Skip to main content
24. janúar 2021

Rafmagn komið á í Gimli

Rafmagn komið á í Gimli - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (24. janúar):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Unnið hefur verið ötullega alla helgina á Háskólatorgi og í Gimli við að þurrka og ræsta og koma öllu í eins gott horf og nokkur er kostur eftir flóðið aðfaranótt fimmtudags. Starfið hefur gengið vel.

Rafvirkjar hafa einnig unnið mikið og gott starf í Gimli. Í gær náðist að hleypa þar á straumi að nýju á allar hæðir. Nettenging er einnig komin á í byggingunni. Ekkert er því til fyrirstöðu að regluleg starfsemi hefjist á morgun mánudag á 2. og 3. hæð í Gimli. Áfram verður þó lokað á jarðhæðinni vegna framkvæmda. Sama gildir um jarðhæðina á Háskólatorgi.

Því miður hefur tekið lengri tíma að þurrka gólfið í Stúdentakjallaranum en búist var við í fyrstu. Þar verður opnað fyrir hefðbundna starfsemi kl. 11 nk. þriðjudag.

Opið verður í Hámu og Bóksölu stúdenta á morgun.

Ég vil þakka öllum enn og aftur sem lagt hafa hönd á plóginn í vikunni sem leið og nú um helgina fyrir frábært starf við erfiðar aðstæður.

Ég óska ykkur öllum góðs gengis í vikunni fram undan.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Starfsmaður að störfum í Gimli