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og óskaði Viktor Pétur eftir því að leggja fram tvær bókanir undir liðnum „önnur mál“ og gerðu aðrir fundarmenn ekki athugasemd við það. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.
2. Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a. Meðhöndlun happdrættisfjár, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir hugmyndum um framtíðarfyrirkomulag ráðstöfunar ágóða af rekstri Happdrættis Háskóla Íslands í þágu bygginga skólans og samskiptum við fjármálaráðuneytið þar að lútandi. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá ráðsins.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.
b. Drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2024.
Jenný Bára fór yfir framlögð drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2024. Fram kom að smávægileg vinna er eftir við að ljúka við gerð ársreikningsins og mun endurskoðunarnefnd háskólaráðs fara yfir reikninginn áður en lokaútgáfa verður lögð fyrir háskólaráð til afgreiðslu á næsta fundi. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum. Lýstu fulltrúar í háskólaráði ánægju með vinnubrögð Jennýjar Báru og samstarfsfólks hennar.
c. Ráðstöfun ágóða af sölu eignar.
Rektor greindi frá því að undirritaður hefur verið kaupsamningur vegna fasteignarinnar Skólabæjar og er ráðgert að ráðstafa söluandvirðinu til að stofna styrktarsjóð til eflingar kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands. Fyrir fundinum lágu drög að skipulagsskrá fyrir Styrktarsjóð Skólabæjar. Málið var rætt og rektor falið að vinna áfram að málinu á grunni framlagðra draga.
d. Þróun fjárveitinga og starfsemi Háskóla Íslands.
Rektor og Guðmundur R. fóru yfir margvísleg gögn um þróun fjárveitinga, fjölda starfsfólks og nemenda, sem og afköst og árangur í kennslu og rannsóknum á undanförnum árum. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur R. spurningum.
Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.
3. Skýrsla starfshóps um málefni fötlunarfræði.
Inn á fundinn komu Kristinn Andersen, sviðsstjóri kennslusviðs, og Ólafur Páll Jónsson, prófessor og forseti Deildar menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði, en þeir áttu sæti í starfshópi um fýsileikagreiningu á mögulegum flutningi námsbrautar í fötlunarfræði frá Félagsvísindasviði til Menntavísindasviðs. Gerðu þeir Ólafur Páll og Kristinn grein fyrir skýrslunni, en þar er lagt til að fötlunarfræðin flytjist frá Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild til Deildar menntunar og margbreytileika sumarið 2026. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.
Kristinn og Ólafur Páll viku af fundi.
4. Skipan deilda Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu erindisbréfi nefndar um endurskoðun á deildaskipan Háskóla Íslands ásamt tillögu um skipan nefndarinnar. Fram kom að gert er ráð fyrir að nefndin skili af sér drögum að niðurstöðu á fundi háskólaráðs í júní nk. Málið var rætt.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð þeim Ólafi Pétri Pálssyni, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, formaður, Guðmundi Frey Úlfarssyni, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Haraldi Bernharðssyni, dósent við Íslensku- og menningardeild, Hugvísindasviði, Sigurbjörgu Guðmundsdóttur laganema, fulltrúa nemenda, Sædísi Sævarsdóttur, prófessor við Læknadeild, Heilbrigðisvísindasviði, Torfa Hjartarsyni, lektor við Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, og Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttur, prófessor við Stjórnmálafræðideild, Félagsvísindasviði.
Kaffihlé.
5. Málefni Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson og Hilmar Þór Kristinsson, framkvæmdastjóri Fasteigna Háskóla Íslands ehf. Katrín Jakobsdóttir, formaður stjórnar Fasteigna Háskóla Íslands ehf., Hilmar Þór og Guðmundur R. gerðu grein fyrir stöðu mála og áætlunum félagsins fyrir tímabilið 2025-2030, áætlunum vegna framkvæmda við nýtt heilbrigðisvísindahús og endurbætur á Læknagarði, stöðu mála varðandi fé frá Happdrætti Háskóla Íslands (sjá einnig lið 2a á dagskrá þessa fundar). Einnig greindu þau frá stöðu mála varðandi fjármögnun framkvæmda við Sögu og Eddu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Katrín, Hilmar og Guðmundur R. spurningum.
Guðmundur R. og Hilmar viku af fundi.
6. Starfsheiti, sbr. síðasta fund, og drög þríhliða samkomulags um háskólasamstæðu.
a. Tillaga um breytt starfsheiti akademískra starfsmanna.
Inn á fundinn komu Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og samfélags, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, og gerðu grein fyrir framkomnum umsögnum um tillögu um breytt starfsheiti við Háskóla Íslands sem kynnt var á síðasta fundi. Málið var rætt og svöruðu Ingibjörg og Halldór spurningum. Í tillögunni felst m.a. að starfsheitið „rannsóknasérfræðingur“ verði aflagt. Þeir sem gegna þessu starfi eru að jafnaði fyrrverandi „nýdoktorar“ í tímabundnu starfi við rannsóknir sem fjármagnað er með rannsóknastyrk eða öðrum sértekjum. Miðað er við að þeir sem nú þegar hafa starfsheitið rannsóknasérfræðingur haldi því þar til ráðningarsamningur rennur út. Annars gildir almennt eftirleiðis að fyrrverandi nýdoktorar geti verið ráðnir tímabundið í starfsheitið „rannsakandi“ eða eftir atvikum „rannsóknalektor“, „rannsóknadósent“ eða „rannsóknaprófessor“, að því gefnu að skilyrði um fjármögnun og hæfnisdóm séu uppfyllt. Gert er ráð fyrir að tillaga að viðeigandi breytingum á reglum verði lögð fram sem bókfært mál á næsta fundi ráðsins.
– Samþykkt.
b. Drög þríhliða samkomulags um háskólasamstæðu, sbr. fund háskólaráðs 9. janúar sl.
Rektor, Ingibjörg og Halldór greindu frá stöðu mála varðandi gerð þríhliða samkomulags um háskólasamstæðu HÍ og Háskólans á Hólum. Málið var rætt og rektor falið að vinna áfram að því.
7. Bókfærð mál.
a. Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 5. gr. reglna nr. 331/2022 um inntökuskilyrði í grunnnám. [Varðar inntökuskilyrði í Hagfræðideild.]
– Samþykkt.
f. Gæðastefna og gæðakerfi Háskóla Íslands.
– Samþykkt.
g. Tillaga að breytingu á skipan framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið.
– Samþykkt. Katrín Jakobsdóttir kemur inn í nefndina og tekur við formennsku af Guðmundi R. Jónssyni sem áfram situr í nefndinni.
8. Önnur mál.
Viktor Pétur Finnsson lagði fram tvær bókanir:
„Því er fagnað að inntökupróf í læknisfræði og tannlæknisfræði séu nú aðgengileg á Akureyri og þeim þakkað sem að þeirri ákvörðun komu. Þetta hefur verið mikið baráttumál Vöku og vonast er til þess að hægt verði að þreyta prófin á fleiri stöðum á landsbyggðinni að ári liðnu ásamt því sem að námsframboð verði tryggt fyrir íbúa annars staðar á landinu en hér á höfuðborgarsvæðinu. Fjarnám og málefni hinna dreifðari byggða og foreldra hafa verið stór baráttumál Vöku og er hverju skrefi í átt að bættari stöðu þessara hópa innan háskólans fagnað eins og Vaka hefur sýnt með baráttu undanfarin ár, s.s. gegn gjaldtöku á bílastæðum.“
„Mál sjúkra- og endurtökuprófa hafa ekki verið á dagskrá funda háskólaráðs nýlega. Af þeim sökum er því komið á framfæri að öllum deildum og námsbrautum skólans verði skylt að halda úti sjúkra- og endurtökuprófum fyrir nemendur, óháð vilja eða afstöðu kennara einstakra námskeiða. Er þetta stórt vandamál fyrir nemendur í sálfræði og lyfjafræði, svo dæmi séu tekin, sem bæta verður úr. Tryggja verður að allir nemendur háskólans fái tryggð réttindi sín og hagsmunir þeirra varðir innan skólans.“
9. Mál til fróðleiks.
a. Upplýsingafundur rektors 20. febrúar 2025.
b. Jón Atli Benediktsson kjörinn í Bandarísku verkfræðiakademíuna.
c. Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 21. febrúar 2025.
d. Háskóladagurinn 1. mars 2025.
e. Fréttabréf háskólavina, 26. febrúar 2025.
f. Skýrsla EUN um evrópsku háskólanetin.
g. Verðlaun Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna.
h. Geir og Jónína heiðruð fyrir rannsóknasamstarf í Gíneu-Bissá.
i. Upplýsingasíður um rektorskjör opnaðar.
j. 80 ára afmæli tannlæknanáms á Íslandi.
k. Sigurvegari í frumkvöðlakeppninni Gullegginu 2025.
l. Jón Atli Benediktsson og Guðmundur Fertram Sigurjónsson hljóta heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright.
m. Úthlutun úr Tækjakaupasjóði 2025.
n. Inntökupróf Læknadeildar og Tannlæknadeildar nú einnig á Akureyri.
Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.45.