Skip to main content
14. ágúst 2020

Hlaut styrk úr Hrafnkelssjóði til doktorsnáms

Áttunda styrkveiting Hrafnkelssjóðs fór fram skrifstofu Stúdentaráðs Háskóla Íslands í gær. Vegna aðstæðna voru fáir viðstaddir styrkveitinguna, en hefð er fyrir því að efna til afhendingu þar sem styrkþega og fulltrúum styrktarhóps Hrafnkelssjóðs er boðið. Styrkurinn í ár hljóðaði upp á 1.500.000 krónur. Auglýst var eftir umsækjendum í gegnum almennan háskólapóst, í Stúdentablaðinu, á heimasíðu Stúdentaráðs og á samfélagsmiðlum. Umsóknirnar voru alls 31 og fjölmargir afburðanámsmenn sóttu um.

Stjórn Hrafnkelssjóðs ákvað á fundi þann 10. ágúst 2020 að veita Sigfúsi Helga Kristinssyni styrk úr sjóðnum. Námsferill Sigfúsar er glæstur en hann hefur lokið BA-prófi í íslensku og MS-prófi í talmeinafræði frá Háskóla Íslands. Hann á einnig að baki veglegan feril í fræðaskrifum sem og rannsóknarstörfum. Styrkurinn mun nýtast Sigfúsi í doktorsnámi sínu í talmeina- og taugafræði við Háskólann í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum. Samhliða náminu starfar hann á rannsóknarstofunni Center for the Study of Aphasia Recovery sem sérhæfir sig einna helst í rannsóknum á forspárþáttum fyrir svörun við meðferð við málstoli.

Um Hrafnkelssjóð

Hrafnkelssjóður var stofnaður 1930 af hjónunum Ólafíu Guðfinnu Jónsdóttur og Einari Þorkelssyni til minningar um son þeirra, Hrafnkel Einarsson, sem lést síðla árs 1927 skömmu fyrir lokapróf í hagfræði hjá háskólanum í Vínarborg, þá aðeins 22 ára gamall. Við stofnun sjóðsins 1930 var ákveðið að Hrafnkelssjóður yrði virkur þegar öld vær liðin frá fæðingu Hrafnkels.

Fyrsta úthlutun úr sjóðinum var því á afmælisdegi Hrafnkels 13. ágúst árið 2005. Hlutverk sjóðsins er að veita íslenskum stúdentum styrk, þeim er þess þurfa, til þess að sækja nám við erlenda háskóla og skiptir ekki máli, þó að þeir geti notið sams konar náms við Háskóla Íslands. Til að eiga möguleika á að hljóta styrk úr sjóðnum þurfa stúdentar meðal annars að hafa lokið íslensku stúdentsprófi með að minnsta kosti annarri einkunn, hafa kynnt sig af námsfýsi, drengskap og háttprýði að dómi kennara sinna og skólasystkina og hyggi á nám erlendis, annaðhvort á meistarastigi eða til doktorsgráðu.

Frá afhendingu styrksins 13. ágúst 2020.  Frá vinstri: Hulda Ólöf Njarðvík Einarsdóttir, Sigfús Helgi Kristinsson og Isabel Alejandra Díaz  forseti Stúdentaráðs og formaður sjóðsstjórnar.