Rúmlega 2000 brautskráð frá Háskóla Íslands á morgun

Háskóli Íslands brautskráir rúmlega 2000 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi á morgun, laugardaginn 22. júní, í Laugardalshöll. Líkt og undanfarin ár verða brautskráningarathafnirnar tvær.
Sú breyting verður nú frá síðustu árum að fyrri athöfnin hefst kl. 10 og þar taka kandídatar í grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi, við útskriftarskírteinum sínum. Alls verða 1165 kandídatar brautskráðir úr grunnnámi að þessu sinni. Í þeirra hópi eru fyrstu nemendurnir sem brautskrást úr BS-námi í íþrótta- og heilsufræði sem hófu nám í Reykjavík eftir að námið var flutt frá Laugarvatni til borgarinnar.
Seinni brautskráningarathöfnina sækja nemendur sem eru að ljúka framhaldsnámi til prófgráðu, þ.e. meistara- og kandídatsnámi, og hefst hún kl. 14. Alls ljúka 845 kandídatar námi á framhaldsstigi frá Háskóla Íslands nú. Þeirra á meðal eru fyrstu nemendurnir sem ljúka MS-prófi í sjúkraþjálfun og þá brautskráist einnig fyrsti nemandinn með M.Ed.-gráðu í menntun án aðgreiningar.
Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum skólans: Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið. Á Félagsvísindasviði verða samtals brautskráðir 557 kandídatar, 491 á Heilbrigðisvísindasviði, 276 á Hugvísindasviði, 364 á Menntavísindasviði og 322 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Samtals útskrifast því 2010 nemendur frá Háskóla Íslands á morgun.
Við athafnirnar flytur rektor Háskóla Íslands ávarp auk þess sem þau Númi Sveinsson, BS í vélaverkfræði, og Aðalbjörg Birgisdóttir, MS í sjúkraþjálfun, ávarpa gesti fyrir hönd brautskráningarkandídata.
Háskóli Íslands brautskráði 444 kandídata í febrúar síðastliðnum og því hafa alls 2454 útskrifast frá skólanum það sem af er ári.
