Skip to main content
23. desember 2020

Mikil aðsókn í AWE-nýsköpunarhraðalinn fyrir konur

Mikil aðsókn í AWE-nýsköpunarhraðalinn fyrir konur - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóla Íslands bárust alls 85 gildar umsóknir um þátttöku í nýjum nýsköpunarhraðli fyrir konur sem haldinn er undir merkjum Academy for Woman Entrepreneurs (AWE) í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Tuttugu og fimm konur hafa verið valdar til þátttöku í hraðlinum sem hefst snemma á nýju ári.

Hraðallinn er nú haldinn í fyrsta sinn en markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Hann er ekki síður hugsaður fyrir þær konur sem þegar hafa sett á stofn fyrirtæki og vilja styrkja rekstrargrundvöll þess.

AWE-verkefnið er í boði á alþjóðavísu á vegum bandarískra stjórnvalda. Það samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um í samstarfi við öflugan og reyndan hóp kvenna úr atvinnulífi og nýsköpunargeiranum á Íslandi. 

Þær Fida Abu Libdeh, forstjóri og annar stofnenda GeoSilica, og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, vöru- og markaðsstjóri Florealis, verða mentorar á námskeiðinu en báðar búa þær að mikilli reynslu innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Þá munu sérfræðingar innan og utan Háskólans, m.a. frá Félagi kvenna í atvinnulífi, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og Ungum athafnakonum, einnig koma að hraðlinum. 

Auglýst var eftir þátttakendum í hraðlinum í nóvember síðastliðnum í kjölfar kynningarfundar og ljóst er af umsóknafjöldanum að mikil þörf er fyrir hraðal af þessu tagi. Alls bárust 85 gildar umsóknir og valdi sérstök nefnd 25 konur úr hópi umsækjenda til þátttöku í hraðlinum. Þær koma alls staðar af landinu og hafa mismunandi bakgrunn og reynslu í farteskinu. Þess ber þó að geta að allir umsækjendur fá aðgang að Dreambuilder-námskeiðinu og geta stuðst við það við að láta viðskiptahugmynd sína verða að veruleika.

Upphafsfundur hraðalsins verður þann 4. janúar næstkomandi en í framhaldinu taka við vinnulotur sem eru sérsniðnar að íslenskum aðstæðum og snerta m.a. markaðsmál, stofnun fyrirtækja á Íslandi, tengslanet, öflun styrkja, hugverkamál og samfélagsmiðla svo eitthvað sé nefnt. Hraðlinum, sem er alfarið á netinu, lýkur svo þann 12. mars með útskrift og lokahófi.

Nánari upplýsingar um AWE-hraðalinn eru á awe.hi.is og á Facebook-síðu þess.

""