Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 15. janúar 2026

1/2026

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2026, fimmtudaginn 15. janúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Silja Bára R. Ómarsdóttir, Andri Már Tómasson, Arnar Þór Másson, Davíð Þorláksson, Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Atladóttir, Katrín Jakobsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Ragný Þóra Guðjohnsen og Viktor Pétur Finnsson. Fundinn sat einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð. Elísabet Siemsen boðaði forföll og varamaður hennar einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt, undirrituð rafrænt og birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og sagðist Hólmfríður ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 6 og Arnar Þór ekki í afgreiðslu liðar 8d. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun:
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a.    Fjárlög ársins 2026 og tillaga fjármálanefndar háskólaráðs að skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Rektor, Guðmundur R. og Jenný Bára gerðu grein fyrir tillögum fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands á árinu 2026. Málið var rætt og kom m.a. fram að vegna aðhaldskröfu stjórnvalda og aukins rekstrarkostnaðar er útlit fyrir mjög erfiðan rekstur á árinu. Einnig kom fram að stjórnvöld hafa heimilað hækkun skrásetningargjalds sem kemur til framkvæmda við inntöku nemenda í haust. Nú þegar hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að draga úr kostnaði.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Háskóli Íslands er fjársveltur. Það er hins vegar óásættanlegt að vanfjármögnun sé velt yfir á stúdenta. Fjármögnun Háskóla Íslands er á ábyrgð stjórnvalda, ekki stúdenta.“

– Tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga innan Háskóla Íslands 2026 samþykkt, en Hólmfríður, Andri Már og Viktor Pétur sátu hjá. 

b.    Rekstraráætlanir einstakra starfseininga fyrir árið 2026, sbr. síðasta fund.
Jenný Bára gerði grein fyrir rekstraráætlunum fræðasviða og sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands fyrir árið 2026. Málið var rætt. 

Guðmundur R. og Jenný Bára viku af fundi.

c.    Tillaga að framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2026 ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og gerði grein fyrir framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2026 ásamt drögum áætlunar fyrir næstu ár, sbr. síðasta fund. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum fulltrúa í háskólaráði. 

Kristinn vék af fundi.

– Framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2026 samþykkt einróma. 

3.    Stofnunarúttekt Gæðamats háskóla og undirbúningur mótunar nýrrar heildarstefnu fyrir Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Þór Hauksson, stefnu- og gæðastjóri, og gerði grein fyrir stofnunarúttekt Gæðamats háskóla og mótun nýrrar heildarstefnu fyrir Háskóla Íslands sem fram fer á þessu ári. Málið var rætt ítarlega og svaraði Þór spurningum.

Þór vék af fundi.

Kaffihlé.

4.    Starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2026.
Sigurjón Guðbjörn Geirsson, innri endurskoðandi, kom inn á fundinn, fór yfir framlagða starfsáætlun innri endurskoðunar fyrir árið 2026. Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar, greindi frá aðkomu nefndarinnar að málinu og var það rætt.

Sigurjón vék af fundi.

– Endurskoðunaráætlun fyrir árið 2026 samþykkt einróma.

5.    Málefni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, og Hrólfur Jónsson, formaður byggingarnefndar Djúptækniseturs HÍ. 

a.    Starfsemi Vísindagarða. Staða mála.
Sigurður Magnús og Þórey fóru yfir stefnu, starfsemi og framtíðaráform Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Málið var rætt og svöruðu Sigurður Magnús, Þórey og Hrólfur spurningum ráðsmanna. Ráðgert er að þau komi aftur inn á næsta fund háskólaráðs til að greina frá áformum um byggingu Djúptækniseturs.

b.    Umsókn Alvotech um lóðir. 
Sigurður Magnús og Þórey skýrðu frá umsókn Alvotech um lóðir til frekari uppbyggingar fyrirtækisins á svæði Vísindagarða. Málið var rætt og svöruðu Sigurður Magnús og Þórey spurningum. Fram kom að ráðgert er að Alvotech hefji samtal við Reykjavíkurborg um breytingu á deiliskipulagi og að Vísindagarðar hefji viðræður við Alvotech um lóðaleigusamning sem er sambærilegur við núverandi samning. Að þeim viðræðum loknum verði drög að lóðaleigusamningi lögð fyrir háskólaráð. 

Sigurður Magnús, Þórey og Hrólfur viku af fundi. 

6.    Tillaga um kjör heiðursdoktors við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild. 
Rektor gerði grein fyrir tillögu Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar um kjör heiðursdoktors, en tillagan hefur verið samþykkt af heiðurdoktorsnefnd, deildarráði Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar og stjórn Félagsvísindasviðs. Málið var rætt. Bent var á að tillagan er samþykkt af deildarráðsfundi, en skv. 67. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er krafist samþykkis deildarfundar. 

Hólmfríður Garðarsdóttir tók ekki þátt í afgreiðslu málsins. 

– Samþykkt með fyrirvara um samþykki deildarfundar Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar.

7.    Fyrirhuguð endurskoðun á reglusafni Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá áformaðri endurskoðun á sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og tengdum reglum sem gilda fyrir einstakar skipulagseiningar og þætti í starfsemi Háskóla Íslands. Trausti Fannar Valsson, dósent við Lagadeild, mun leiða vinnuna og kynna áætlun um hana á næsta fundi ráðsins.

8.    Bókfærð mál.
a.    Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár 2026-2027.
– Samþykkt.

b.    Frá kennslusviði:

Félagsvísindasvið:
b1.    Breyting á reglum nr. 331/2022 vegna breytinga á inntökuskilyrðum í Félagsráðgjafardeild og Viðskiptafræðideild.

– Samþykkt.

b2.    Breyting á reglum nr. 569/2009 vegna flutnings námsbrautar í fötlunarfræðum yfir til Menntavísindasviðs. Í tillögunni er einnig erindi frá Menntavísindasviði.
– Samþykkt.

b3.    Breyting á 92. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 vegna breytinga á heiti námsleiða í Stjórnmálafræðideild. 
– Samþykkt.

Heilbrigðisvísindasvið:

b4.    Breyting á reglum nr. 153/2010 vegna takmörkunar á inntöku nemenda í sálfræði.
– Samþykkt.

b5.    Breyting á reglum nr. 155/2011 og 331/2022 vegna breytinga á inntökuskilyrðum í tannlæknadeild.
– Samþykkt.

b6.    Breyting á reglum nr. 331/2022 vegna kröfu um íslenskukunnáttu í deildum innan Heilbrigðisvísindasviðs.
– Samþykkt.

Hugvísindasvið:
b7.    Breyting á reglum nr. 331/2022 vegna kröfu um íslenskukunnáttu í deildum innan Hugvísindasviðs.

– Samþykkt.

Menntavísindasvið:
b8.    Breyting á reglum nr. 569/2009 vegna breytinga námsleiða innan Menntavísindasviðs.

– Samþykkt.

b9.    Breyting á reglum nr. 569/2009 og 440/2018 vegna breytinga á doktorsnámi innan sviðsins.
– Samþykkt.

b10.    Breyting á reglum nr. 331/2022 vegna kröfu um sakavottorð vegna náms í þroskaþjálfafræði.
– Samþykkt.

b11.    Breyting á reglum nr. 501/2011 vegna kröfu um íslenskukunnáttu í meistaranámi sem leiðir til leyfisbréfs kennara.
– Samþykkt.

Annað:
b12.    Breyting á reglum nr. 244/2014 vegna leiðréttingar frá fundi háskólaráðs 4. desember sl.

– Samþykkt.

b13.    Tillaga að breytingu á lokadegi úrsagnar úr námskeiði/prófi í HÍ á haustmisseri.
– Samþykkt.

c.    Breytt fyrirkomulag á ráðstöfun á ágóða Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d.    Fulltrúar í stjórn Sprota – eignarhaldsfélags Háskóla Íslands 2026.
– Samþykkt. Arnar Þór Másson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins. 

e.    Varamaður í kærunefnd í málefnum nemenda. 
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 17. desember 2025.
b.    Þrír fræðimenn hlutu fálkaorðuna á nýársdag.
c.    Uppskeruhátíð Snjallræðis.
d.    Gervigreindarsetur Háskóla Íslands formlega opnað.
e.    Fjórða sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands.
f.    Tilnefning fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Stofnunar Gunnars Gunnarssonar.
g.    Erindi rektors til öryggisnefndar um reglur og verklag í tengslum við viðburði, m.t.t. öryggissjónarmiða.
h.    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á vormisseri 2026.
i.    Yfirlýsing Mála- og menningardeildar um akademíska sniðgöngu. 
j.    Uppfært dagatal Háskóla Íslands 2025-2026.
k.   Úthlutun verkefnastyrkja úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2026.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.