Skip to main content
27. nóvember 2019

Þekktustu matslistarnir undirstrika alhliða styrk Háskólans

""

Tveir af þekktustu matslistunum yfir bestu háskóla heims, Times Higher Education World University Rankings og Shanghai-listinn svokallaði, hafa í haust staðfest alþjóðlegan styrk Háskóla Íslands og undirstrikað breidd hans sem rannsóknarstofnunar. Háskóli Íslands hefur aldrei verið á fleiri listum Times Higher Education yfir fremstu skóla heims á afmörkuðum fræðasviðum, eða átta talsins, og þá telst hann m.a. í hópi sex bestu skóla heims í fjarkönnun, samkvæmt Shanghai-listanum. 

Tímaritið Times Higher Education hefur í allt haust birt lista yfir bestu háskóla heims á tilteknum fræðasviðum en einnig lista sem tekur til heildarstarfs skóla. Mat tímaritsins á frammistöðu háskóla byggist í öllum tilvikum á þrettán þáttum í starfi skólanna, m.a. rannsóknastarfi, áhrifum rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Auk þess að komast á aðallista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims er háskólinn, samkvæmt mati tímaritisins, í:

•    126.-150. sæti á sviði lífvísinda
•    151.-200. sæti á sviði verkfræði og tækni
•    201.-250. sæti á sviði raunvísinda
•    251.-300. sæti á sviði félagsvísinda
•    251.-300. sæti á sviði sálfræði
•    251.-300. sæti á sviði hugvísinda
•    301.-400. sæti á sviði menntavísinda
•    401.-500. sæti á sviði klínískra heilbrigðisvísinda

Að Shanghai-listanum vel þekkta stendur ShanghaiRanking Consultancy og taka listar stofnunarinnar bæði til starfs háskóla í heild og fræðasviða náttúruvísinda, lífvísinda, læknavísinda, verkfræði og félagsvísinda. Listarnir grundvallast á birtingu vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum hvers skóla, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hjóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt innan einstakra fræðagreina.

Samkvæmt Shanghai-listanum er Háskóli Íslands í 401.-500. sæti á heildarlistanum yfir bestu háskóla heims 2019. Þá er hann í:
•    6. sæti á sviði fjarkönnunar 
•    76.-100. sæti á sviði jarðvísinda 
•    100.-150. sæti á sviði hjúkrunarfræði
•    151.-200. æti á sviði lífvísinda
•    201.-300. sæti á sviði landfræði 
•    301.-400. sæti á sviði líffræði mannsins 
•    301.-400. sæti á sviði loftslagsvísinda
•    301.-400. sæti á sviði klínískrar læknisfræði
•    301.-400. sæti á sviði lýðheilsuvísinda
•    401.-500. æti á sviði eðlisfræði 
•    401.-500. sæti á sviðið vistfræði

Háskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem kemst á báða þessa lista. Frammistaða skólans samkvæmt þessu mati Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy undirstrikar bæði aukna breidd hans og styrk á alþjóðavettvangi. Hvort tveggja hefur skilað sér í auknum möguleikum á samstarfi við háskóla um allan heim, starfsmönnum og stúdentum og samfélaginu öllu til mikilla heilla.

Útsýni úr Aðalbyggingu