Funi með Fantasía Flamenca á fyrstu háskólatónleikunum

Nýtt starfsár í háskólatónleikaröðinni hefst miðvikudaginn 27. september nk. en þá flytur Fantasía Flamenca flamengótónlist af ýmsum toga á Litla torgi Háskólatorgs kl. 12.30. Ný verk eftir Símon H. Ívarsson gítarleikara eru m.a. á efnisskránni.
Hópinn Fantasía Flamenca skipa gítarleikararnir Símon H. Ívarsson og Ívar Símonarson, Hrafnkell Sighvatsson sem leikur á bassa, slagverksleikarinn George Lodewijk Claassen og Ástrún Friðbjörnsdóttir sem sér um sönginn.
Tónlistarfólkið sem skipar Fantasíu Flamenca sérhæfir sig í flutningi flamengótónlistar, spænskrar tónlistar sem á rætur sínar að rekja til Mára, gyðinga og sígauna í Andalúsíu á Suður-Spáni. Margir Íslendingar hafa einhver kynni haft af tónlistinni og hrifist af henni án þess þó að þekkja mikið til bakgrunns eða uppruna. Djúp tjáning, jafnt þjáningar sem sorgir og gleði, snertir alla sem hlýða á þessa sérstöku tónlist.
Fantasía Flamenca er eini starfandi tónlistarhópurinn sem sérhæfir sig í að flytja flamengótónlist hérlendis. Á tónleikunum flytur hópurinn hefðbundna flamengótónlist í bland við nýrri útfærslur. Jafnframt leikur hópurinn helstu form flamengótónlistarinnar eins og Soleares, Bulerias, Danza Mora, “Rumba gitana” og einnig sjaldheyrðari form eins og Zambra gitana. Lögin eru m.a. eftir Estrella Morente, Carlos Gardel og Símon H. Ívarsson en á tónleikunum verða frumflutt tvö lög eftir hann. Flest laganna eru í útsetningu Fantasía Flamenca.
Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.
