Skip to main content
31. ágúst 2020

Nýtt frumkvöðla- og sprotasetur opnað í Grósku

Nýtt frumkvöðla- og sprotasetur opnað í Grósku - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindagarðar Háskóla Íslands opna á næstunni framúrskarandi aðstöðu fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á fyrstu stigum í Grósku – hugmyndahúsi í Vatnsmýri þar sem boðið verður upp á vinnuaðstöðu, fjölbreytta fræðslu og þjálfun. Í setrinu verða einnig fjölmörg tækifæri til tengslamyndunar og fullkomin aðstaða fyrir gróskumikið grasrótarstarf, viðburði, vinnusmiðjur, hakkaþon og keppnir. 

Fullkomin vinnuaðstaða fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki í hjarta Vísindagarða
Í sama húsi eru höfuðstöðvar CCP og mörg önnur öflug fyrirtæki og fjárfestar. Setrið er í hjarta Vísindagarða þar sem nú þegar er að finna lyfjafyrirtækið Alvotech og Íslenska erfðagreiningu. 

„Í setrinu viljum við byggja upp framúrskarandi samfélag frumkvöðla með áherslu á að tengja saman viðskipti, tækni og skapandi greinar. Nálægð við háskóla, Landspítala og mörg helstu nýsköpunarfyrirtæki landsins veitir einstakt tækifæri til tilrauna, þekkingarflæðis og verðmætasköpunar,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ.

Með þessu nýja og kraftmikla setri verður til opinn vettvangur fyrir öll þau sem áhuga hafa á nýsköpun og sprotastarfi. Eftirtaldir aðilar hafa aðsetur í setrinu, eru með lausa aðstöðu á sínum snærum og styðja frumkvöðla og sprota til eflingar nýsköpunar í landinu: 

  • Icelandic Startups
  • Auðna - tæknitorg
  • Hönnunarmiðstöð Íslands
  • Ferðaklasinn
  • Vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Vísindagarða og hægt er að sækja um vinnuaðstöðu með því að senda póst á netfangið visindagardar@hi.is.

Um Vísindagarða Háskóla Íslands

Háskóli Íslands stofnaði eignarhaldsfélagið Vísindagarða Háskóla Íslands árið 2004. Félagið starfar í þágu almenningsheilla og er í eigu Háskóla Íslands (94,6%) og Reykjavíkurborgar (5,4%). Markmið Vísindagarða Háskóla Íslands er fyrst og fremst að skapa alþjóðlega viðurkennt tækni- og þekkingarsamfélag á Íslandi sem á virkan hátt hlúir að og tengir saman frumkvöðla, fyrirtæki, háskóla, stofnanir og aðra hagsmunaaðila sem vinna að því að stórefla hagnýtingu rannsókna, nýsköpun og viðskiptaþróun til hagsældar og heilla fyrir land og þjóð.

frá Grósku