Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 5. júní 2025

6/2025

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2025, fimmtudaginn 5. júní var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Gréta Dögg Þórisdóttir (varamaður fyrir Andra Má Tómasson), Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Silja Bára Ómarsdóttir, og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson. Elísabet Siemsen og Katrín Atladóttir boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig. 

Áður en gengið var til dagskrár færðu fulltrúar í háskólaráði Jóni Atla Benediktssyni, fráfarandi rektor Háskóla Íslands, blómvönd og þökkuðu honum fyrir gott og gjöfult samstarf, en þetta var 112. og jafnframt síðasti fundur ráðsins sem hann stýrði.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Silja Bára frá því að hún myndi ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliða 4 og 8c. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Meðhöndlun happdrættisfjár, sbr. síðasta fund.
Rektor greindi frá stöðu mála varðandi mögulegt fyrirkomulag ráðstöfunar ágóða af rekstri Happdrættis Háskóla Íslands til Fasteigna Háskóla Íslands ehf. Málið var rætt og samþykkt að rektor sendi fjámálaráðherra bréf og ítreki fyrra erindi vegna málsins, en áríðandi er að fá niðurstöðu í málið. 

b.    Rekstraryfirlit janúar-apríl 2025.
Jenný Bára fór yfir rekstraryfirlit fyrir tímabilið janúar-apríl 2025. Málið var rætt og kom m.a. fram að reksturinn er í jafnvægi. 

Jenný Bára vék af fundi.

c.    Niðurstaða útboðs á þjónustu við rekstur bílastæða á lóðum Háskóla Íslands og næstu skref, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og greindi frá niðurstöðu útboðs á þjónustu við rekstur bílastæða á lóðum Háskóla Íslands og áætlun um innleiðingu gjaldskyldu fyrir bílastæðin í haust. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum. 

d.    Staða framkvæmda- og viðhaldsverkefna, sbr. fund ráðsins 9. janúar sl.
Kristinn fór yfir framlagt yfirlit um yfirstandandi og áformuð framkvæmda- og viðhaldsverkefni á árinu 2025, þ.m.t. mögulega fjármögnun fyrstu áfanga þróunaráætlunar fyrir háskólasvæðið sem samþykkt var í háskólaráði og borgarráði í desember sl. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

e.    Staða flutnings í Sögu.
Kristinn fór yfir stöðu mála varðandi framkvæmdir og flutning Menntavísindasviðs, upplýsingatæknisviðs og fleiri starfseininga í Sögu á næstu vikum og mánuðum. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum. Fram kom m.a. að bygging nýs heilbrigðisvísindahúss í tengslum við nýjan Landspítala verður kynnt á næsta fundi ráðsins. 

f.    Eignir utan Fasteigna Háskóla Íslands ehf.
Kristinn gerði grein fyrir málefnum jarðarinnar Herdísarvíkur sem er eign Háskóla Íslands. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs. 

Guðmundur og Kristinn viku af fundi. 

g.    Innleiðing breytts útreiknings á tímafjölda að baki námskeiða og mögulega samræmingu, sbr. samþykkt háskólaráðs 27. júní sl. Staða mála á einstökum fræðasviðum.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og stefnu, og gerði ásamt Ólafi Pétri grein fyrir stöðu mála varðandi breyttan útreikning á tímafjölda að baki námskeiða og mögulega samræmingu, sbr. samþykkt háskólaráðs 27. júní sl. Málið var rætt og svöruðu Ólafur Pétur og Steinunn spurningum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Steinunn vék af fundi.

h.    Málefni Keilis.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, fulltrúi í starfshópi um framtíð aðfararnáms undir merkjum Háskólabrúar Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði með tillögum um framtíðarfyrirkomulag aðfararnámsins. Málið var rætt og svaraði Halldór spurningum.
– Samþykkt að rektor vinni áfram að málinu í samræmi við framlagt minnisblað. 

Halldór vék af fundi. 

3.    Málefni háskólaráðs.
a.    Skilagrein starfshóps háskólaráðs um störf ráðsins á undangengnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs.

Ólafur Pétur gerði grein fyrir skilagrein starfshóps háskólaráðs, sem skipaður var á fundi ráðsins 3. apríl sl., um störf ráðsins á undangengnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs. Starfshópurinn var skipaður þeim Ólafi Pétri Pálssyni, varaforseta háskólaráðs, Katrínu Atladóttur, Elísabetu Siemsen, og Andra Má Tómassyni. Málið var rætt. Í skilagreininni eru ekki lagðar til breytingar á starfsháttum og starfsreglum ráðsins. 

b.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2024-2025. Lokaniðurstaða.
Rektor fór yfir framlagt uppgjör funda- og starfsáætlunar háskólaráðs starfsárið 2024-2025, sem upphaflega var samþykkt í ráðinu 3. október 2024.
– Samþykkt. 

4.    Niðurstaða millifundanefndar háskólaráðs um ábendingar í skýrslu kjörstjórnar og almennt um fyrirkomulag kosningar til embættis rektors, sbr. síðasta fund.
Ólafur Pétur gerði grein fyrir niðurstöðu millifundanefndar háskólaráðs um ábendingar í skýrslu kjörstjórnar og almennt um fyrirkomulag kosningar til embættis rektors, sbr. síðasta fund. Í millifundanefndinni sátu, auk Ólafs sem var formaður, Katrín Atladóttir, Katrín Jakobsdóttir, og Viktor Pétur Finnsson. Starfshópurinn leggur til nokkrar breytingar á 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og á verklagsreglum um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag kosningar til embættis rektors Háskóla Íslands og gerð kjörskrár. Málið var rætt.
– Samþykkt. Silja Bára tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

5.    Drög niðurstöðu nefndar um endurskoðun á deildaskipan Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 6. mars sl.
Ólafur Pétur fór yfir starf nefndar um endurskoðun á deildaskipan Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 6. mars sl. Í nefndinni sátu, auk Ólafs sem var formaður, Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor, tilnefndur af Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Haraldur Bernharðsson, dósent, tilnefndur af Hugvísindasviði, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, tilnefnd af Stúdentaráði, Sædís Sævarsdóttir, prófessor, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði, Torfi Hjartarson, lektor, tilnefndur af Menntavísindasviði, og Þorgerður Jennýjardóttir Einarsdóttir, prófessor, tilnefnd af Félagsvísindasviði. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs. 

Kaffihlé.

6.    Erindisbréf starfsnefnda háskólaráðs og skipan þeirra.
Rektor gerði grein fyrir framlögðum drögum að breyttu erindisbréfi skipulagsnefndar háskólasvæðisins. Fyrir liggur að meginverkefni fyrri skipulagsnefndar var að móta þróunaráætlun fyrir háskólasvæðið í samvinnu við Reykjavíkurborg og var ný þróunaráætlun samþykkt í háskólaráði og borgarráði í desember sl. Helsta viðfangsefni nýrrar skipulagsnefndar verður að hrinda áætluninni í framkvæmd. Lagt er til að Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor, verði formaður nefndarinnar tímabilið 2025-2028 og verðandi rektor verði falið að ganga frá skipun nefndarinnar í samræmi við erindisbréfið. Þá verði sú breyting á erindisbréfum vísindanefndar og kennslumálanefndar að ekki verði kveðið á um að aðstoðarrektor vísinda og samfélags annars vegar og aðstoðarrektor kennslumála og stefnu hins vegar gegni því hlutverki frá 1. júlí nk.
– Samþykkt. 

7.    Frá vísindanefnd háskólaráðs og vísinda- og nýsköpunarsviði:
a.    Rammi um stuðning við umsækjendur og styrkþega ERC styrkja.
Inn á fundinn komu Ingibjörg Gunnarsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og samfélags, og Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs. Gerðu þau grein fyrir tillögu aðstoðarrektors vísinda og vísinda- og nýsköpunarsviðs um aukinn og markvissan stuðning við sókn í rannsóknasjóði. Málið var rætt og svöruðu Ingibjörg og Halldór spurningum. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs og unnin verða drög að verklagsreglum fyrir komandi haustmisseri. 

b.    Tillaga að sjóði til að standa straum af kostnaði við birtingar í opnum aðgangi. 
Halldór og Ingibjörg gerðu grein fyrir tillögu vísindanefndar háskólaráðs og vísinda- og nýsköpunarsviðs um stofnun sérstaks birtingasjóðs til að standa straum af kostnaði við birtingar í opnum aðgangi. Málið var rætt og svöruðu Ingibjörg og Halldór spurningum. 
– Samþykkt að veita 5 m.kr. til sjóðsins á árinu 2025 og að fjármálanefnd fjalli í framhaldinu um hvernig verður háttað fjármögnun til framtíðar um leið og undirbúin verði drög að verklagsreglum. Ungt vísindafólk, einkum doktorsnemar, njóti forgangs um styrki. 

8.    Bókfærð mál.
a.    Nýr fulltrúi í stjórn Fasteigna Háskóla Íslands ehf. verði Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, og komi í stað Silju Báru Ómarsdóttur, verðandi rektors.

– Samþykkt. 

b.    Nýr formaður heiðursdoktorsnefndar frá 1. júlí nk. Verðandi rektor falið að ganga frá skipan.
– Samþykkt. 

c.    Tilnefning nýs fulltrúa í stjórn Stofnunar Ólafs Ragnars Grímssonar. Silja Bára Ómarsdóttir, verðandi rektor, komi í stað Jóns Atla Benediktssonar rektors frá 1. júlí nk.
– Samþykkt. Silja Bára tók ekki þátt í afgreiðslu málsins. 

d.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingum á reglum um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands nr. 60/2019. Varðar inntökuskilyrði í Lyfjafræðideild.
– Samþykkt. 

e.    Tillaga að breytingu á B-lið viðauka í reglum nr. 244/2014. 
– Samþykkt. 

f.    Verklagsreglur um veitingu námsleyfa til framhaldsnáms eða starfs- og endurmenntunar. Tillaga um málsmeðferð. 
– Samþykkt. 

g.    Drög að samstarfssamningi Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar.
– Samþykkt.

h.    Frá kennslumálanefnd háskólaráðs: Tillaga að breytingu á verklagsreglu um stofnun nýrra námsleiða og örnáms (VLR-0057).
– Samþykkt. 

9.    Mál til fróðleiks.
a.    Úthlutun úr kennslumálasjóði 2025.
b.    Úthlutun úr doktorsstyrkjasjóði Háskóla Íslands.
c.    Stjórn Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum 2025-2028.

– Skipan stjórnar 1.7.2025-30.6.2028: Magnús Karl Magnússon, prófessor, formaður; Sigrún Ólafsdóttir, prófessor við Félagsvísindasvið, varamaður Stefan Celine Hardonk, dósent; Engilbert Sigurðsson, prófessor, Heilbrigðisvísindasviði, varamaður Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor; Ólöf Garðarsdóttir prófessor, Hugvísindasviði, varamaður N.N.; Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor, Menntavísindasviði, varamaður Ástríður Stefánsdóttir, prófessor; Sigrún Helga Lund, prófessor, Verkfræði- og náttúruvísindasviði, varamaður Ebba Þóra Hvannberg, prófessor.
d.    Ráð um málefni fatlaðs fólks.
e.    Umsögn Háskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  og Félagsstofnunar stúdenta um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands, deiliskipulag vestan Suðurgötu, vegna lóðarinnar nr. 1 við Birkimel.
f.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 28. maí 2025.
g.    Nýsköpunarstarf í Háskóla Íslands aldrei verið blómlegra.
h.    Ólöf Garðarsdóttir áfram sviðsforseti Hugvísindasviðs.
i.    Drög dagatals Háskóla Íslands 2025-2026.
j.    Sniðgönguyfirlýsing Íslensku- og menningardeildar maí 2025. 

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.