Stofna hagsmunafélag kvenna í upplýsingatækni við HÍ
Stofnfundur Ada, hagsmunafélags kvenna í upplýsingatækni við Háskóla Íslands, fór fram í Háskóla Íslands þriðjudaginn 11. september sl. Allir nemendur Verkfræði- og náttúruvísindasviðs geta gengið í félagið en tilgangur þess er að búa til vettvang fyrir konur í upplýsingatækni innan skólans.
Félagið vill m.a. minnka brotfall kvenna í tölvunarfræði sem og hugbúnaðarverkfræði en þess má geta að árið 2017 voru konur 28% af skráðum nemendum og árið 2018 eru þær 25% af nýnemum innan þessara faga. Til þess að minnka brottfall vill félagið bæði fræða tilvonandi nemendur og styðja við núverandi nemendur. Vettvangnum er jafnframt ætlað að vera öruggt umhverfi fyrir konur til þess að mynda tengsl, deila reynslu og styðja við bakið hver á annarri og stuðla að sýnileika kvenfyrirmynda innan upplýsingatæknigeirans.
Á fyrsta fund félagsins komu fulltrúar frá VERTOnet, hagsmunasamtaka kvenna í upplýsingatæknifyrirtækjum á Íslandi, og kynntu starf sitt og þá var einnig kjörin fyrsta stjórn Ada. Í henni sitja:
Formaður: Sara Björk Másdóttir
Varaformaður: Kristjana Björk Barðdal
Ritari: Valgerður Kristinsdóttir
Gjaldkeri: Ásdís Erla Jóhannsdóttir
Meðstjórnendur: Emma Líf Jónsdóttir og Jóhanna Karen Birgisdóttir
Varamenn: Ásta Lára Magnúsdóttir, Hugrún Guðmundsdóttir, Una Rúnarsdóttir og Birta Dögg Skaftadóttir