Krummi á Háskólatónleikum á netinu frá Stúdentakjallaranum

Tónlistarmaðurinn Krummi Björgvinsson treður upp ásamt meðspilurum á Háskólatónleikum í Stúdentakjallaranum 24. mars kl. 14. Þetta verður í fyrsta sinn sem áhorfendur verða leyfðir á tónleikum í vetur en þeim verður líka streymt.
Slóð á streymi frá tónleikunum
Krummi hefur nú verið starfandi sem tónlistarmaður í tvo áratugi og var hann t.d. í forvígi rokksveitarinnar Mínus upp úr aldamótum. Krummi er bæði fjölsnærður og leitandi og til marks um það hefur hann sinnt margvíslegum og ansi ólíkum tónlistarverkefnum, t.a.m. kuldarokkssnilldinni LEGEND. Sem sólólistamaður hefur hann hins vegar leitað í brunn kántrís, þjóðlagatónlistar og blús og er fyrsta breiðskífa hans með slíku efni væntanleg nú í vor. Lög með Krumma hafa ómað á öldum ljósvakanna undanfarin misseri og það verður spennandi að sjá þau viðruð í notalegum salarkynnum Stúdentakjallarans.
Tónleikarnir fara fram miðvikudaginn 24. mars og hefjast leikar kl. 14 sem fyrr segir. Tónleikunum verður streymt en Stúdentakjallarinn er auk þess með opið fyrir gesti. Um er að ræða tvö sóttvarnarhólf og komast 40 gestir fyrir í hvoru þeirra, alls 80 manns. Gildandi sóttvarnarreglum er fylgt og eru væntanlegir gestir beðnir um að spritta sig vel og bera grímu þar til sest er við borð. Einnig er hægt er að njóta tónleikana síðar í upptökuformi. Allir velkomnir og aðgangur gjaldfrjáls.
