Skip to main content
17. nóvember 2017

Háskóli Íslands tekur þátt í leiðandi neti í opinni vefkennslu

Háskóli Íslands er orðinn hluti af edX, alþjóðlegu og leiðandi neti háskóla sem bjóða opin netnámskeið. edX er stofnað af bandarísku háskólunum Harvard og MIT. Tilgangur þátttöku Háskólans í edX er að auka aðgengi að öflugu og spennandi námi, koma þekkingu innan skólans á framfæri á alþjóðavettvangi og þróa kennsluaðferðir í takt við örar breytingar á tækni og samfélagi. 

Samstarf edX og Háskóla Íslands var kynnt sérstaklega í dag en virtir háskólar um heim allan eru hluti af þessu öfluga samstarfsneti. edX býður fjölda opinna og spennandi netnámskeiða sem nefnd hafa verið MOOC eða Massive Open Online Courses.  

„edX er einn helsti vettvangur opinna  námskeiða fyrir almenning á alþjóðavísu og er samstarfsnetið sérstaklega þekkt fyrir að bjóða upp á góð og áhugaverð námskeið á vegum flestra virtustu háskóla heims,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar skólinn hóf samstarfið við edX í dag. 

„Það er Háskóla Íslands mikill heiður að vera boðin þátttaka í edX og mun samstarfið efla enn frekar þróun kennsluhátta við skólann bæði fyrir fjar- og staðnámi. Með þátttöku í edX er Háskóli Íslands orðinn hluti af spennandi þróun og getur nýtt þetta samstarf við að efla kennsluhætti við skólann,“ sagði Jón Atli.

„Við erum himinlifandi yfir samstarfinu við Háskóla Íslands og þeim tækifærum sem nú gefast við að miðla þekkingu Háskólans á íslensku samfélagi, atvinnulífi og sögu til rösklega 13,8 milljóna námsmanna edX um allan heim. Þetta samstarf er liður í því sameiginlega verkefni okkar að auka aðgengi að námi fyrir allt námsfólk, alls staðar,“ sagði Anant Agarwal, framkvæmdastjóri edX og prófessor við MIT, um aðild Háskóla Íslands. 

Fyrsta námskeið Háskólans í edX samstarfinu verður í norrænum miðaldafræðum og ber það heitið The Medieval Icelandic Sagas. Í námskeiðinu verða Íslendingasögurnar í háskerpu með öllum sínum undrum, æsandi viðburðum, mögnuðum tilsvörum og litbrigðum í mannlífi.    

„Fjöldi þátttakenda í edX netnámskeiðum af þessu tagi getur vel farið upp í tugi og jafnvel hundruði þúsunda,“ sagði Hjalti Snær Ægisson, sem verður aðalkennari námskeiðsins. „Mesti fjöldi þátttakenda í opnu netnámskeiði á edX til þessa var á námskeið í enskri ritun sem u.þ.b. hálf milljón manns hefur sótt á netinu.“ 

„Þátttaka í edX hefur margs konar ávinning í för með sér fyrir Háskóla Íslands, jafnt starfsmenn og nemendur. Háskólanám er að taka breytingum með tilkomu nýrrar tækni. Þátttaka í edX gefur skólanum færi á að koma okkar fræðum á framfæri á alþjóðavísu, bjóða upp á nám fyrir hópa sem hafa ekki haft aðgang að því hingað til og styrkir notkun upplýsingatækni í kennslu við Háskólann. Í nýlegri stefnu Háskóla Íslands er lögð rík áhersla á þróun náms og kennslu við skólann og er þátttaka í edX sannarlega í þeim anda,“ sagði Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar við Háskólann.

Jón Atli, rektor, tekur í sama streng og segir að nemendur við skólann kalli í auknum mæli eftir fjölbreyttum kennsluháttum og ýmsir kennarar noti nú þegar opin netnámskeið og fylgi kennsluháttum í anda þeirra. „Með þátttöku Háskóla Íslands í edX skapast tækifæri til að fá betri yfirsýn yfir það sem er að gerast í framsækinni vefkennslu og nýta þá reynslu og þekkingu sem þar er til staðar til að gera enn betur heima fyrir,“ sagði Háskólarektor. 

Heimasvæði Háskóla Íslands á edX-vefsvæðinu

Heimasvæði námskeiðis Háskóla Íslands á edX

Bein útsending af viðburðinum á Facebook 

""