Skip to main content
14. júní 2022

Nærri 9.000 umsóknir um grunn- og framhaldsnám við HÍ

Nærri 9.000 umsóknir um grunn- og framhaldsnám við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóla Íslands bárust rösklega fimm þúsund umsóknir um grunnnám og rúmlega 3.800 um framhaldsnám fyrir komandi skólaár, en umsóknarfresti lauk þann 5. júní síðastliðinn. Umsóknafjöldinn er svipaður og á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn en athygli vekur að erlendum umsóknum um nám við skólann heldur áfram að fjölga. 

Samanlagður fjöldi umsókna um grunnnám nú í vor var 5.051. Það er nokkuð minna en undanfarin tvö ár, en þau mörkuðust af kórónuveirufaraldrinum og atvinnuleysi sem fylgdi honum. Háskólar landsins ákváðu þá í samvinnu við menntamálayfirvöld að bregðast við þessu aukna atvinnuleysi með því að opna dyr sínar og mennta fólk til nýrra áskorana. Hefur skólinn aldrei fengið fleiri umsóknir en árin 2020 og 2021 en umsóknir um grunnnám nú eru á svipuðu róli og fyrir faraldur.

Umsóknir um grunnnám dreifast svo á fimm fræðasvið skólans:

Félagsvísindasviði bárust ríflega 920 umsóknir og líkt og fyrri ár er viðskiptafræði vinsælasta greinin innan sviðsins með tæplega 300 umsóknir. Þá sækjast tæplega 180 eftir því að stunda nám í lögfræði og nærri 160 í félagsráðgjöf en ríflega 100 hyggja á nám í hagfræði. Sjötíu og fimm hafa enn fremur sótt um nám í félagsfræði. 

Heilbrigðisvísindasviði bárust rúmlega 1.500 umsóknir, en þar á meðal eru rúmlega 360 nemendur sem þreyttu inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði fyrir helgi. Í læknisfræði verða teknir inn 60 nemendur og 35 í sjúkraþjálfunarfræði en umsækjendur sem ekki fá inngöngu í námsleiðirnar tvær geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí nk. Þrjú hundruð manns hafa sótt um inngöngu í sálfræði og ríflega 250 í hjúkrunarfræði. Af þeim eru um 210 skráð í BS-nám í hjúkrunarfræði, þar sem 120 nemendur komast áfram eftir fyrsta misseri að loknum samkeppnisprófum, og um 40 vilja hefja nám í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem hefur lokið háskólanámi af öðru fræðasvið. Þá fjölgar þeim milli ára sem stefna á nám í tannlæknisfræði en 120 umsóknir bárust um námið í ár samanborið við 110 í fyrra. Þar er einnig stuðst við samkeppnispróf að loknu fyrsta misseri. Enn fremur hafa rúmlega 80 skráð sig í lífeindafræði, tæplega 60 í næringarfræði og um 50 í lyfjafræði. 

Hugvísindasvið fékk nærri 1150 umsóknir um nám að þessu sinni. Þar er íslenska sem annað mál vinsælasta greinin en ríflega 470 umsóknir bárust um annaðhvort BA-nám eða styttra hagnýtt nám í greininni. Þá sækjast ríflega 400 eftir að hefja nám í einhverjum þeirra fjölmörgu tungumála sem í boði eru í Háskóla Íslands, en þar nýtur styttra hagnýtt nám til grunndiplómu í ýmsum tungumálum nokkurra vinsælda. Þar á meðal ný námsleið í kóresku sem tæplega 20 hyggjast sækja næsta vetur. Enn fremur stefna rúmlega 40 á nám í sagnfræði og svipaður fjöldi í heimspeki.

Á Menntavísindasviði eru umsóknirnar um 670. Þar reyndist um fjórðungur umsókna, eða tæplega 170 vera um námsleiðir í grunnskólakennslu með ólíkum áherslum. Auk þess bárust tæplega 60 umsóknir um nám í kennslufræði fyrir iðnmeistara og kennslufræði verk- og starfsmenntunar. Umsóknir um nám í leikskólakennarafræði reyndust 110, tæplega 100 ætla í íþrótta- og heilsufræði og rúmlega 90 í þroskaþjálfafræði.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið fékk tæplega 800 umsóknir að þessu sinni. Þar reyndist fjórðungur, eða 200 umsóknir, vera um nám í tölvunarfræði sem er vinsælasta greinin innan sviðsins. Enn fremur stefna um 350 manns á nám í einhverjum af verkfræði- og tæknifræðigreinum sviðsins, en í þeim hópi eru hugbúnaðarverkfræði og iðnaðarverkfræði vinsælastar. Þá hyggja tæplega 40 umsækjendur á nám í líffræði og um 50 í þrjár námsleiðir skólans á sviði stærðfræði og stærðfræðimenntunar.

Erlendum umsóknum fjölgar áfram

Umsóknir um framhaldsnám við Háskóla Íslands reyndust 3.834 en það er þriðji mesti fjöldi umsókna sem skólanum hefur borist á þessu námsstigi. Félagsvísindasviði skólans bárust flestar umsóknir um framhaldsnám, eða um 1350, en Menntavísindasvið fékk næstflestar, eða nærri 830 umsóknir. Háskóli Íslands leggur vaxandi áherslu á þverfræðilegt framhaldsnám en umsóknir í námsleiðir af þeim toga eru um 330. Þar af bárust um 130 umsóknir um nám í umhverfis- og auðlindafræði, ríflega hundrað um námsleið um menntun framhaldsskólakennara og um 70 um nám í lýðheilsuvísidum. Þessu til viðbótar hafa liðlega 100 manns sótt um doktorsnám við skólann það sem af er ári.

Erlendum umsóknum um nám við Háskóla Íslands hefur fjölgað töluvert á síðustu árum í takt við aukið alþjóðlegt samstarf og áhrif Háskóla Íslands. Þannig eru erlendar umsóknir nú ríflega 1.620 og fjölgar um rúm sex prósent milli ára. Stöðugur vöxtur hefur verið í erlendum umsóknum undanfarin ár en til samanburðar má geta þess að árið 2016 voru slíkar umsóknir rétt rúmlega 1.000.
 

Gróður fyrir framan Háskólatorg