Skip to main content
11. desember 2025

Gervigreindarsetur HÍ nýr vettvangur rannsóknasamstarfs og miðlunar til samfélagsins

Gervigreindarsetur HÍ nýr vettvangur rannsóknasamstarfs og miðlunar til samfélagsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gervigreindarsetur Háskóla Íslands var formlega opnað í dag en því er í senn ætlað að vera vettvangur fyrir samstarf í rannsóknum og þróun á sviðum gervigreindar og gagnavísinda þvert á fræðigreinar og farvegur fyrir miðlun þekkingar út í samfélagið. Setrinu er einnig ætlað hvetja til umræðu um ábyrga nýtingu þessarar nýju tækni.

Við opnun setursins í dag flutti fræðafólk af fjölbreyttum fræðasviðum innan Háskólans erindi um rannsóknir sínar, sem allar tengjast gervigreind eða gagnavísindum með einhverjum hætti, en jafnframt var efnt til pallborðs um hlutverk háskóla í þróun og nýtingu gervigreindar með þátttöku fulltrúa úr Háskólanum, frá hagsmunasamtökum, atvinnulífi og öðrum opinberum stofnunum. 

Hugmyndin að setrinu kviknaði þegar Sigrúnu Helgu Lund, prófessor í tölfræði, langaði að endurvekja Tölfræðimiðstöð HÍ þar sem hún hafði sjálf starfað á doktorsárum sínum. Hún fékk til liðs við sig Hafstein Einarsson, dósent í tölvunarfræði, Lottu Maríu Ellingsen, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, Hrefnu Dögg Gunnarsdóttur, lektor í lögfræði, og Elías Rafn Heimisson, rannsóknalektor í jarðeðlisfræði, og hófu þau saman undirbúning að nýju rannsóknasetri fyrir gervigreind og gagnavísindi. Verkefnið fékk strax góðan meðbyr og vilyrði fyrir fjármögnun og nú hefur verið ráðinn faglegur leiðtogi fyrir setrið, Stefanía Benónísdóttir, rannsóknalektor við Eðlisvísindastofnun HÍ. 

Húsfyllir var á opnun Gervigreindarsetursins í dag en þangað mættu aðilar að setrinu og fjölmargir aðrir gestir. MYND/Kristinn Ingvarsson

„Öllum rannsakendum við Háskóla Íslands, sem vinna að verkefnum tengdum gagnavísindum eða gervigreind, býðst að vera aðilar að setrinu. Með því að styðja rannsóknir og menntun á sviði gervigreindar og gagnavísinda stuðlar Gervigreindarsetrið að öflugu rannsóknasamfélagi sem ýtir undir nýsköpun og samfélagslega framþróun,“ segir Stefanía en nú þegar hafa hátt í 50 vísindamenn innan skólans gerst aðilar að setinu. 

Hún bendir á að setrinu sé jafnframt ætlað að auka sýnileika vísindafólks og auðvelda bæði stjórnvöldum og atvinnulífinu að leita til sérfræðinga þegar þörf er á fræðilegu áliti er varða gervigreind og gagnavísindi. „Þar að auki mun setrið vinna markvisst að því að auka aðgengi framhaldsnema að hagnýtum rannsóknarverkefnum. Loks skapar setrið þverfaglegan vettvang fyrir gagnrýnar og ábyrgar umræður um gervigreind, þar sem hægt er að fjalla opinskátt um bæði tækifæri og áskoranir á hlutlausan máta,“ segir Stefanía.

Sjálf vinnur Stefanía að rannsóknum sem snúa að svokölluðum úrtaksbjaga, aðstæðum þar sem gögn endurspegla ekki þann hóp eða veruleika sem við teljum að þau geri. „Þar sem gervigreind byggist á gögnum getur slíkur bjagi auðveldlega leitt til rangra niðurstaðna og mistúlkunar. Rannsóknir mínar tengjast þannig gagnatengdum áskorunum sem hafa þarf í huga þegar gervigreind er þróuð og hagnýtt,“ segir Stefanía.

Hægt er að kynna sér setrið og það vísindafólk sem þegar er aðilar að því á vefslóðinni ai.his.is en þar er m.a. að finna hlaðvörp um gervigreind og fróðleiksmola um tæknina.

Fleiri myndir frá opnuninni í dag má finna hér að neðan.

Stjórn hins nýja Gervigreindarseturs HÍ. Frá vinstri: Lotta María Ellingsen, prófessor í rafmangs- og tölvunvarfræði, Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði, Stefanía Benónísdóttir, rannsóknalektor og faglegur leiðtogi setursins, Hafsteinn Einarsson, dósent í tölvunarfræði, og Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lektor í lögfræði.