Ráðstefna um stöðu lýðræðis á öld stafrænnar tækni

„Á undanförnum tveimur áratugum hafa stafrænar tæknibreytingar — tölvan, internetið, snjallsímar — haft gríðarleg samfélagsáhrif. Í upphafi ríkti mikil bjartsýni á möguleika þessarar tækni til að stuðla að framförum á ólíkum sviðum og auka efnahagslega velsæld og bæta lýðræðið. Nú hefur hins vegar ýmislegt komið í ljós sem hefur grafið undan þessari trú,” segir Irma Erlingsdóttir, dósent og forstöðumaður Rannsóknasetursins EDDU við Háskóla Íslands. Setrið stendur fyrir spennandi alþjóðlegri ráðstefnu í samtarfi við forsætisráðuneytið, Alþingi og fjölmiðlanefnd dagana 25.–26. mars þar sem bæði erlendir og innlendir sérfræðingar fjalla um þær ógnir og tækifæri sem sem lýðræðið stendur frammi fyrir á tuttugustu og fyrstu öldinni, öld stafrænnar tækni.
Ráðstefnan nefnist Democracy in a Digital Future og fer fram rafrænt og í Hörpu. Fyrirlesarar eru fræðimenn í jafn ólíkum greinum og stjórnmálafræði, heimspeki, lögfræði og tölvu- og tæknifræði sem munu ásamt stjórnmálamönnum og sérfræðingum glíma við spurningar um hvert hlutverk stjórnvalda á að vera við að tryggja að tækniþróun taki mið af lýðræðislegum gildum, mannréttindum og grundvallarreglum réttarríkisins. Jafnframt verður fjallað um áhrif ýmissa þátta á lýðræðið eins og vaxtar samfélagsmiðla, útbreiðslu falsfrétta, hnignunar hefðbundinnar fjölmiðlunar, sjálfvirknivæðingar, gagnagnóttar og eftirlitsiðnaðarins.
Tæknin taki mið af þörfum lýðræðisins
„Það felast ýmsir möguleikar í stafrænni tækni til að auka lýðræðislega þátttöku. En til þess að geta nýtt þá verður fyrst að tryggja að tæknin sé þróuð og nýtt með lýðræðisleg markmið í huga. Allar tæknibreytingar eru mótaðar af samfélagslegum þáttum og valdatengslum. Því hefur verið haldið fram að stafræna byltingin hafi verið of mikið á forsendum efnahagsþróunar, hernaðar og öryggisiðnaðarins. Lýðræðið hafi hins vegar setið á hakanum í þessu samhengi. Það á ekki að gera þá kröfu að lýðræðið lagi sig að þörfum tækninnar, heldur tæknin að taka mið af þörfum lýðræðisins,” segir Irma spurð um tæknitengdar ógnir og tækifæri sem lýðræðið stendur frammi fyrir.
Hún bendir enn fremur á að á síðustu árum höfum við orðið vitni að vaxandi stafrænu eftirliti stjórnavalda, sem Edward Snowden afhjúpaði árið 2013, og uppgangi tæknirisa á borð við Facebook, Google og Amazon. „Einn fyrirlesaranna á ráðstefnunni, Shoshana Zuboff, prófessor í viðskiptafræði við Harvard-háskóla, kallar þessi risavöxnu fyrirtæki eftirlitskapítalisma (e. surveillance capitalism). Hann gengur út á það að safna persónulegum gögnum um einstaklinga og selja þau áfram til auglýsenda, stjórnmálaafla og jafnvel stjórnvalda, en slíkar upplýsingar gefa þessum aðilum áður óþekkta möguleika til að stýra hegðun borgaranna, t.d. með því að breiða út falsfréttir,“ segir Irma og spyr hvort hægt sé að standa vörð um lýðræðislega umræðu í upplýsingaumhverfi sem lýtur stjórnun af þessum toga. „Hvað verður um sjálfræði og rétt til einkalífs undir nánu eftirliti einkafyrirtækja og stjórnvalda?“
Fjölbreyttur hópur fyrirlesara
Zuboff er líklega þekkasti fyrirlesari ráðstefnunnar, en hún hefur m.a. sent frá sér bókina „The Age of Surveillance Capitalism: The Fight for a Human Future at the New Frontier of Power“. Hún er jafnframt einn af viðmælendum í Netflix-heimildamyndinni The Social Dilemna um áhrifamátt samfélagsmiðla.
Auk Zuboff tekur David Runciman, prófessor í stjórnmálafræði við Cambridge-háskóla, þátt í ráðstefnunni. Hann er höfundur bókarinnar „How Democracy Ends“ frá árinu 2018 og er annar tveggja umsónarmanna vikulegs hlaðvarps sem nefnist „Talking Politics“.
Aðrir erlendir fyrirlesarar eru Mireille Hildebrandt, prófessor í lögfræði og tæknifræðum við Vrije Universiteit í Brussel sem sérhæfir sig í samspili laga, tölvunarfræði og heimspeki, og Virginia Dignum, prófessor í tölvufræðum við Háskólann í Umeå, sem hefur m.a. gefið út bókina „Responsible Artificial Intelligence: developing and using AI in a responsible way“.Auk þeirra flytja íslensku fræðimennirnir Jón Ólafsson, María Rún Bjarnadóttir og Jón Gunnar Ólafsson erindi á ráðstefnunni og þá taka bæði stjórnmálamenn og sérfræðingar úr íslensku samfélagi þátt í pallborðsumræðum.
Ráðstefnan Democracy in Digital Future er opin öllum áhugasömum en hún fer fram dagana 25. og 26. mars bæði á netinu og í Hörpu eftir því sem samkomutakmarkanir leyfa.

Auka þarf lýðræðislegt aðhald með tækniþróun
Aðspurð hvort hún telji þann vanda sem lýðræðið glímir við þann sama hér á landi og annars staðar tekur Irma undir það, en bendir þó á að hann taki þó á sig ólíkar myndir milli landa. „Tilhneigingin er að tæknin auki á vandamál sem við er að glíma eins og ójöfnuð eða lagskiptingu í samfélaginu. Varðandi áhrif peningaafla í stjórnmálum er Ísland mögulega á betri stað en mörg önnur ríki. En varðandi önnur atriði eins og að hafa áhrif á þróun og stýringu tækninnar þá eru möguleikarnar minni hér“.
Hún bendir hins vegar á að hér á landi hafi almannaþjónustan hingað til treyst miklu minna á gervigreind en í stærri löndum. „Þess vegna standa Íslendingar kannski ekki frammi fyrir jafn flóknum spurningum á því sviði. Þó megi greina vandamál í tengslum við vernd einkalífs sem fámennið veldur og sem gæti þurft að huga betur að sviði“, segir hún.
Þegar talið berst að lausnum til að tæknin nýtist lýðræðinu sem best segir Irma að engar einfaldar lausnir séu til, m.a. vegna þess að þróun og nýting tækninnar er nátengd tekjulíkönum tæknirisanna og hagsmunum stórvelda í alþjóðakerfinu á borð við Bandaríkin og Kína. Mikilvægt sé að auka lýðræðislegt aðhald og umsjón með tækniþróun auk þess sem stjórnvöld geti nýtt sér möguleika sína til að stýra hvaða gögnum má safna, í hvaða tilgangi og takmarkað aðgang auglýsenda og stjórnmálaafla að þeim. Þá þarf að spyrja gagnrýnna spurning um eignarhald og umsvif tæknirisanna, segir Irma.
Fulltrúalýðræðið á undanhaldi
En það er ekki bara tæknin sem þarf vera til stöðugrar skoðunar heldur einnig lýðræðið og hin lýðræðislega þátttaka borgaranna. Irma bendir á að tæknin hafi fært stærri hópum tækifæri til pólitískrar þátttöku sem áður voru ekki fyrir hendi. „Það er til dæmis miklu erfiðara fyrir yfirvöld hverju sinni að stýra umræðunni vegna tilkomu samfélagsmiðla. Tæknin breytir þannig pólitískri virkni og lýðræðinu. Eitt af því sem verður að breytast að mínu mati er skilningur á lýðræðislegri þáttttöku. Fulltrúalýðræði fyrri áratuga er á undanhaldi, en ekkert annað hefur komið í staðinn. Víðtæk þátttaka almennings í umræðu og ákvörðunum er nauðsynleg til að endurheimta traust á stjórnmálunum og þeim stofnunum sem fara með almannavald,“ segir hún að lokum.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna og skráning á hana fer fram á vef Rannsóknasetursins EDDU.
