Hildur og Jón hlutu fálkaorðuna
Hildur Kristjánsdóttir, ljósmóðir og dósent við Hjúkrunarfræðideild, og Jón Ólafsson, prófessor emeritus í haffræði við Jarðvísindadeild, voru sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní sl. við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Hildur Kristjánsdóttir hlýtur fálkaorðun fyrir störf sín í þágu ljósmæðra og skjólstæðinga þeirra. Hún útskrifaðist sem ljósmóðir árið 1979 frá Ljósmæðraskóla Íslands og lauk námi í hjúkrunarfræði árið 1986. Hún hefur einnig lokið námi til kennsluréttinda og meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum ásamt diplómanámi í lýðheilsufræðum. Hildur hefur verið stundakennari við námsbraut í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands frá upphafi, varð aðjúnkt árið 2001, lektor árið 2013 og síðar dósent.
Rannsóknarstörf hennar hafa m.a. beinst að barneignarþjónustu á Íslandi, útkomu hennar og áhrif á heilsfar kvenna og barna þeirra. Einnig hefur hún unnið í fjölþjóðlegum rannsóknarhópi um ofbeldi gagnvart konum í tengslum við barneignarferlið.
Auk starfa fyrir Háskóla Íslands hefur Hildur starfað sem ljósmóðir, verkefnisstjóri og hjúkrunarfræðslustjóri á Landspítala, við mæðravernd innan heilsugæslunnar og hjá Embætti landlæknis. Enn fremur hefur Hildur komið að mikilvægum félagsmálum fyrir hönd Ljósmæðrafélags Íslands og verið fulltrúi félagsins í stjórn Norðurlandasamtaka ljósmæðra síðan árið 1986, m.a. sem formaður.
Jón Ólafsson hlýtur fálkaorðu fyrir rannsóknir, fræðistörf og kennslu á sviði haffræði. Jón lauk BS-prófi í efnafræði og haffræði frá Háskólanum í Wales árið 1968, meistaragráðu í haffræði frá Liverpool-háskóla árið 1974 og doktorsgráðu í greininni frá sama skóla árið 2007.
Jón hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 1994 en hann hefur sinnt kennslu við skólann allt frá þeim tíma. Jón starfaði um árabil hjá Hafrannsóknastofnun, m.a. sem forstöðumaður sjó- og vistfræðideildar stofnunarinnar. Sem starfsmaður háskólans hafði Jón rannsóknaaðstöðu á Hafrannsóknastofnun.
Jón hefur rannasakað sjó og stöðuvötn. Hann hefur tekið þátt í fjölda alþjóðlegra rannsóknaverkefna, t.d. á vegum Norðurlandaráðs og Evrópusambandsins, og eftir hann liggur mikill fjöldi rannsókna sem snertir m.a. mengun og næringarefni í hafinu í kringum Íslands. Jón er jafnframt frumkvöðull í rannsóknum á súrnun sjávar hér við land.