Skip to main content
8. desember 2025

Fjórða sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands komin út

Fjórða sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands komin út  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands fyrir árið 2024 er nú aðgengileg á íslensku og ensku. 

Þetta er í fjórða sinn sem Háskóli Íslands gefur út sjálfbærniskýrslu og er útgáfan liður í skýrum áherslum skólans um forystu á sviði sjálfbærni. Háskólastofnanir gegna lykilhlutverki í að styðja við samfélagslegar umbreytingar í átt að sjálfbærri þróun, meðal annars með rannsóknum, menntun og samstarfi við samfélagið. Sjálfbærni og fjölbreytileiki eru einn af fjórum grunnstoðum stefnu HÍ fyrir árin 2021–2026 og eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna samþætt þessum áherslum.

Í skýrslunni er veitt heildaryfirsýn yfir víðfeðmt starf HÍ út frá sjálfbærnisjónarmiðum og hvernig unnið er að heimsmarkmiðunum í fjölbreyttu starfi skólans. Markmið sjálfbærniskýrslunnar er að styðja við áframhaldandi þróun sjálfbærnistarfs innan HÍ, efla skólann enn frekar í að takast á við hnattrænar áskoranir og leggja grunn að sjálfbærari framtíð. Þar er fjallað um rannsóknir, nám og kennslu, samfélagsleg áhrif og samstarf, rekstur og stjórnun, auk frumkvæðis og verkefna stúdenta við HÍ á árinu 2024.
Sjálfbærnihugsun innan sem utan HÍ er orðin órjúfanlegur hluti af starfsemi skólans og eru árlegar sjálfbærniskýrslur lykilverkfæri til að meta stöðu sjálfbærni og fylgjast með framvindu hennar.

Á alþjóðavísu er jafnframt vaxandi krafa um að háskólar geri grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starfsemi þeirra styður við sjálfbæra þróun. Slíkar úttektir eru meðal annars nýttar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum. Frá því að fyrsta sjálfbærniskýrsla HÍ var gefin út árið 2022 hefur HÍ hækkað á lista Times Higher Education yfir háskóla sem hafa mest samfélagslegt áhrifavald. Þar eru háskólar metnir út frá þeim þremur heimsmarkmiðum sem þeir skora hæst á, auk heimsmarkmiðs 17 um samstarf um markmiðin. Árið 2025 er HÍ í sæti 201–300 af rúmlega 2.300 háskólum sem taka þátt. 

Sjálfbærniskýrslan var unnin af Sjálfbærnistofnun HÍ að beiðni sjálfbærninefndar HÍ. 

Skýrslurnar í heild sinni má finna á vef HÍ.  
 

""