Skip to main content
28. apríl 2019

Lestin er að fara

Vorið er komið og það þýðir Háskólest Háskóla Íslands rúllar af stað um landið. Lestin hefur verið starfrækt frá aldarafmælisári Háskóla Íslands árið 2011 og áherslan í starfi hennar er á að kynna vísindi á lifandi, skemmtilegan og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki.

Háskólestin hefur heimsótt vel á fjórða tug sveitarfélaga um allt land frá síðustu átta árum en lestin stoppar alla jafna í tvo daga á hverjum stað, föstudag og laugardag. Á föstudeginum tekur áhöfn Háskólalestarinnar að sér kennslu í efri bekkjum grunnskóla á staðnum og býður þar upp á fjölmörg spennandi námskeið úr Háskóla unga fólksins. Á laugardeginum er svo slegið upp vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna og þar geta gestir á öllum aldri spreytt sig á alls kyns þrautum, tækjum og tólum. Veislan fer ýmist fram í félagsheimili eða íþróttahúsi staðarins.

Háskólalestin heimsækir fjögur sveitarfélög að þessu sinni en það eru: Hveragerði (3. - 4. maí), Bolungarvík (10. - 11. maí), Fjallabyggð (17. - 18. maí) og Djúpivogur (24. - 25.maí). Áhöfnin tók enn fremur forskot á sæluna með svokallaða smálest í Njarðvíkurskóla þann 8. apríl sl.
 

Á fyrsta áfangastað ferðarinnar, Hveragerði, taka nemendur í sjöunda til tíunda bekk grunnskólans þátt í völdum námskeiðum úr Háskóla unga fólksins. Í boði verða samtals tíu námskeið fyrir unga fólkið um bókstaflega allt milli himins og jarðar því þau fjalla um stjörnufræði, eðlisfræði af ýmsum toga, efnafræði, tómstunda- og félagsmálafræði, forritun, japönsku, fornleifafræði, vindmyllusmíði og vísindaheimspeki.

Litrík vísindaveisla fer síðan fram í íþróttahúsi grunnskólans í Hveragerði laugardaginn 4. maí. Þangað eru allir heimamenn og nærsveitamenn velkomnir enda er um sannkallaða fjölskylduskemmtun að ræða þar sem kynslóðirnar spreyta sig í sameiningu á ýmsum skemmtilegum viðfangsefnum og gera óvæntar uppgötvanir.

Hægt er að forvitnast frekar um Háskólalestina á heimasíðu hennar

Nemendur í Háskólalestinni