Skipulags- og samgöngumál rædd á Háskólaþingi

Hugmyndir um nýtt heildarskipulag háskólasvæðisins og mögulega framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á svæðinu verða aðalumfjöllunarefni Háskólaþings Háskóla Íslands sem haldið verður í 23. sinn föstudaginn 3. maí kl. 13.30-16 í Hátíðasal skólans.
Hægt er að fylgjast með þinginu í beinni útsendingu.
Tvö mál eru formlega á dagskrá þingsins. Fyrst fer rektor yfir þau mál sem efst eru á baugi innan Háskólans en í framhaldinu tekur við tvískipt umræða um skipulags- og samgöngumál á háskólasvæðinu.
Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólasvæðisins, kynnir stuttlega starf nefndarinnar sem sett var á laggirnar fyrir rúmu ári og hefur unnið að undirbúningi nýs heildarskipulags fyrir háskólasvæðið. Í framhaldinu kynna þeir Orri Steinarsson, arkitekt og meðeigandi jvantspijker & partners, og Huub Jurlink, forstjóri Juurlink [+] Geluk, fyrstu hugmyndir um framtíðarskipulag háskólasvæðisins, en þeir hafa verið skipulagsnefndinni til ráðgjafar. Að loknu kaffihléi verða umræður um hugmyndirnar.
Í framhaldi af því kynnir Sigríður Sigurðardóttir, arkitekt og sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, mögulega framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á háskólasvæðinu og umræður um hugmyndirnar fara svo fram í kjölfarið.
Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega stefnu Háskóla Íslands og á því eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði. Um 90 manns sækja háskólaþing að þessu sinni.
