Skip to main content
5. janúar 2026

Þrír fræðimenn hlutu fálkaorðuna á nýársdag

Þrír fræðimenn hlutu fálkaorðuna á nýársdag - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þrír fræðimenn sem tengjast Háskóla Íslands, þau Guðrún Larsen jarðfræðingur, Kristján Kristjánsson heimspekingur og Pálmi V. Jónsson læknir, voru sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til vísinda, rannsókna og nýsköpunar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag. Þau voru í hópi fjórtán einstaklinga sem forseti Íslands veitti fálkaorðu að þessu sinni.

Guðrún Larsen, og vísindamaður emerita við Jarðvísindastofnun Háskólans, hlýtur fálkaorðu fyrir framlag til jarðvísinda og almannavarna.

Hún lauk BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og fjórða árs prófi frá Háskóla Íslands 1978 þar sem aðalgrein var gjóskulagafræði. Guðrún stundaði doktorsnám við Edinborgarháskóla á árunum 1998-2002 með fram starfi sínu við Háskóla Íslands.

Guðrún hefur starfað Jarðvísindastofnun Háskólans frá stofnun hennar 2004 en áður starfaði hún við Jarðfræðastofu Háskólans. Helstu rannsóknarverkefni Guðrúnar hafa verið gjóskutímatal sem tímasetningaraðferð og tæki í eldfjallarannsóknum. Hún hefur enn fremur rekið gossögu eldstöðvakerfa á ystra gosbeltinu svokallaða og sögu eldstöðva undir Vatnajökli. Þá hefur Guðrún unnið hættumat, einkum vegna jökulhlaupa og gjóskufalls, og eftir hana liggur á annað hundrað greina og bókakafla auk þess sem hún var einn aðalhöfunda hins mikla rits Náttúruvá á Íslandi - Eldgosa og jarðskjálfta sem Viðlagatrygging Íslands og Háskóli Íslands gáfu út árið út 2013. Guðrún hlaut viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2016 fyrir fræðastörf sín.

Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann í Birmingham og prófessor í heimspeki menntunar við Deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands, hlýtur fálkaorðu fyrir kennslu- og fræðistörf á vettvangi siðfræði og mannkostamenntunar.

Kristján lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1983, M.Phil prófi í heimspeki við University of St. Andrews á Skotlandi árið 1988 og doktorsprófi við sama skóla árið 1990. Hann starfaði við Háskólann á Akureyri á árunum 1991-2008 en var ráðinn prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands árið 2008. Því starfi hefur hann gegnt samhliða prófessorsstarfi við Háskólann í Birminghan frá árinu 2012.

Kristján er einn af okkar merkari heimspekingum en hann hefur lengi rannsakað siðferðisþroska og mannkostamenntun. Rannsóknir hans hafa einnig beinst að farsæld og menntun, siðferðismótun, menntunarsálfræði, siðfræði og stjórnmálaheimspeki. Eftir Kristján liggur á annað hundrað vísindagreina og bókakafla og þá hefur hann ritað 15 bækur, ýmist einn eða í samstarfi við aðra fræðimenn. Kristján hlaut viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright árið 2011 fyrir fræðastörf sín.

Pálmi V. Jónsson, lyf- og öldrunarlæknir og prófessor emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands, hlýtur fálkaorðu fyrir framlag til öldrunarlækninga og nýsköpunar í öldrunarþjónustu.

Pálmi lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1979 og bandarískum sérfræðiprófum í lyflækningum og öldrunarlækningum frá University of Connecticut og Harvard-háskóla. Eftir að hann sneri heim starfaði hann m.a. sem yfirlæknir öldrunarlækningadeildar Borgarspítala, forstöðulæknir lyflækninga- og endurhæfingarsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur og yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítala samhliða því að gegna prófessorsstarfi.

Pálmi beitti sér fyrir stofnun Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum og hann er einn upphafsmanna öldrunarrannsóknar Hjartaverndar. Þá hefur hann setið í stjórn InterRAI-samtakanna sem er hópur vísindamanna sem vinnur að þróun samhæfðra alþjóðlegra matstækja fyrir fólk með langvinna sjúkdóma sem nýtur þjónustu innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar. Rannsóknarverkefni Pálma hafa m.a. snúið að aldurstengdum breytingum í hjarta og blóðrásarbreytingum, faraldsfræði aldurstengdra breytinga og erfðabreytingum, einkum hvað varðar vitræna og líkamlega færni, faraldsfræði færnitaps, mat á heilbrigðis og félagsþjónustu og erfðafræði langlífis og Alzheimers-sjúkdóms. Eftir hann liggja m.a. yfir 200 vísindagreinar og þá hefur hefur stýrt tveimur Evrópurannsóknum á Íslandi og Norðurlandarannsókn sem snúa að aðferðarfræði InterRAI. Pálmi hlaut hvatningarstyrk Landspítala 2013 og var heiðursvísindamaður Landspítala 2015.

Handhafar fálkaorðunnar á nýársdag ásamt forsetahjónunum Höllu Tómasdóttur og Birni Skúlasyni. Guðrún er þriðja frá hægri og Pálmi fjórði frá vinstri en Kristján átti ekki heimangengt. M