Vísindavefurinn og RÚV í samstarf um vísindamann vikunnar

Vísindavefur HÍ og RÚV hafa stofnað til samstarfs um vísindamann vikunnar og næstu tvo mánuði verða vikuleg viðtöl við einn íslenskan vísindamann, rannsóknir hans og annað fróðlegt efni, á dagskrá á mánudögum í þættinum Samfélagið á Rás 1.
Vísindafólkið er valið úr dagatali íslenskra vísindamanna sem Vísindafélag Íslands og Vísindavefurinn settu á laggirnar árið 2018, en í því var stuttum og aðgengilegum textum um 365 vísindamenn safnað saman í sérstakan flokk á Vísindavefnum.
Viðtölin við vísindamennina í Samfélaginu eiga meðal annars að bregða upp svipmynd af því fjölbreytta og blómlega rannsóknastarfi sem fram fer hér á landi og þýðingu þess fyrir samfélagið allt.
Fyrsti vísindamaður vikunnar er Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Læknadeild Háskóla Íslands, en hún sinnir meðal annars rannsóknum á sjálfsáti í frumum, eins konar sorphirðu- og endurvinnsluferli frumunnar.
Viðtölin verða send út vikulega á mánudögum og þau er einnig að finna í Sarpinum og á hlaðvarpsveitum.
